Ástarpáfinn Myers Mike Myers birtist í allri sinni reisn í The Love Guru 20. júní, sem er fyrsta, bitastæða gamanmyndin hans frá velgengnisárum Austins Power.
Ástarpáfinn Myers Mike Myers birtist í allri sinni reisn í The Love Guru 20. júní, sem er fyrsta, bitastæða gamanmyndin hans frá velgengnisárum Austins Power.
Verkfall handritshöfunda í Hollywood er farið að taka sinn toll. Urmull kvikmynda, sem að öllu jöfnu væru komnar í fullan gang í framleiðslu, hefur verið settur í biðstöðu og nú berast fréttir af sambærilegum niðurskurði á sjónvarpsefni.

Verkfall handritshöfunda í Hollywood er farið að taka sinn toll. Urmull kvikmynda, sem að öllu jöfnu væru komnar í fullan gang í framleiðslu, hefur verið settur í biðstöðu og nú berast fréttir af sambærilegum niðurskurði á sjónvarpsefni. Eigi að síður er búist við hörðum slag á sumarmarkaðnum þegar kvikmyndaverin slást um peninga unglinganna.

Eftir Sæbjörn Valdimarsson

saebjorn@heimsnet.is

Stálin stinn mætast frammi fyrir samningaborðinu í Hollywood þessar vikurnar og það gengur hvorki né rekur í harðsnúnum samningaumleitunum framleiðenda og handritshöfunda. Verkfallið er orðið dýrt og skaðlegt báðum aðilum, en mikið ber á milli. Urmull kvikmynda, sem að öllu jöfnu væru komnar í fullan gang í framleiðslu, hefur verið settur í biðstöðu og nú berast fréttir af sambærilegum niðurskurði á sjónvarpsefni.

Reyndar kveður við annan tón hjá einu kvikmyndaveri, hinu fornfræga, nú niðurnídda United Artists. Þar á bæ ræður ríkjum Tom nokkur Cruise, en menn eru hættir að taka hann jafn alvarlega og áður. Þessi vinsæli leikari og lúsheppni framleiðandi hefur hagað sér einkennilega að undanförnu, sent frá sér dularfullar yfirlýsingar og þátttaka hans í Vísindakirkjunni er umdeild sem fyrr. Verst af öllu er staðreyndin að Cruise hefur sýnt ótrúlegt dómgreindarleysi við val á síðustu viðfangsefnum, sem hann hefur jafnframt framleitt, og tröllasögur ganga af Valkyrie , nýjustu stórmyndinni hans. Af henni er það nýjast að frétta að Cruise og félagar treystu henni ekki í komandi sumarslag, þar sem hún átti að gera stóra hluti. Þannig að menn hrista höfuðið yfir samningaviðræðum stjörnunnar og sjá þær ekki móta stefnubreytingu í launadeilunni við handritapenna iðnaðarins.

Kvikmyndaverin eru enn að telja metgróðann sem varð af helstu framhaldsmyndum og endurgerðum síðasta sumars og gerði 2007 að góðu aðsóknarári. Heimurinn lá flatur fyrir síðustu köflunum um sjóræningja Karíbahafsins, Kóngulóarmanninn, Leðurblökumanninn, Shrek, Bourne og Harry Potter auk frummynda um Simpson-fjölskylduna og Transformers – svo nokkuð sé nefnt.

Það breytir engu að þrátt fyrir mótvind eru kvikmyndaframleiðendur í Hollywood farnir að hugsa sér gott til glóðarinnar hvað snertir sumarið 2008 og velta fyrir sér markaðstengdum spurningum á borð við hvor hafi betur, Steve Carrell í endurgerð Get Smart , eða Mike Myers í The Love Guru . Síðasta sumar seldust bíómiðar fyrir rösklega fjóra milljarða Bandaríkjadala, sem var aukning um 9% frá árinu á undan. Endurskoðunarfyrirtæki eru einnig að komast að því að árið í heild skilar 9,6 milljörðum, sem er aukning upp á aðeins 2%, sem gerir ekki betur en að halda í horfinu. Ef kvikmyndaiðnaðurinn ætlar að sýna aukningu í miðasölu, þarf hann nauðsynlega á fleiri smellum að halda sem skila meira en 300 milljónum dala. Það ætti ekki að vera fjarlægt takmark, því þeir voru einir fimm á árinu sem var að líða.

