Sigrid Østerby, Dunhaga 15, Reykjavík, fæddist í bænum Hee á Jótlandi 6. febrúar 1937. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 12. janúar síðastliðinn. Sigrid var dóttir hjónanna Ólafar Hallfríðar Sæmundsdóttur, húsfreyju á Selfossi, f. 1.4. 1906, d. 19.2. 1995, og Herman Østerby Christensen mjólkurfræðings á Selfossi, f. 10.3. 1907, d. 1.8. 1987. Systkini Sigrid eru a) Ásbjörn, prentari í Svíþjóð, f. 15.9. 1939, b) Leif, rakari á Selfossi, f. 18.8. 1942, maki Svandís Jónsdóttir ljósmóðir og c) Eva hjúkrunarfræðingur, f. 5.1. 1948, maki Einar Oddsson læknir.

Sigrid giftist 12. ágúst 1960 Konráði Sigurðssyni lækni, f. 13.6. 1931, d. 15.7. 2003, en þau skildu 1972. Börn þeirra eru: a) Atli, líffræðingur, f. 11.10. 1959, maki Anne Berit Valnes, kennari. Börn þeirra eru Björk f. 9.6. 1995, Lilja, f. 14.12. 1996, Hákon, f. 26.4. 1998, Tryggvi, f. 18.7. 2000 og Gauti, f. 8.1. 2002. Fyrir átti Anne Berit börnin Cecilie, f. 4.6. 1982 og Fredrik, f. 13.2. 1988. b) Sif, lögfræðingur, f. 4.12. 1960, maki Ólafur Valsson dýralæknir. Dóttir Sifjar og Þórðar Hjartarsonar er Helga, f. 18.7. 1997. Fyrir átti Ólafur börnin Baldvin, f. 12.3. 1985, Sigríður, f. 5.11. 1992 og Róshildur, f. 23.3. 1994. c) Huld flugfreyja og BA í frönsku, f. 5.8. 1963, maki Sigurður Tómas Magnússon, lögfræðingur. Börn þeirra eru Sigrún Hlín, f. 20.3. 1988, Margrét Sif, f. 3.2. 1994, og Magnús Konráð, f. 22.6. 1998. d) Ari, læknir f. 14.9. 1968, maki Þóra Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra Sif, f. 13.4. 2003 og Arnar, f. 27.1. 2005. Fyrir átti Þóra dæturnar Helenu, f. 20.6. 1995, og Agnesi, f. 23.7. 1997. e) Andri læknir, f. 16.9. 1971. Sigrid átti fyrir hjónaband dótturina Björt Nordquist, f. 6.1. 1957, d. 2.8. sama ár.

Sigrid bjó með foreldrum sínum á Jótlandi fram til 9 ára aldurs en flutti þá með þeim að Selfossi þar sem Herman faðir hennar starfaði sem mjólkurfræðingur. Sigrid stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1957 og lagði síðan stund á nám í Myndlista- og handíðaskólanum. Hún lauk kennaraprófi 1966 og BA-prófi í dönsku frá Háskóla Íslands 1987. Síðar nam hún uppeldis- og kennslufræði og listasögu við Háskóla Íslands. Hún lauk námi sem listmeðferðarfræðingur frá Institut for Kunstterapi í Noregi og Danmörku 2003 og stundaði listmeðferð til æviloka. Sigrid starfaði síðustu áratugina sem framhaldsskólakennari, síðast við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Jafnframt lagði hún stund á myndlist og hélt fjölda einkasýninga og samsýninga hér á landi og erlendis. Sigrid var ötul baráttukona fyrir kvenréttindum og tók virkan þátt í menningarsamskiptum við fjölmargar þjóðir. Hún starfaði sem sjálfboðaliði fyrir Vin, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, lagði hvers kyns menningar- og mannúðarmálum lið og ferðaðist víða um heim. Sigrid lagði alla tíð sérstaka rækt við hinar dönsku rætur sínar.

Útför Sigrid fer fram frá Neskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Við fráfall elskulegrar vinkonu hrannast upp kærar minningar frá ánægjulegum samverustundum á ferðalögum, heimsóknum, listasýningum og fleiri tilefnum. Var alltaf jafngaman að hittast, því að Sigrid var víðlesin, skemmtileg og mikil listakona. Mér er efst í huga sú vinátta sem hún rækti svo vel með nærveru sinni. Fyrir allt þetta þakka ég.

