Sveinn Kristjánsson fæddist að Langholtsparti í Hraungerðishreppi í Árn., 20. desember 1912. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði 13. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðríður Sveinsdóttir, f. á Rauðafelli í A-Eyjafjallahreppi 14. maí 1872, d. 23. jan. 1967, og Kristján Diðriksson bóndi og kennari, f. í Króki í Hraungerðishr. 16. apríl 1861, d. 17. des. 1922. Sveinn ólst upp frá þriggja ára aldri hjá móðurbróður sínum Sigurfinni Sveinssyni og konu hans Guðrúnu Þorsteinsdóttur að Bergsstöðum Biskupstungum þar sem hann eignaðist fjögur uppeldissystkini. En þau eru: Þorsteinn sem er látinn, Kristrún, Þórunn og Dóróthea.

Alsystkini Sveins voru: Elín, f. 1899, d. 1987, Diðrik Kristinn, f. 1900, d. 1916. Sveinbjörg, f. 1902, d. 1990, Einar, f. 1903, d. 1984, Gissur, f. 1904, d. 1993, Vigdís, f. 1906, d. 1994, Jón, f. 1907, d. s.á, Jón, f. 1908, d. 1994, Sveinn, f . 1910, d. 1997, Úlfhildur, f. 1911, d. 2003, og Gísli, f. 1914, d. 1926. Hálfsystir, samfeðra, var Jónína, f. 1898, d. 1985.

Árið 1941 kvæntist Sveinn Magnhildi Indriðadóttur frá Efsta-Dal í Laugardal, f. 17. apríl 1914, d. 16.9. 1992. Foreldrar hennar voru Indriði Guðmundsson frá Kjarnholtum, f. 15.8. 1877, og Theodóra Ásmundsdóttir frá Efsta-Dal, f. 25.4. 1884, d. 8.2. 1967. Sveinn og Magnhildur eignuðust 5 börn, en þau eru: 1) Svavar Ásmundur, f. 6.5. 1942, kvæntur Laufeyju Eiríksdóttur. Börn þeirra eru a) Jórunn, gift Jóni Halldóri Gunnarssyni, þau eiga 2 börn, Laufeyju Ósk og Ólaf Magna, b) Anna, gift Brynjólfi R. Hilmarssyni, og c) Dóra. d) Sveinn, í sambúð með Vigdísi Rut Andersen. 2) Ragnheiður, f. 13.11. 1944, giftist Geir Halldóri Gunnarssyni. Þau skildu. Dóttir þeirra er Edda Heiðrún, gift Aðalsteini Ingvasyni, þau eiga 2 syni, Aron Kára og Arnar Daníel. 3) Guðríður, f. 22.12. 1945, gift Pétri Gauta Hermannssyni, d. 2006, dætur þeirra eru a) Hildur Sólveig, giftist Magnúsi Orra Haraldssyni, þau skildu, börn þeirra eru Pétur Geir, og Ástrós, og b) Erla Þuríður. 4) Gísli Rúnar, f. 10.3. 1949, kvæntur Sigurveigu Helgadóttur, þau eiga tvo syni, a) Svein, sambýliskona Eva Jóhannesdóttur, þau eiga dótturina Bergdísi, og b) Helga, sambýliskona Gunnhildur Sveinbjörnsdóttir, þau eiga dótturina Sigurbjörgu. 5) Baldur Indriði, f. 23.1. 1954, kvæntur Betzý Marie Davíðson. Börn þeirra eru: a) Davíð Ingi kvæntur Berglindi Björk Guðnadóttur, þau eiga synina Odd Olav og Auðun Inga, b) Hrafnhildur, í sambúð með Ragnari Sigurðssyni, og c) Sólrún María.

