— Árvakur/Golli
„MEÐ þessu erum við að eyða ákveðinni óvissu og taka aftur í okkar hendur það skipulagsvald sem við teljum að borgin eigi að hafa á þessu svæði,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður skipulagsráðs, um þá ákvörðun nýs borgarráðs að...

„MEÐ þessu erum við að eyða ákveðinni óvissu og taka aftur í okkar hendur það skipulagsvald sem við teljum að borgin eigi að hafa á þessu svæði,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður skipulagsráðs, um þá ákvörðun nýs borgarráðs að samþykkja að borgarstjóri gangi til viðræðna við Kaupang eignarhaldsfélag ehf., eiganda Laugavegar 4 og 6, með það að markmiði að borgin kaupi húsin og láti gera þau upp. Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum nýs meirihluta sem og Svandísar Svavarsdóttur, borgarfulltrúa Vinstri grænna. Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, lét bóka að hann óttaðist að með samþykktinni væri borgarráð að setja allt deiliskipulag Laugavegar í uppnám og að stjórnsýsla Reykjavíkurborgar yrði fyrir álitshnekki.

Stefnt að niðurstöðu fyrir mánudag

„Við viljum vernda þessa 19. aldar götumynd og byggja þessi hús upp í sem upprunalegastri mynd, þó þannig að það sé hægt að nýta þau fyrir verslun,“ segir Hanna Birna og bendir á að þegar hafi verið unnar nokkrar tillögur að útfærslu svæðisins sem geri t.d. ráð fyrir að húsunum verði lyft. Ítrekar hún að endurbyggingin eigi að vera í góðri samvinnu við Minjavernd, borgarminjavörð og Húsafriðunarnefnd. Í fundargerð borgarráðs kemur fram að stefnt sé að því að viðræðum við eiganda húsanna ljúki fyrir nk. mánudag, þannig að húsin verði ekki fjarlægð þegar skyndifriðun rennur út. Aðspurð segist Hanna Birna vongóð um það að samningar náist við núverandi eiganda húsanna um kaup borgarinnar á þeim, enda gefi óformlegar viðræður að undanförnu tilefni til bjartsýni. Spurð hvers konar kostnaðartölur um verði að ræða segir Hanna Birna of snemmt að nefna einhverjar tölur í þessu samhengi.

Í hnotskurn
» Húsafriðunarnefnd beitti 14. janúar skyndifriðun fyrir húsin á Laugavegi 4-6.
» Menntamálaráðherra barst í gær greinargerð nefndarinnar fyrir friðun ásamt umsögnum eigenda húsanna og borgarinnar.
» Ráðherra hefur frest til mánudags til að taka afstöðu til friðunar húsanna.