Við áttum sameiginlegan gullmolann okkar – ömmubarnið hana Helgu. Sigrid var natin og kærleiksrík amma og voru þær mjög samrýndar. Þetta er erfiður tími fyrir Helgu en mun hún síðar minnast margra góðra stunda með ömmu sinni með þakklæti.

Ég sendi börnum og systkinum Sigridar og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Hér við skiljumst

og hittast munum

á feginsdegi fira;

drottinn minn

gefi dauðum ró,

hinum líkn, er lifa.

(Úr Sólarljóðum.)

Helga Þórðardóttir.

Það er október og árið er 1953. Norður á Akureyri er saman kominn hópur ungmenna sem er að setjast í 3ja bekk menntaskólans.

Margir eru langt að komnir og þekkja engan. Þar á meðal erum við Sigrid.

Það æxlast síðan þannig að við verðum herbergisfélagar á heimavistinni og hún verður vinkona mín fyrir lífstíð; glaðsinna, traust og hreinskiptin og svo dæmalaust skemmtilegur bóhem. Minningarnar frá menntaskólaárunum eru margar og ljóslifandi.

Til dæmis þessi: Bekkjarsystir okkar með danska nafnið bjargar okkur iðulega frá þeirri ævarandi skömm að elskulegur dönskukennari okkar, Jón Árni, gangi út og sjáist ekki framar í þessum bekk. Þegar við, hvert eftir annað, erum búin að lesa og bera dönskuna skilmerkilega fram samkvæmt kórréttri stafsetningunni setur Jón Árni sig í hvíldarstellingu og segir: „Æi, Sigrid mín, vilt þú nú ekki lesa?“ Mikið skildi ég hann vel seinna á ævinni.

Svo komu sumrin og við unnum báðar í Kaupfélaginu á Selfossi og þar kynntist ég fjölskyldu hennar. Á þeim bænum þótti nú ekki tiltökumál að bæta við rúmi og mat í maga unglingsstúlku og umbera hana á versta aldri. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um hana Sigrid fremur en svo marga aðra.

Sumarið eftir stúdentspróf missti hún Björt litlu dóttur sína, sem hún hafði eignast þegar við vorum í 6. bekk. En þegar áföllin riðu yfir komu eiginleikar hennar ekki hvað síst í ljós; æðruleysi, kjarkur og dugnaður. En ég veit að hún taldi sig hamingjukonu. Hún eignaðist mannvænleg börn og barnabörn.

Stundum tók ævintýrakonan völdin. Hver okkar hefði farið til Kúbu að sinna sykuruppskeru nema hún? Á seinni árum gat hún talsvert sinnt listsköpun sinni, málverkum sínum. Hún sótti innblástur norður á Finnmörk þaðan sem við vinkonur hennar eigum myndir eftir hana og á grísku eyjunum hafði hún sérstakt dálæti.

Í ársleyfi frá kennslu skrifar hún mér frá Atla syni sínum á Rolvsöy: „Mér líður vel með öllum ungunum litlu hans Atla. Hér er vetur á norðurhjara en hlýtt í kringum mig.“ Frá Krít skrifar hún í sama leyfi: „Það er gott að hafa líf og heilsu til að njóta.“ Hún hafði einmitt ætlað sér að fara til Grikklands nú síðsumars með danska listahópnum sínum þegar örlögin gripu í taumana. Seinasta ferð hennar var í vor þegar hún fór að leita róta sinna í Danmörku með Evu systur sinni. Ég veit að þessi ferð og samveran við Evu var henni mikils virði.

Seinasta minning mín um Sigrid er frá nýliðinni Þorláksmessu. Við Kolfinna sitjum hjá henni heima hjá Huld og Sigurði þar sem hefur verið búið þannig um hana að henni líður eins og best verður á kosið eins og komið er. Þarna er líka Atli og fjölskylda hans. Við drekkum kaffi, erum bara kátar, spjöllum eins og alltaf. Sigrid segir: „Nú tökum við upp bestu vínflöskuna.“ Þetta er þrátt fyrir allt yndisleg og ógleymanleg stund. Við kveðjumst og sjáumst ekki aftur.

