Langþráðar úrbætur Magnús Skúlason framkvæmdastjóri fagnar bættri aðstöðu í viðbyggingu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Langþráðar úrbætur Magnús Skúlason framkvæmdastjóri fagnar bættri aðstöðu í viðbyggingu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Selfoss | Ný viðbygging við Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) verður tekin í notkun næstkomandi fimmtudag. Nýbyggingin er þrjár hæðir auk kjallara. Áætlaður kostnaður við bygginguna er 1,5 milljarðar króna. Á 2. og 3.

Selfoss | Ný viðbygging við Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) verður tekin í notkun næstkomandi fimmtudag. Nýbyggingin er þrjár hæðir auk kjallara. Áætlaður kostnaður við bygginguna er 1,5 milljarðar króna.

Á 2. og 3. hæð verða tvær 20 rúma hjúkrunardeildir fyrir aldraða, á 1. hæð verður heilsugæslustöð og í kjallara aðstaða fyrir endurhæfingu, kapellu, fundi og kennslu, tæknirými, geymslur ofl. Hver hæð er um 1300 ferm., samtals rúmlega 5.200 ferm. Arkitekt er Helgi Hjálmarsson en Framkvæmdasýsla ríkisins hefur haft umsjón með framkvæmdum.

Sjúklingar á hjúkrunardeildinni Ljósheimum á Selfossi munu um næstu mánaðamót flytjast yfir í nýju bygginguna.

Heillandi sameining

Magnús Skúlason tók við stöðu framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands 1. september 2004 við sameiningu heilbrigðisstofnana á Suðurlandi. Áður hafði hann starfað í fjögur ár á fjármáladeild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. „Mér fannst þessi sameining heillandi verkefni og áhugavert að fá að stýra uppbyggingu þessarar nýju stofnunar. Taldi mig hafa góðan undirbúning til þess vegna fyrri starfa. Það var líka ágætt að breyta um umhverfi, en einnig vegna fyrri tengsla við Suðurland, ég var í sveit í Rangárvallasýslu á árum áður og á ættir að rekja þangað í báðar ættir,“ sagði Magnús þegar hann var spurður af hverju hann hefði ákveðið að ráða sig í starfið á sínum tíma.

Starfsemi HSU skiptist í meginatriðum í þrennt: Heilsugæslu, sjúkrahús og hjúkrunardeildir aldraðra. Heilsugæslustöðvar eru átta, frá Þorlákshöfn og Hveragerði í vestri og til Kirkjubæjarklausturs í austri. Sjúkrahús er á Selfossi þar sem m.a. er veitt þjónusta í fæðingar- og kvensjúkdómalækningum, skurðlækningum, lyflækningum, myndgreiningu, rannsóknum og sjúkraþjálfun. Í nýbyggingunni verða síðan tvær hjúkrunardeildir fyrir aldraða, samtals 40 rúm. Þá annast stofnunin alla sjúkraflutninga á Suðurlandi, ásamt því að reka Réttargeðdeildina að Sogni þar sem vistaðir eru ósakhæfir einstaklingar.

2 milljarðar í veltu

Á fjárlögum ársins 2008 er fjárveiting til HSu um 1.750 milljónir kr. og til Réttargeðdeildarinnar um 195 milljónir. Heildarvelta þessar starfsemi er því tæpir tveir milljarðar á þessu ári. „Starfsemin er enn í svipuðu horfi og fyrir sameiningu. Betur hefur þó gengið að ráða í lausar læknastöður, geðlæknisþjónusta hefur verið aukin á Sogni og Litla-Hrauni, iðjuþjálfun barna er nýbyrjuð og heimahjúkrun utan dagvinnutíma hefur verið aukin á þjónustusvæði heilsugæslustöðvanna í Hveragerði, Þorlákshöfn og á Selfossi. Með tilkomu nýbyggingarinnar styrkist þjónustan enn frekar með fleiri hjúkrunarplássum fyrir aldraða og bættri aðstöðu fyrir bráðaþjónustu og endurhæfingu. Þá stendur til að styrkja þjónustu í geðheilbrigðismálum,“ kom fram hjá Magnúsi þegar hann var spurður hvort starfsemin hefði vaxið mikið eftir sameininguna.

Hjúkrunarrýmum fjölgar

Með tilkomu nýju byggingarinnar á Selfossi fjölgar hjúkrunarrýmum fyrir aldraða úr 26 í 40 á Selfossi, heilsugæslan fær nýtt og rúmbetra húsnæði á 1. hæð, endurhæfingaraðstaða verður stórbætt, auk þess sem stofnunin fær nýjan og stórglæsilegan aðalinngang og anddyri. Í eldri byggingunni verður betri aðstaða fyrir rannsóknadeild, læknamóttökur, skrifstofur ofl.

„Nú er verið að taka í notkun 1. áfanga framkvæmdanna sem er 20 rúma hjúkrunardeild á 2. hæð, nýr aðalinngangur og anddyri með afgreiðslu og símavakt. Á næstunni verður ný kapella tilbúin og í apríl nk. verður hin hjúkrunardeildin á 3. hæð tekin í notkun, ásamt aðstöðu fyrir endurhæfingu í kjallara. Fyrri hluta ársins verður væntanlega boðin út framkvæmd við að ljúka 1. hæð og kjallara. Þá verður eftir að gera nauðsynlegar breytingar í eldri byggingunni,“ sagði Magnús.

Allir jákvæðir

„Þetta er auðvitað krefjandi, skemmtilegt og gefandi starf þó alltaf sé of mikið að gera. Það hefur verið ánægjulegt að finna jákvæðan hug starfsfólks, íbúa, þingmanna og sveitarstjórnarmanna fyrir því að styrkja heilbrigðisþjónustuna á svæðinu. Nú er árangurinn að koma í ljós með viðurkenningu stjórnvalda á þessum sjónarmiðum. Viðurkenningin felst m.a. í auknum fjárveitingum til reksturs og uppbyggingar húsnæðis stofnunarinnar,“ sagði Magnús.

Hann lét þess getið að föstudaginn 25. janúar kl. 15 – 17 yrði opið hús fyrir almenning til að skoða hið nýja húsnæði. Í kjölfarið verður síðan farið á fullu í að undirbúa flutning vistmanna á Ljósheimum á nýju deildina á 2. hæð.