Listamaður Ágústi Hrafni finnst skemmtilegast að teikna persónurnar úr Simpson og löggur. Eftir hann liggur líka fjöldi þrautabóka sem hafa verið ljósritaðar fyrir bekkjarfélaga hans.
Listamaður Ágústi Hrafni finnst skemmtilegast að teikna persónurnar úr Simpson og löggur. Eftir hann liggur líka fjöldi þrautabóka sem hafa verið ljósritaðar fyrir bekkjarfélaga hans. — Morgunblaðið/G.Rúnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir nokkrum vikum barst Barnablaðinu teikning frá ungum dreng, Ágústi Hrafni Angantýssyni. Teikningin fór aftast í bunka af innsendum verkum eftir börn þar sem þau eru birt í þeirri röð sem þau berast.

Fyrir nokkrum vikum barst Barnablaðinu teikning frá ungum dreng, Ágústi Hrafni Angantýssyni. Teikningin fór aftast í bunka af innsendum verkum eftir börn þar sem þau eru birt í þeirri röð sem þau berast. Þegar það var svo komið að teikningunni hans Ágústs áttum við hjá Barnablaðinu bágt með að trúa því að Ágúst, aðeins níu ára, hefði teiknað myndina án aðstoðar einhvers fullorðins. Það var því ákveðið að hringja heim til hans og fá það staðfest að hann hefði að minnsta teiknað hluta af myndinni því ekki birtum við verk eftir fullorðna. Það kom svo upp úr kafinu að Ágúst er einfaldlega teiknisnillingur og framleiðir heilu teiknimyndasögurnar á einu kvöldi. Við gátum því ekki setið á okkur og báðum um að fá að spjalla við þennan merkilega dreng. Ágúst var fús að veita okkur viðtal, bauð okkur heim til sín og leyfði okkur líka að skoða hluta af verkum sínum.

Byrjaði rúmlega tveggja ára

Hvenær byrjaðir þú að hafa áhuga á að teikna?

„Ég man það ekki, það er svo langt síðan. Mamma segir að ég hafi byrjað svona tveggja og hálfs árs.“

Er saga á bak við myndina sem þú sendir til Barnablaðsins?

„Myndin er af manni sem er að bjarga vini sínum úr fangelsi. Maðurinn var settur í fangelsi fyrir að brjótast inn hjá konunni sem heldur fyrir augun á barninu sínu. Hún vill ekki að barnið sitt verði bófi þegar það verður stórt. Á bakvið eru gluggar og það er fólk sem fylgist með inn um gluggana.“

Hvert sækir þú hugmyndir þínar að teikningunum?

„Þær koma allar upp í hugann og svo byrja ég bara að teikna.“

Litar sjaldan, það er svo tímafrekt

Hvernig er ferlið þegar þú teiknar myndirnar þínar?

„Ég nota oftast penna eða túss en stundum blýant. Ég lita myndirnar mjög sjaldan því að það tekur svo langan tíma. Það er misjafnt hvernig ég byrja á myndunum mínum, stundum er ég búinn að ákveða fyrirfram hvað ég ætla að teikna og stundum ekki.“

Hvernig liti finnst þér best að nota?

„Eins og ég sagði áðan þá lita ég sjaldan myndirnar en þegar ég geri það þá nota ég aðallega tréliti, þeir koma best út. Ég nota ekki tússliti því þeir geta eyðilagt myndina, þeir koma svona í gegnum pappírinn. Vaxlitir koma ekki nógu vel út finnst mér.“

Ertu mikið fyrir teiknimyndasögur?

„Nei, ég les þó stundum Syrpur og stundum bý ég til mínar eigin teiknimyndasögur.“

Erfiðast að teikna dýr

Hefur þú farið í myndlistarskóla?

„Nei, aldrei.“

Hver er flottasta teikningin sem þú hefur gert?

„Ég veit það ekki. Það er svo erfitt fyrir mig að segja það.“

Hvað er það besta við að vera teiknisnillingur?

„Að geta teiknað það sem mér dettur í hug.“

Hvað finnst þér erfiðast að teikna?

„Mér finnst erfiðast að teikna dýr.“

En hvað finnst þér skemmtilegast að teikna?

„Skrípamyndir. Mér finnst til dæmis mjög gaman að teikna löggur og Simpsons.“

Áttu einhver önnur áhugamál en að teikna?

„Að leika mér og hugsa um litla fuglinn minn.“

Hvað langar þig til að starfa við í framtíðinni?

„Mig langar til að vera rithöfundur, lögga eða læknir.“

Að lokum leyfði Ágúst okkur að fletta í gegnum teikningarnar sínar og sýndi okkur meðal annars gamlar skólabækur. Við skoðuðum til dæmis skriftarbókina hans Ágústs úr 1. bekk og var skriftin nærri óaðfinnanleg ásamt því að vera prýdd teikningum sem lygilegt er að sex ára drengur hafi teiknað. Í teiknibunkanum var að finna teikningar úr Öskurlandi sem er uppfinning Ágústs, fjöldi Simpson-teikninga, teikningar af lögregluþjónum, þrautabækur og margt, margt fleira.

Við þökkum Ágústi kærlega fyrir að leyfa okkur að gramsa í teikningunum hans og nafnið hans er eitthvað sem áhugafólk um barnabækur ættu að leggja á minnið því það líður örugglega ekki á löngu þar til Ágúst verður búinn að fullvinna sína fyrstu teiknimyndasögubók.