Við Friðrik biðjum minni góðu vinkonu allrar blessunar og sendum fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

Alexía M. Gunnarsdóttir.

Kær vinkona og bekkjarsystir er fallin frá. Það gerðist alltof fljótt því hún átti svo margt eftir ógert í lífinu og listinni.

Haustið 1953 mættu unglingar hvaðanæva af landinu til Akureyrar til að hefja nám í 3. bekk MA. Fæst okkar þekktust og ekki laust við að bæði kvíði og eftirvænting gerðu vart við sig. Í þessum hópi var Sigrid, stórglæsileg stúlka frá Selfossi. Eftir því sem kynnin urðu nánari kom í ljós að Sigrid var einstaklega skemmtilegur félagi og við eigum margar ógleymanlegar minningar frá þessum glaðværu unglingsárum.

Örlögin höguðu því svo að Sigrid yfirgaf Akureyri eftir þrjá vetur í MA og varð stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni. Hún var eftir sem áður alltaf órjúfanlegur hluti af okkar hópi og tók virkan þátt í félagslífi og gleðistundum. Skömmu áður en halda skyldi norður sl. sumar til að fagna 50 ára stúdentsafmæli afboðaði Sigrid þátttöku sína og var hennar sárt saknað. Hún var að hefja aðra og erfiðari ferð og baráttu við vágestinn sem lagði hana að velli.

Sigrid var mörgum góðum kostum búin. Hún var hetja í okkar augum, kjarkmikill dugnaðarforkur og lét engan bilbug á sér finna þó að á móti blési. Í mörg ár einbeitti hún sér að eigin barnahópi, en síðan starfaði hún lengi sem kennari, bæði í grunn- og framhaldsskóla. Það var þó ljóst að hugur hennar stefndi í að mennta sig frekar á myndlistarsviði enda hafði hún mikla listræna hæfileika og hafði stundað myndlistarnám áður fyrr heima og erlendis. Í listiðkun og listkennslu fann hún sinn farveg og margir nutu góðs af.

Hugur Sigrid var leitandi og hún lagði meira upp úr andlegum þroska en veraldlegum gæðum. Hún var fordómalaus og frjálslynd með sterka og ákveðna lífssýn, hafði til að bera kímnigáfu og hlýju og öðlaðist vináttu margra. Sigrid miklaði ekki hlutina fyrir sér og það er aðdáunarvert hve áræðin hún var í ákvörðunum sínum. Hún átti sér sína drauma og hennar mottó var að vinna í því að láta þá rætast og til þess notaði hún tímann vel, ferðaðist um nálæg og fjarlæg lönd með pensil í hönd og naut þess að kynnast nýjum aðstæðum. Hún mætti síðustu mánuðunum af miklu hugrekki og æðruleysi og dreif sig í fylgd Evu, systur sinnar, til Danmerkur að heilsa upp á ættingja sem hún hafði nýlega leitað uppi. Þessi ferð var systrunum báðum til mikillar ánægju.

Hún átti margt ógert og það er sorglegt að hún skyldi ekki fá að njóta lífsins lengur, því hún var sannkallað lífsins barn og ung í anda þó að árunum fjölgaði. Það er dýrmætt að hafa notið vináttu hennar og félagsskapar fram til hins síðasta.

Sigrid skilur eftir sig fjársjóð í börnum sínum og barnabörnum sem nú sjá á bak henni alltof snemma. Fyrir hönd bekkjarfélaganna úr MA og maka þeirra sendum við þeim og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Auður Torfadóttir.

Kolfinna Bjarnadóttir.

Það var á haustmánuðum 2005 sem hún Sigrid kom inn í tilveru okkar hér í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir. Hún gerðist sjálfboðaliði og sá um, ásamt góðum hópi fólks, að hafa opið fyrir gesti athvarfsins á sunnudögum.

Hópur sjálfboðaliða hefur reyndar séð um sunnudagsopnun í þau bráðum fimmtán ár sem Vin hefur verið starfandi, mikið til námsfólk í yngri kantinum. En þvílík gæfa að fá þessa jákvæðu og gefandi konu í hópinn.

