NÆSTU mánuðir verða nokkuð erfiðir á hlutabréfamarkaði, svo lengi sem ekki sér til botns varðandi lækkanir í Bandaríkjunum. Ýmislegt bendir samt til þess að lækkunarhrinan sem dunið hefur á fjármálafyrirtækjum sé að nálgast endastöð.

NÆSTU mánuðir verða nokkuð erfiðir á hlutabréfamarkaði, svo lengi sem ekki sér til botns varðandi lækkanir í Bandaríkjunum. Ýmislegt bendir samt til þess að lækkunarhrinan sem dunið hefur á fjármálafyrirtækjum sé að nálgast endastöð. Þó er ekki von á snörpum umskiptum á gengi þeirra fyrr en óvissu sem ríkir á mörkuðum hefur verið eytt.

Þetta er mat greiningardeildar Kaupþings en deildin spáir því að íslenska úrvalsvísitalan muni ná 6.850 stigum í lok árs 2008. Hækkun hennar á árinu nemi því 8,5%.

Spáin byggist á V/H-gildum í fjármálaþjónustu á Norðurlöndum en þau nálgast nú sögulegt lágmark sitt, sem er undir 9. Það þýðir að markaðurinn metur hlutafé fyrirtækis á innan við nífaldan hagnað þess. Greiningardeildin segir það ekki geta staðist til lengdar og reiknar með að á árinu muni gildin hækka í átt að 10 ár meðaltali, í kringum 11. Og fremur vegna hækkunar á hlutabréfaverði heldur en lækkun hagnaðar. Þetta muni svo að sama marki lyfta verði hlutabréfa í íslensku bönkunum en þess má geta að V/H-gildi Kaupþings er nú 8 en Glitnis og Landsbankans í kringum 10.

Haraldur Yngvi Pétursson, sérfræðingur hjá greiningardeild Kaupþings, sagði á fundi með blaðamönnum í gær að á síðasta ári hefðu fjármálavísitölur á Íslandi gert mun betur en fjármálavísitölur almennt og það skýrði að hluta lækkunina í janúar. Mjög miklar væntingar um vöxt íslensku bankanna hefðu verið byggðar inn í verð þeirra. Greiningardeildin telur að í fyrsta skipti um langa hríð sé lítill ytri vöxtur í kortunum fyrir íslensku bankana.

Haraldur væntir þess að íslensku fjármálafyrirækin elti meira erlendar fjármálavísitölur í framtíðinni og minnti á að íslenska vísitalan væri í raun fjármálavísitala, vegna 90% vægis fjármálafyrirtækja í henni.