Sveinn gekk í farskóla sveitarinnar og síðar í Íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar í Haukadal. Íþróttir og andi ungmennafélaganna voru honum í blóð borin. Eftir ýmis störf til sjós og lands festi hann kaup á jörðinni Drumboddsstöðum I árið 1940. Þar bjuggu þau Magnhildur hefðbundnum búskap til ársins 1982, er þau brugðu búi og fluttu í íbúðir fyrir aldraðra í Reykholti. Sveinn var félagslyndur að eðlisfari og studdi ávallt dyggilega við ýmis framfaramál fyrir sveit sína. Má þar nefna stofnun Hestamannafélagsins Loga og uppbyggingu íbúða fyrir aldraða. Einnig var honum mjög annt um Bræðratungukirkju. Síðustu 9 árin dvaldi hann á Hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði.

Útför Sveins fer fram frá Skálholtskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um afa Svein er söngur. Hann hafði mikla unun af söng og ég man varla eftir að hafa hitt hann án þess að lagið hafi verið tekið. Meira að segja hin síðari ár þegar hann var að mestu rúmfastur lifnaði hann allur við og bros færðist yfir andlitið þegar byrjað var að syngja.

Ég átti þess því miður ekki kost að kynnast afa mjög vel á mínum uppvaxtarárum þar sem ég ólst upp erlendis en heimsóknirnar í sveitina að Drumboddsstöðum eru mér sérstaklega minnisstæðar því mér fannst sveitalífið afar framandi og frjálslegt. Ég dáðist að vinnusemi afa og vissi frá fyrstu tíð að þar væri afar sterkur og fjölhæfur maður á ferð. Það styrkti mig enn frekar í þeirri trú þegar ég frétti að hann hefði sjálfur tekið á móti tveimur af börnum sínum heima á Drumboddsstöðum því amma var eina ljósmóðirin á svæðinu og því voru góð ráð dýr fyrir bóndann. Á þessum árum tíðkaðist ekki að karlmenn væru viðstaddir fæðingu barna sinna, hvað þá að þeir tækju á móti þeim. Hjálpsemi hans var aldrei langt undan og var hann oft beðinn aðstoðar af sveitungum sínum þegar dýrin voru veik eða önnur vandamál komu upp í sveitinni.

Það er mér líka minnisstætt þegar afi og amma heimsóttu okkur til Kanada árið 1982. Ég get ímyndað mér að stórborgin hafi verið þeim jafnframandi og sveitin var mér, en þau vildu svo gjarnan upplifa þennan heim með okkur. Afi veitti dýrunum sem hann sá í ferðinni sérstaka athygli og það var ljóst að sveitin fór aldrei langt úr huga hans. Eftir að afi og amma hættu búskap tók afi virkan þátt í að byggja upp íbúðir fyrir aldraða í Reykholti og hafði sérstaklega gaman af félagsskap sveitunga sinna sem bjuggu í Bergholti. Á þeim árum komu listrænir hæfileikar hans enn frekar fram þegar hann hóf að búa til hina ýmsa muni úr hrosshári. Mig grunar að hann hafi verið að halda í tengslin við dýrin með þessari iðju sinni, þá ekki síst hestana sína. Hann spann og óf hluti sem glöddu augað og vöktu athygli meðal gesta.

Hin síðari ár dvaldi afi Sveinn á Hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði og fékk þar afar góða umönnun. Þrátt fyrir að heilsunni hafi hrakað var eitt sem hann tapaði aldrei en það var sönggleðin. Hún mun alltaf einkenna afa fyrir mér og minning hans mun ávallt lifa í söngnum. Ég trúi því að afi hafi verið tilbúinn að kveðja þennan heim og hefja upp raust sína á æðri stað. Blessuð sé minning hans.

Lækkar lífdaga sól.

Löng er orðin mín ferð.

Fauk í farandaskjól,

fegin hvíldinni verð.

Guð minn, gefðu þinn frið,

gleddu og blessaðu þá,

Sem að lögðu mér lið.

Ljósið kveiktu mér hjá.

