Kjörið Viðar Jónsson með viðurkenningu Audreyjar Freyju Clarke, Davíð Búi Halldórsson, Kolbrún Ingólfsdóttir, móðir Dagnýjar Lindu, Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri og Þröstur Guðjónsson, formaður ÍBA.
Kjörið Viðar Jónsson með viðurkenningu Audreyjar Freyju Clarke, Davíð Búi Halldórsson, Kolbrún Ingólfsdóttir, móðir Dagnýjar Lindu, Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri og Þröstur Guðjónsson, formaður ÍBA. — Ljósmynd/Þórir Tryggvason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
DAGNÝ Linda Kristjánsdóttir úr Skíðafélagi Akureyrar var kjörin íþróttamaður Akureyrar fyrir nýliðið ár. Þetta var kunngjört í hófi sem Íþróttabandalag Akureyrar hélt í samstarfi við íþróttaráð Akureyrar í Ketilhúsinu í vikunni.

DAGNÝ Linda Kristjánsdóttir úr Skíðafélagi Akureyrar var kjörin íþróttamaður Akureyrar fyrir nýliðið ár. Þetta var kunngjört í hófi sem Íþróttabandalag Akureyrar hélt í samstarfi við íþróttaráð Akureyrar í Ketilhúsinu í vikunni.

Dagný Linda hefur verið fremsta skíðakona Íslendinga undanfarin ár. Kynnir hófsins í vikunni sagði m.a. um Dagnýju: „Stærsta verkefni hennar á árinu 2007 var heimsmeistaramótið í Åre í Svíþjóð þar sem hún stóð sig með miklum ágætum í harðri keppni. Þar varð Dagný í 26. sæti bæði í bruni og risasvigi og 45. sæti í stórsvigi. Dagný Linda varð tvisvar í hópi 20 bestu á Evrópubikarmótaröðinni og tók alls þátt í 18 heimsbikarmótum á árinu. Hún náði frábærum árangri á sænska meistaramótinu þar sem hún varð í þriðja sæti í bruni og fimmta sæti í tvíkeppni. Þá varð hún þrefaldur Íslandsmeistari.“ Dagný Linda er erlendis við æfingar og keppni og móðir hennar, Kolbrún Ingólfsdóttir, tók við viðurkenningu hennar.

Annar í kjörinu að þessu sinni varð Davíð Búi Halldórsson, blakmaður í KA. Fram kom í hófinu að Davíð Búi hefði um árabil verið einn albesti leikmaður KA í blaki. „Síðastliðið ár var þó óvenjuglæsilegt hjá honum og er það samdóma álit flestra að hann hafi verið besti leikmaður Íslandsmótsins 2006-2007 og hann var kjölfestan í liði KA í úrslitaleik bikarkeppninnar þá um vorið. Að auki skoraði hann flest sóknarstig á Íslandsmótin og vann reyndar heildarstigakeppnina með yfirburðum. Blaksamband Íslands valdi hann blakmann ársins 2007,“ sagði kynnir kvöldsins um Davíð Búa.

Þriðja í kjörinu að þessu sinni var Audrey Freyja Clarke úr Skautafélagi Akureyrar. Fram kom í hófinu að listskautaíþróttin væri ung á Akureyri; þegar Audrey Freyja Clarke hóf ferilinn á útisvelli árið 1997 voru 6 iðkendur en eru nú yfir 130 og það væri ekki síst fyrir góða fyrirmynd hennar sem iðkanda, keppanda og þjálfara. „Hún hefur orðið Íslandsmeistari í Juniorflokki fimm sinnum á síðustu sex árum og í haust varð hún bikarmeistari í Seniorflokki. Síðastliðið vor var Audrey Freyja valin í fyrsta landslið Íslands í þessari íþrótt,“ var sagt um skautakonuna.

Íþróttaráð Akureyrar veitti fjórar heiðursviðurkenningar á hátíðinni. Helga Sigurðardóttir og Benedikt Sigurðarson fengu viðurkenningu fyrir störf sín í þágu sundíþróttarinnar, Guðmundur Brynjarsson fyrir starf og uppbyggingu skotíþróttarinnar og Gunnar Hallsson fékk viðurkenningu fyrir störf og uppbyggingu siglingaíþrótta á Akureyri.

Í hnotskurn
» Fjórtán voru tilnefndir í kjörinu. Auk þriggja efstu: Andri Snær Stefánsson, Baldvin Ari Guðlaugsson, Baldvin Þór Gunnarsson, Bjarki Gíslason, Bryndís Rún Hansen, Björn Guðmundsson, Haukur Svansson, Kristján Skjóldal, Óðinn Ásgeirsson, Sigurður Áki Sigurðsson og Stefán Thorarensen.