DEILA Breta og Rússa, sem einkum hefur snúist um tilraunir þeirra síðarnefndu til að koma í veg fyrir starfsemi breskrar menningar- og kynningarstofnunar, British Council, í Rússlandi, harðnar stöðugt.

DEILA Breta og Rússa, sem einkum hefur snúist um tilraunir þeirra síðarnefndu til að koma í veg fyrir starfsemi breskrar menningar- og kynningarstofnunar, British Council, í Rússlandi, harðnar stöðugt. Hafa nú bresk stjórnvöld varað Rússa við og segja, að það kunni að verða erfiðara fyrir þá en áður að gera fríverslunarsamninga við Evrópusambandið, ESB, eða að fá aðild að alþjóðlegum stofnunum vegna „grímulausra ofsókna“ gegn starfsmönnum BC.

Breskir sendiráðsmenn í Moskvu segja, að starfsmenn FSB, rússnesku öryggislögreglunnar, arftaka KGB, hafi beitt „dæmigerðum KGB-aðferðum“ í ofsóknum sínum gegn starfsfólki BC. Vegna þess hafi eini kosturinn verið sá að loka skrifstofunum í Sankti Pétursborg og Jekaterínborg. Nefna þeir sem dæmi, að fólkið hafi verið spurt um heilsufar aldraðra ættingja þess og nefnt um leið, að stundum yrðu gæludýr fyrir óvæntum skakkaföllum.

Deilan milli Rússa og Breta kom upp eftir að Bretar sökuðu ákveðna menn í Rússlandi um að hafa myrt Alexander Lítvínenko, harðan gagnrýnanda rússneskra stjórnvalda, með geislavirku efni í nóvember 2006.