Framtíðin? Er kjarnorka framtíðarorkugjafi? Barn leikur sér í Kjarnorkuvísindasafninu í Seúl.
Framtíðin? Er kjarnorka framtíðarorkugjafi? Barn leikur sér í Kjarnorkuvísindasafninu í Seúl. — Reuters
Eftir Guðna Elísson gudnieli@hi.is Í bloggfærslu sem Egill Helgason birtir á heimasíðu sinni 13.

Eftir Guðna Elísson

gudnieli@hi.is

Í bloggfærslu sem Egill Helgason birtir á heimasíðu sinni 13. janúar vísar hann í frétt úr Viðskiptablaðinu þar sem segir að ríkisstjórn Gordons Brown hafi tekið af skarið í kjarnorkumálum, en búist sé við því að „bresk stjórnvöld gefi grænt ljós á nýja kynslóð kjarnorkuvera og bindi þar með enda á margra óvissu um framtíðaráætlanir þeirra í orkumálum“. Fyrir þessari hugarfarsbreytingu eru líklega tvær megin ástæður. Hátt olíuverð sem gerir kjarnorku samkeppnishæfa og nýjar „áherslur á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda hafa ýtt undir notkun hennar“. Egill segir þessa hugarfarsbreytingu fagnaðarefni og bætir við að ef „eitthvað [sé] að marka kenningar um hlýnun andrúmsloftsins [hljóti] mikilvægi kjarnorkunnar að aukast mjög næstu áratugi. Umhverfisverndarsinnar sem eru á móti því sýna í raun mikið ábyrgðarleysi. Sir David King, fyrrverandi vísindaráðgjafi bresku stjórnarinnar, heldur því fram að loftslagsbreytingar séu mesti vandi sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir. Um leið segist hann óttast að marga umhverfisverndarsinna dreymi innst inni um að færa okkur aftur á 18. öld. En það er ekki framkvæmanlegt segir hann. Við verðum að leita tæknilegra lausna og þar blasir við að kjarnorkan er bæði öflug og umhverfisvæn. Gamla slagorðið no nukes er alveg úrelt.“

Áður en lengra er haldið vil ég benda á tvo galla í málflutningi Egils sem virðist gera sjónarmið Kings að sínum. Hvers vegna telur hann þá umhverfisverndarhópa sem berjast gegn kjarnorku á tímum loftslagsbreytinga sýna ábyrgðarleysi á sama tíma og hann átelur ekki afneitunarsinnana opinberlega, þá sem segja að allt sé í fínasta lagi og við eigum ekkert að gera? Ein skýring þessa gæti verið sú að Egill hefur í gegnum tíðina gert sér dælt við skoðanir þeirra sem vilja halda að sér höndum en með framangreindum orðum sínum telur hann sig líklega koma höggi á umhverfisverndarhreyfinguna. Að sama skapi skil ég illa þá yfirlýsingu Egils að gamla slagorðið gegn kjarnorkuvopnavæðingu falli úr gildi sé kjarnorka nýtt í friðsamlegum

tilgangi.

Líklega má rekja afdráttarlausan grun Sir Davids King („There is a suspicion, and I have that suspicion myself“) í breska blaðinu The Guardian frá síðustu helgi (en í þá frétt vísar Egill líklega í bloggi sínu) um að stór hluti græningja afneiti tækninni og horfi þess í stað til sautjándu og átjándu aldarinnar, til þeirrar staðreyndar að hann vill auglýsa nýju bókina sína Hot Topic: How to Tackle Global Warming and Still Keep the Lights On , sem er væntanleg í bókabúðir í næstu viku. Hér er svo sannarlega á ferðinni heitt umræðuefni, því að svona yfirlýsingar eru líklegar til þess að rata í heimspressuna og margfalda sölu bókarinnar. Ummæli Kings eru þó sérlega óheppileg vegna þess að þar tekur hann upp þá varhugaverðu mælskufræði sem harðlínumenn á hægri væng stjórnmálanna hafa tileinkað sér, en samkvæmt henni afneita umhverfisverndarsinnar tækninni og þægindum hennar með öllu og vilja halda aftur til náttúrunnar. Hugmyndir þeirra eru samkvæmt kennisetningunni ógn við þann lífsstíl sem Vesturlandabúar hafa tamið sér á síðustu áratugum. Ekki þarf að horfa lengra en til skrifa Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í Lesbókinni síðustu vikurnar til að finna staðfestingu þessa. En afdráttarlaus grunur Kings er ekki aðeins óheppilegur, hann er einnig ekki á rökum reistur vegna þess að enginn umhverfisverndarsinni sem vill láta taka mark á sér myndi setja fram þær kröfur að Vesturlandabúar snúi til lífshátta sem tíðkuðust fyrir daga vélvæðingar.