Sigrid hafði fengist við ýmislegt um ævina, m.a. starfað á Kleppsspítala, svo hún þekkti umhverfið vel. Hún hafði fengist við kennslu og listmeðferð sem svo sannarlega átti eftir að koma öllum listunnendum athvarfsins til góða því ekki nóg með að Sigrid benti okkur á skemmtilega viðburði og ætti það til að fara með okkur á sýningar, svona í miðri viku, heldur hélt hún utan um myndlist í Vin sl. vor þar sem málað var og teiknað sem aldrei fyrr. Afraksturinn varð sýningin „uppreisn litarins“ sem haldin var í athvarfinu sem hluti verkefnisins „List án landamæra“. Listviðburðir tengdir því voru æði margir með fjölda þátttakenda fyrri part síðasta árs.

Farin var hópferð Vinjarfólks eitt sinn austur í Hveragerði þar sem listakonan hafði sett upp sýningu í Hveragerðiskirkju. Þótti henni vænt um það og hafði auðvitað komið því í kring að vel var tekið á móti skaranum. Í fyrrasumar fóru listhneigðir Vinjargestir í Neskirkju að skoða þau verk sem Sigrid hafði sett þar upp og seldi á sanngjörnu verði. Innkomuna lét hún renna til líknarstarfs, sem var dæmigert fyrir hana. Fengu gestir sýningarinnar leiðsögn listakonunnar um kirkjuna, sem henni þótti greinilega afar vænt um og þekkti þar greinilega hvern krók og kima.

Ekki voru þetta einu sýningar hennar Sigrid, sem við fengum tækifæri til að sjá, því hún var dugleg að sýna myndlist sína á bæði stærri og minni stöðum. Hafði hún mikinn áhuga á menningu Sama og norðurhluti Skandinavíu var henni ofarlega í huga. Tákn og mynstur, trommur og kraftur náttúrunnar var áberandi í verkum hennar á mörgum þessara sýninga.

Sumarið 2006 fór hópur fólks frá Vin til Danmerkur á norrænt sumarmót geðhjálparsamtaka og fylgdist Sigrid vel með ferðum hópsins með tölvupóstssamskiptum, enda hafði hún búið í Jelling þar sem hópurinn dvaldi ásamt öðrum mótsgestum.

Þannig var heiðurskonan Sigrid, kom til okkar annað veifið í kaffi og fylgdist með af ósviknum áhuga, hvað helst væri að gerast hjá fólkinu í Vin. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast mannvininum Sigrid Österby, þó samveran hafi verið alltof stutt. Minningin um dugnaðarkonu, svo skapandi, gefandi og jákvæða í garð samferðamanna mun lifa.

Aðstandendum vottum við okkar dýpstu samúð.

Gestir og starfsfólk Vinjar,

athvarfs Rauða krossins.

Hún Sigrid var einstakur gleðigjafi og hló björtum dillandi hlátri, þéttvaxin og ljós yfirlitum, röskleg og upplitsdjörf í fasi; glettnisglampi í augum. Ég naut þeirrar gæfu að ferðast með henni, hér innan lands um fjöll og bæi, til Grænlands og Finnlands og ekki sízt til Leníngrad á efstu árum Brésnefs aðalritara og þeirra kumpána. Það var mikil reisa og öllum ógleymanleg. Síðan höfum við vitað hvort af öðru, þótt samfundir væru stopulir; og víst var gott að hlæja með henni yfir gulli á glasi og óloppin var hún í tali. Sigrid var óvílin kona og kjarkmikil, vitur og veitandi, síleitandi og sótti oft á brattann og var jafnan glaðsinna þótt heimurinn reyndist henni stundum bæði hrekkvís og slægur. Hún var sífellt með nýjan sokk á prjónum, yfirleitt marglitan eins og mannlífið er. Nemendum sínum og samstarfsmönnum reyndist hún vel í hvívetna og var einatt reiðubúin að leggja lykkju á leið sína til að liðsinna fólkinu sínu; leiddist allt karp um borgaralega smámuni í samanburði við lífsins list. Veröldin er snauðari við brottför hennar. Gefi nú guð henni gott leiði til þeirrar Furðustrandar sem okkur er öllum búin. Ástvinum hennar sendi ég samúðarkveðju.

