MÆLINGAR við Glerárgötu á Akureyri sýna að svifryk í andrúmslofti var a.m.k. 40 daga yfir heilsuverndarmörkum á nýliðnu ár, og liggja þó enn ekki fyrir tölur vegna síðustu viku ársins.

MÆLINGAR við Glerárgötu á Akureyri sýna að svifryk í andrúmslofti var a.m.k. 40 daga yfir heilsuverndarmörkum á nýliðnu ár, og liggja þó enn ekki fyrir tölur vegna síðustu viku ársins. Þess ber einnig að geta að mælirinn, sem staðsettur er á mótum Tryggvabrautar og Glerárgötu, var bilaður frá maí til september en ástandið er þó jafnan talið best yfir sumarið.

Ástandið var skárra í fyrra en árið þar áður þegar svifrykið var yfir heilsuverndarmörkum 50 daga (en þá var mælirinn reyndar líka bilaður yfir sumartímann).

Leyfilegur fjöldi yfir mörkunum var þá að hámarki 29 dagar en 23 í fyrra. Lögum samkvæmt verður hámarksfjöldi kominn niður í 7 daga árið 2010.

„Það er auðvitað ánægjulegt að dögum yfir heilsuverndarmörkum fækki en ástandið er samt alls ekki nógu gott,“ sagði Alfreð Schiöth, heilbrigðisfulltrúi Norðurlands eystra í samtali við Morgunblaðið.

Alfreð segir Akureyrarbæ hafa gripið til ráðstafana til að minnka svifryk, til dæmis með því að auka þrif á götum og von sé á nýjum, færanlegum svifryksmæli sem Akureyrarbær og ríkið kaupi saman. Með því að geta mælt á mismunandi stöðum í bænum gefist betri heildarmynd af ástandinu.

Eins og áður hefur komið fram er svifryk slæmt fyrir fólk með lungnasjúkdóma og Alfreð segir sænska rannsókn sýna fram á að svifryksmengun verður fleiri Stokkhólmsbúum að aldurtila en umferðarslys í borginni; svifryk er sem sagt hættulegra en bílaumferð. Þá segir hann svifryk geta aukið hættu á heilablóðfalli og hjartaáföllum.