Guðríður Bjarney Ágústsdóttir fæddist á Selfossi 26. desember 1961. Hún lést 5. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Dagbjört Sigurðardóttir, f. 3. september 1924, d. 26. ágúst 2005 og Ágúst Guðbrandsson, f. 1. ágúst 1921, d. 13. nóvember 2005. Systkini hennar eru 1) Guðbrandur Stígur, f. 24.3. 1960, maki Brynhildur Arthúrsdóttir, f. 9.5. 1969, börn a) Ingunn Ýr, sambýlismaður Hannes Þ. Sigurðsson, b) María Björt, c) Dagbjört, d) Kristín Hrefna, e) Gyrðir Hrafn og f) Kormákur Ari. 2) Sigríður Inga, f. 26.12. 1961, börn a) Kristín Elísabet, b) Ágúst Georg og c) Kolbrún Tanya. 3) Dagrún Mjöll, f. 16.6. 1965, maki Aron Hauksson, f. 5.2. 1967, börn: a) Ágúst Aron, b) Birta Hlíf, maki Joshua David Epstein, c) Andri Dagur, unnusta Arndís Hrund Bjarnadóttir, d) Diljá Mjöll og e) Aron Breki. 4) Hólmfríður Hlíf, f. 7.10. 1946, maki Einar Páll Bjarnason, f. 7.7. 1944, börn a) Steinþór, maki Áslaug Dís Ásgeirsdóttir, b) Guðjón Eggert, d. 16.12. 1983, c) Hólmfríður, sambýlismaður Magnús Ragnar Magnússon og d) Silja Hrund, maki Kristján Eldjárn Þóroddsson. 5) Ragnheiður Drífa, f. 3.1. 1948, maki Logi Hjartarson, f. 19.9. 1962, börn a) Dagbjört Lára, maki David Charles Kempf og b) Björgvin Daði, sambýliskona Helena Ketilsdóttir. 6) Kristín, f. 18.2. 1949, börn a) Sigurður Dagur, sambýliskona Sigríður Sif Magnúsdóttir, b) Karl Áki, sambýliskona Berglind Ragnarsdóttir, c) Snorri, maki Fjóla Kristinsdóttir og d) Gauti. 7) Jason, f. 22.8. 1954, maki Hrönn Sturlaugsdóttir, f. 18.12. 1957, börn a) Steinþór, b) Sonja, sambýlismaður Sigurður Eggert Haraldsson og c) Sara, sambýlismaður Garðar Guðjónsson. Dóttir Guðríðar Bjarneyjar og Hosni Ómars Hassan er Valborg Sonya, f. 4. nóvember 1993. Þau slitu samvistum.

Guðríður Bjarney ólst upp á Stokkseyri til 17 aldurs. Eftir það bjó hún lengst af í Reykjavík og vann þar við verslunar- og þjónustustörf meðan heilsa leyfði.

Guðríður Bjarney verður jarðsungin frá Stokkseyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Guðríður Bjarney er látin, 46 ára að aldri, hvar endar þetta! Ég á við að hún var í rauninni að byrja lífið. Hún var hjá okkur Drífu 3. janúar í veislu og þar ræddum við um framtíðina og hún sá hana nokkuð skýrt og greinilegt að hún var að vinna í sínum málum. Hún var svo sannarlega ekki á förum héðan.

Þegar við Drífa byrjuðum saman var Gudda sú fyrsta sem ég kynntist úr hennar fjölskyldu því hún gerði sér ferð í Mávahlíðina að skoða gripinn. Hún kom mér vel fyrir sjónir, ákveðin og skemmtileg og tókst með okkur góð vinátta sem varði alla ævi. Hún fékk mig iðulega lánaðan hjá systur sinni til að fara á böll og alltaf var henni treyst fyrir mér. Hún var góður danspartner og krafturinn í henni! Ætli hún hafi logið þessu með mjaðmagallann? Hún var með meðfæddan mjaðmagalla sem háði henni alla ævi en aldrei á dansgólfinu. Þegar hún var í stuði þá einhvern veginn tók hún allt yfir og allir stóðu og sátu eins og hún vildi, þvílíkur sjarmi sem stúlkan hafði!

En líf Guddu var ekki dans á rósum, síður en svo. Síðustu árin voru henni ábyggilega gríðarlega erfið. En hún æðraðist aldrei, hún var ótrúlega sterk þegar á reyndi. Bæði var hún tvíburi þannig að þær Inga höfðu alltaf styrk hvor af annarri og svo eignaðist hún dóttur 1993 sem reyndist henni sannur sólargeisli, og eins voru börn Ingu henni gleðigjafar.

Auðvitað vildi ég hafa verið henni jafn hjálpsamur og hún var okkur Drífu en við gerðum hvað við gátum og lokuðum engum dyrum og erum þakklát fyrir það. Hjálpsemi hennar meðan heilsan leyfði var slík að þar var við tröll en ekki mann að eiga. Nú ber að horfa fram á veginn og búa Valborgu, Ingu og börnum hennar og okkur öllum gott líf!