Sölvi Sveinsson.

„Þú lofar að koma.“

„Já, ég lofa.“

Þetta voru síðustu orðaskipti okkar Sigridar þegar við kvöddumst á hlaðinu á Hóli í haust.

Áður en ég efndi loforðið var komið að annarri kveðjustund.

Það eru rúmlega 40 ár síðan við sáumst fyrst.

Glæsileg hjón stóðu í dyrunum hjá okkur og sögðust vera að flytja á efstu hæðina í Hraunbæ 28. Þetta voru fyrstu kynni okkar við Sigrid. Í Hraunbænum áttum við margar góðar stundir og stutt var milli hæða. Laugarássárin liðu og Sigrid flutti í nágrenni við okkur í Kastalagerði með börnin sín fimm. Þá bjuggum við á Borgarholtsbraut og aftur varð gatan greið á milli okkar og vináttan okkur mikils virði.

Það var lærdómsríkt fyrir okkur að kynnast Sigrid og hinum sterka persónuleika hennar. Sigrid vandaði mál sitt og hugsaði sig vel um áður en hún talaði og það þýddi ekkert að segja „af því bara“, hún bað um nánari skýringar á hverri skoðun og helst rökstuðning fyrir málinu. Þetta var okkur góður skóli og gerði hverja stund með Sigrid innihaldsríka og eftirminnilega. Merking orðanna „að veltast um af hlátri“ varð ljós þegar ógleymanlegur hlátur Páls og Sigridar fyllti húsið. Stundirnar sem við áttum saman eru mikils virði þegar minningarnar eru einar eftir.

„Já, ég lofa“ að heimsækja þig í huganum, þakka þér allt og gleyma þér aldrei.

Atli, Sif, Huld, Ari og Andri, ég votta ykkur og fjölskyldum ykkar innilega samúð.

Edda Magnúsdóttir.

Látin er, eftir skammvinna baráttu við illvígan sjúkdóm, kær leshringssystir, Sigrid Østerby. Í nær tvo áratugi höfum við 12-13 konur hist mánaðarlega til að lesa og ræða bókmenntir. Upphafið var þing norrænna móðurmálskennara í Helsinki sumarið 1987. Þar hittust Ingibjörg, Sigrid, Sigrún og Unnur María og áttu innihaldsríka daga á þinginu auk helgarferðar til St. Pétursborgar þar sem þær sáu bæði sýningu hjá Kirov-ballettinum og hrífandi listasöfn. Upp úr þeim kynnum spratt leshringur sem stækkaði fljótt og valdi Biblíuna sem fyrsta viðfangsefni. Fundir voru ýmist í heimahúsum eða í sumarhúsum úti á landi. Oft var Sigrid gestgjafi í þessum hópferðum út í guðsgræna náttúruna, s.s. í Varmahlíð, listamannahúsi í Hveragerði og í rómantísku sumarhúsi við úthafsnið suður í Höfnum. Ekki létum við fannkyngi hindra för að vetrinum og tókum þá stundum gönguskíðin með í indælu orlofshúsin austan heiða. Þar héldum við líka nokkrum sinnum okkar eigin þorrablót með söng og gleði.

Sigrid var góðum gáfum gædd, dugleg og kjarkmikil. Á fullorðinsárum fór hún í Háskóla Íslands og lauk þaðan BA-prófi. Eftir það varð hún framhaldsskólakennari í mörg ár og síðar lauk hún námi erlendis í listmeðferð (art therapy). Málaravinnustofu hafði hún í kjallaranum heima hjá sér og hélt sýningar víða um land, síðast í Grafíklistasafninu í fyrra og fékk hún lof fyrir verk sín þar. Sigrid var hreinskiptin og nærverugóð kona. Hún var vel lesin og bar glöggt skyn á bókmenntir. Góðar minningar er gott að eiga um félagslynda, káta og skemmtilega vinkonu.

Við sendum ástvinum hennar innilegar samúðarkveðjur. Hlýhugur fylgir vinkonu okkar áfram veginn. Blessuð sé minning hennar.

Björg, Elín, Guðrún, Helga, Herdís, Hjördís, Ingibjörg, Ingunn Þóra, Ingunn S., Margrét, Sigrún og Unnur María, leshringssystur.