(Herdís Andrésdóttir.)

Edda.

Hann afi kvaddi þennan heim 13. janúar sl., saddur lífdaga. Amma dó 1992 og eftir það horfðum við á neistann dofna ár frá ári. Nú getum við glaðst með afa því hann er laus úr glímunni við elli kerlingu.

Við systkinin á Drumb vorum svo heppin í uppvextinum að hafa afa og ömmu í sama húsi. Seinna þegar þau drógu sig í hlé úr búskapnum fluttu þau í íbúðir fyrir aldraða í Reykholti sem var að miklu leyti þeirra hugarfóstur.

Íbúðin var nálægt skólanum og við kíktum oft á þau í hléum og vorum pottþétt mætt ef okkur leist ekki á matinn í skólamötuneytinu.

Hestar voru afa hjartfólgnir, þeir voru vinir og vinnufélagar. Hann kynnti okkur fyrir hestunum og setti okkur á bak mjög ung. Afi reiddi mig oft fyrir framan sig og fékk ég þá að vera með í smalamennsku og reiðtúrum. Það skapaðist samt fljótt vandamál, ég stækkaði svo fljótt að ég skyggði á útsýnið. Þá sat ég bara öfugt aftan við hnakkinn. Afi blístraði til að stoppa hestana í ákveðinni tóntegund og hrekkjalómurinn hann afi var ekkert alltaf að segja fólki frá því þegar að hann lánaði hestana sína. Mörgum brá því í brún þegar hann setti okkur krakkana á bak hesti sem það sjálft réð ekki neitt við en hlýddu okkur eins og ekkert væri.

Afi keyrði alltaf mjög sportlega, lét heyrast vel í bílnum og stundum þegar þurfti að stoppa bremsaði hann og blístraði á bílinn svona til öryggis.

Afi og amma voru bæði trúrækin. Afi var meðhjálpari svo þau fóru alltaf þegar messað var í sókninni, nokkuð sama hvernig viðraði. Við krakkarnir fórum oft með enda kirkjukaffið hennar Sigríðar í Tungu ekkert slor. Mér er það algerleg óskiljanlegt hvernig hann komst alltaf með okkur til kirkju á Saab 90 þegar mjólkurbíllinn og pósturinn áttu í mesta basli með að komast á milli.

Afi stundaði netveiði í Hvítá. Hann tók okkur krakkana með sér og kenndi okkur að bera virðingu fyrir þessu vatnsfalli. Það gilda strangar reglur um hvenær má leggja netin og einhvern tímann freistaðist afi til að láta netin liggja einum degi of lengi. Lögreglan mætti á svæðið og amma gaf þeim pönnukökur og kaffi. Fyrir dómi bar afi við aldri, sagðist aldrei muna númer hvað þessir dagar væru og hvað þá hvað þeir hétu. Dómarinn sýndi þessu skilning og bað hann að lofa sér að gera þetta aldrei aftur.

Afi byrjaði hvern morgun á því að hlusta á sjö fréttirnar gera morgunleikfimina og fara út í fjós. Stundum labbaði maður niður stigann og skreið upp í rúm hjá ömmu og kúrði. Hún kenndi okkur spil og spjallaði, og svo þegar afi kom úr fjósinu fékk maður súrt slátur og hafragraut (sem ég borðaði bara hjá afa). Afi söng mikið, það var oftast hægt að vita hvar hann var, maður gekk bara á hljóðið. Afi og amma voru samstiga í sínum búskap en ekkert endilega alltaf sammála hvort öðru. Þau voru vinir og ráðgjafar sem hvöttu til dáða. „Já, já, þú getur alveg orðið geimfari en fyrst þarftu að læra að lesa.“

Það verður aldrei hægt að fullþakka fyrir allt sem þau gerðu. En vonandi hefur andi þeirra skilað sér til næstu kynslóða.

Anna Svavarsdóttir.