Ó, faðir, gjör mig lítið ljós

um lífs míns stutta skeið,

til hjálpar hverjum hal og drós,

sem hefur villst af leið.

Ó, faðir, gjör mig sigursálm,

eitt signað trúarlag,

sem afli blæs í brotinn hálm

og breytir nótt í dag.

(Matthías Jochumsson.)

Far í friði elsku, Gudda mín. Ég trúi því að þú hafir náð vopnum þínum og sért í góðra vina hópi.

Þinn

Logi.

Elsku Gudda, mig langar til að minnast þín með nokkrum orðum.

Ég man svo vel eftir því þegar ég fékk að koma til þín í sveitina að Syðri-Gróf og dvelja hjá þér í dálítinn tíma. Það var mjög skemmtilegur tími þar sem ég fékk að kynnast öllu því sem fram fer í sveitinni. Einnig bauðstu mér oft að koma og gista hjá þér í Reykjavík sem var alltaf skemmtilegt. Manstu þegar við vorum að keyra út pizzurnar? Við hlógum og fífluðumst svo mikið. Þú varst alltaf hress og kát og hafðir háan, smitandi hlátur og fór ekkert á milli mála þegar þú varst annars vegar.

Ég man ekki eftir þér öðruvísi en með bók við höndina. Ísfólksbækurnar voru þinn „fjársjóður“ og minna mig alltaf á þig. Þú lánaðir mér þær meðan ég vann í Árnesi í Þorlákshöfn veturinn eftir að ég kláraði stúdentsprófið og styttu þær mér svo sannarlega stundirnar. Ég kláraði þær ekki allar en ég ætla að gera það einn daginn.

Ég vildi að lífið hefði farið á annan veg hjá þér en ég held fast í þessar góðu og skemmtilegu minningar um þig. Ég vona að þú hafir það gott núna og að þér líði vel.

Þín frænka,

Hólmfríður.

Elsku Gudda, þegar ég var yngri varstu uppáhaldsfrænkan mín og í raun sú eina sem ég almennilega umgekkst af ættingjum. Það var ávallt líf, fjör og fólk í kringum þig. Þú varst með þína sérstöku takta eða stæla sem voru svo skemmtilegir og enginn gat leikið eftir þér. Þú hafðir þinn háttinn á að segja sum orð með spes áherslu. Þau sem voru t.d. með okkur í ferðinni til Portúgals muna hvernig þú sagðir Lisboa. Ég man eftir þér keðjureykjandi í eldhúskróknum með kókglasið ekki langt undan og símann. Að skipuleggja eitthvað hringjandi út um allt, þú varst svo mikil félagsvera og alltaf að útrétta. Þú hafðir gáfurnar og vissir hvernig söng.

Í minningunni eru ofarlega í huga allir bíltúrarnir sem við tvær áttum saman þegar við fórum út á land. Þá var keypt mikið nammi í bílalúgu áður en haldið var af stað til Ólafsvíkur, Galtalækjar eða hvert svo sem ferðinni var heitið. Þegar þú skemmtir þér þá þokkalega skemmtir þú þér best, eins og í brúðkaupi nýlega, þá dansaðir þú eins og það væri enginn morgundagur. Enda kom í ljós að það voru ekkert svo margir morgundagar sem þú áttir eftir. Ég get ímyndað mér að þú hafir verið sárkvalin eftir danskvöldið. Þú varst harðdugleg þrátt fyrir veikindin, lést þig hafa það og aldrei heyrði ég kvart í þér. Þú tókst skurk hvort sem það var í tiltekt, sörubakstri eða í vinnu. Þú passaðir mig oft þegar ég var lítil en þegar ég átti erfitt á táningsárunum þá tókstu mig svolítið til þín og veittir mér skjól sem mig sárvantaði. Þér þakka ég fyrir það, mér þykir bara svo sárt að hafa aldrei almennilega tjáð þér það þakklæti. Þú reyndist móður minni vel og réttir ávallt hjálparhönd þegar á þurfti að halda. Á síðari árum málaðirðu þig út í horn gagnvart sumum en aldrei varstu nema góð í minn garð og minna. Ég veit hvað þú elskaðir mig og ég geymi í hjarta mínu þá sérstöku stund sem við áttum fyrir ekki svo löngu síðan. Mér þykir leitt að hafa fjarlægst þig en ég mun aldrei gleyma því góða sem þú barst elsku Gudda mín. Hvíl í friði.

Elsku Valborg Sonya, þú hefur þurft að reyna mikið en ég vona að framtíðin eigi eftir að verða þér betri. Ég samhryggist þér elsku barn.

Elsku Inga mín, tvíburasystir þín, sem var þér allt, nú er að sækja í styrkinn sem ég veit að þú hefur, ég samhryggist þér innilega.

Dagbjört Lára Sverrisdóttir.