Aðferðin sem Hollywood-iðnaðurinn notar til að fjölga stóru aðsóknarmyndunum er ekki flókin en kostnaðarsöm og byggist á því að dreifa fleiri og fleiri myndum árlega. Árið 2004 voru 474 myndir frumsýndar í fjölsalabíóum N-Ameríku, næstu tvö árin fjölgaði þeim um þriðjung og voru orðnar 599. Þessi einfalda aðferðafræði gerir m.a. að verkum að fjölmargar myndir höfða til sama áhorfendahóps og eru síðan frumsýndar sömu helgina en aðeins ein nær markmiðinu. Ef myndirnar höfða hins vegar til fleiri hópa lítur dæmið betur út og skemmst að minnast jólamyndanna. Þar stóðu tvær myndir upp úr sægnum, með pálmann í höndunum: framtíðartryllirinn I Am Legend – fyrir unglinga og fullorðna, og Alvin og íkornarnir sem flokkast undir meinlausustu fjölskylduskemmtun.

Þrátt fyrir fyrirsjáanlega fækkun á titlum á sumarmyndum sakir verkfallsmálanna, sjá framleiðendur fram á lítið síðri samkeppni og hafa nokkrar kvikmyndir leitað nýs hælis í átökunum framundan. Frumsýningardagur fyrrgreindrar Valkyrie hefur verið fluttur frá júní til október; Frumsýningardagur Nights in Rodanthe , með Richard Gere, verður færður frá júní til september, og MGM hefur frestað Fame frá ágúst til jóla. Tvær myndir hafa aftur á móti flust inn á sumartímann: The Chronicles of Narnia: Prince Caspian , sem átti að sýna í vetur, verður sýnd í maí og Wanda , með Angelinu Jolie, hefur göngu sína í júní í staðinn fyrir mars.

Hvað sem öllu líður verða uppgjör óumflúin þegar kemur að hinum þéttsetnu, afdrifaríku hásumarhelgum. Kíkjum að lokum á hverjar berast á banaspjót á aðalhelgunum sex – samkvæmt sýningarplönunum eins og þau líta út í dag:

2. maí : Tæknilega er sumarið ekki hafið fyrir vestan, en þetta er engu að síður fyrsta „stóra“ helgi árstíðarinnar og þá líta dagsins ljós teiknimyndasöguhetjan Iron Man , með Robert Downey Jr., og Patrick Dempsey (sem öðlaðist nýtt líf í Enchanted ) mætir í slaginn í rómantísku gamanmyndinni Made of Honor , ásamt Michelle Monaghan. Iron Man tekur þessa helgi léttilega.

16. maí : Hér verður grimmt barist því Speed Racer , teiknimyndahetjusaga Wachowski-bræðra ( Matrix ), verður í bullandi samkeppni við gamanmyndina What Happened in Vegas , með Cameron Diaz, og Chronicles of Narnia: Prince Caspian . Legg veðféð á þá síðasttöldu

20. júní : Mike Myers birtist í allri sinni reisn í The Love Guru , sem er fyrsta, bitastæða gamanmyndin hans frá velgengnisárum Austins Power. En hann mun lenda í tvísýnni baráttu við nýstirnið Steve Sarrell í Get Smart . Myers hefur vinninginn.

11. júlí : Það leggur enginn í að keppa við Will Smith og Hancock, helgina á undan, en nú hvolfist yfir hann samkeppni frá Journey 3-D (í iðrum jarðar niður um „konunginn“, Snæfellsjökul), með Brendan Fraser; Tropic Thunder með Ben Stiller og Hellboy II ., með Ron Pealman. Óræður slagur.

18. júlí : Þessa helgardaga takast á Mamma Mia , með Meryl Streep fremsta í flokki, og The Dark Knight – sem skartar sjálfum Leðurblökumanninum og verður sjálfsagt, með fullri virðingu fyrir Svíunum söngelsku, yfirburðasigurvegari og ein stærsta mynd ársins.

8. ágúst : Talandi Chihuahua-hundstíkur Disneyveldisins í Suður um höfin South of the Border , lenda í ójöfnum slag við nýjustu Mummy-myndina, Tomb of the Dragon Emperor . Fyrri myndirnar eiga marga, trygga aðdáendur og stinga rakkana af.