LÖGFRÆÐINGAR Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., hafa ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í gær til Hæstaréttar, samkvæmt upplýsingum Þorvaldar L. Sigurjónssonar, forstjóra Saga Capital.

LÖGFRÆÐINGAR Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., hafa ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í gær til Hæstaréttar, samkvæmt upplýsingum Þorvaldar L. Sigurjónssonar, forstjóra Saga Capital.

Héraðsdómur hafnaði kröfu Saga Capital fjárfestingarbanka, um að bankinn verði skráður eigandi allra hluta í fjárfestingarfyrirtækinu Insolidum ehf. og að bankanum verði fengin umráð hlutaskrár fyrirtækisins.

Málsatvik voru þau að Insolidum ehf. keypti stofnfjárbréf í SPRON að nafnverði 47,5 milljónir á genginu 11,797232. Kaupverðið nam því 560.368.521 krónu. Saga Capital hafði milligöngu um viðskiptin og lánaði Insolidum 582 milljónir króna til kaupanna.

Til tryggingar skuldinni voru, auk verðbréfa í eigu Insolidum, settir að veði allir hlutir eigendanna Daggar Pálsdóttur og Páls Ágústs Ólafssonar í fyrirtækinu.

Síðla hausts lækkaði gengi hlutabréfa á íslenskum verðbréfamarkaði mikið og leiddu lækkanirnar til þess að Insolidum „uppfyllti ekki lengur skilyrði lánssamningsins um 150% tryggingaþekju gagnvart lánsfjárhæð og um að eigið fé næmi 150% af lánsfjárhæð,“ segir í dómnum. Saga Capital tilkynnti um gjaldfellingu skuldarinnar og skoraði á Insolidum að greiða kröfuna eða leggja fram fullnægjandi tryggingar innan tveggja sólarhringa. Tryggingaþekja Insoldium mun þá hafa numið 108% m.v. lánsfjárhæð og eigið fé þess innan við 16% af lánsfjárhæð.

Eigendur Insolidum urðu ekki við kröfum Saga Capital, sem krafðist þá beinnar aðfarar hjá þeim og gerði kröfu til að hlutaskrá Insolidum yrði breytt og Saga Capital skráður eigandi allra hluta í fyrirtækinu.

Í niðurstöðu sinni segir héraðsdómur að beinni aðfarargerð verði ekki beitt í öðru skyni en til að ná umráðum yfir einhverju frá gerðarþola (Insolidum) eða skyldu til að veita aðgang að tilteknum hlut eða fasteign. Öðrum athafnaskyldum, sem kveðið sé á um í ákvæðum 11. kafla aðfararlaga, þ.e. skyldu gerðarþola til að gefa út eða rita undir skjal eða til að standa á annan hátt að löggerningi og skyldu til að láta eitthvað ógert, verði því ekki fullnægt með beinni aðfarargerð. Samkvæmt því verði skyldu til breytingar á hlutaskrá, þannig að gerðarbeiðandi (Saga Capital) verði skráður eigandi allra hluta, ekki fullnægt með beinni aðför. Kröfu bankans var því hafnað.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Í hnotskurn
» Eftir gengislækkun hlutabréfa í haust fór Saga Capital fram á auknar tryggingar vegna skuldar Insolidum ehf.
» Eigendur Insolidum ehf. urðu ekki við kröfunum og krafðist Saga Capital þá beinnar aðfarar hjá fyrirtækinu.