Krafa umhverfisverndarhreyfinga hefur fremur verið sú að einblína á nýja tækni, framtíðarlausnir eins og kolefnisbindingu, leiðir til að beisla vindorku, sjávarföll, jarðhita, vatnsorku eða geisla sólar. Eins og John Sauven hjá Greenpeace lét hafa eftir sér þegar yfirlýsingar Kings voru bornar undir hann, er það fremur King sem horfir til fortíðarinnar, en á sjötta áratug síðustu aldar var það almenn trú manna að kjarnorkan myndi leysa öll okkar vandamál, þó að annað hafi komið á daginn. Til að mynda er kjarnorkuvæðing óhugsandi á þeim hlutum jarðarkringlunnar þar sem samfélagsleg ólga er ráðandi eða harðstjórn. Það er því hreinlega ósatt að umhverfisverndarsinnar hafni tækninni, þeir kalla aðeins eftir annarri tækni en King gerir.

Af orðum mínum mætti ætla að ég fylgdi fremur John Sauven að málum í þessu efni en Sir David King, en því er reyndar öfugt farið. Líklega væri það alvarlegur ábyrgðarhlutur að hafna kjarnorkuvæðingunni á þessum tímapunkti, en umræðan ætti fremur að snúast um það hvort mannkynið hafi tíma og svigrúm til að innleiða þá nýju tækni sem ýmsir umhverfisverndarsinnar halda á lofti. Bregðist menn of seint við þeirri vá sem nú er fyrir dyrum er hætta á því að hvarfpunkti (tipping point) verði náð áður en böndum verður komið á gróðurhúsalosunina því að þær lausnir sem helst hefur verið haldið á lofti af umhverfisverndarhreyfingum duga líklegast ekki einar til. Því verður að grípa til kjarnorkunnar.

Harðasti málsvari kjarnorkuvæðingarinnar er enski raunvísindamaðurinn og umhverfisverndarsinninn James Lovelock sem hefur skrifað margar bækur um efnið, nú síðast Hefnd Gæju ( The Revenge of Gaia , 2006) þar sem hann færir fyrir því sannfærandi rök að ótti umhverfisverndarsinna við kjarnorkuvæðinguna stýrist af vígbúnaðarkapphlaupi kalda stríðsins og bendir jafnframt á að verstu kjarnorkuslys, t.d. á borð við það sem gerðist í Tsjernobyl 1986, séu léttvæg í samanburði við þær hnattrænu hamfarir sem leysist úr læðingi verði hvarfpunkti náð. Hann segir það því ganga brjálæði næst að loka kjarnorkuverum eins og nú sé ástatt í veröldinni. Lovelock hvetur til þess að brugðist verði við loftslagsvánni með blandaðri tækni. Ofuráhersla verði lögð á að byggja fleiri kjarnorkuver á sama tíma og vísindamenn einblíni á að fullkomna þær tækninýjungar sem geri okkur kleift að leysa þau af hólmi síðar á öldinni. Lovelock vonast til að þá verði hægt að líkja eftir þeim kjarnasamruna sem á sér stað í vetnishveli sólarinnar, en við það yrði til gríðarleg orka og úrgangurinn yrði hverfandi í samanburði við hefðbundna kjarnaofna.

Hluti umræðuvandans liggur líklega í því að öll orka umhverfisverndarsinna hefur farið í að sannfæra heimsbyggðina og stjórnmálamennina um þá hættu sem steðjar að mannkyni. En nú er svo komið að ýmsir þeirra verða að spyrja sig hvort þær lausnir sem þeir hampa séu þær hentugustu á þessum tímapunkti. Er ekki öruggasti kosturinn í stöðunni að einblína á þá þekkingu sem er fyrir hendi, en setja á sama tíma fram þá kröfu að haldið verði áfram að vinna að uppbyggingu annars konar orkuauðlinda, eins og hinni gallalausu jarðvarmaorku, svo vitnað sé í Lovelock.

Þar hafa Íslendingar hlutverki að gegna.