Eftir Skúla Unnar Sveinsson skuli@mbl.is FJÖLNISMENN unnu gríðarlega mikilvægan sigur á Hamri í Iceland Express-deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

FJÖLNISMENN unnu gríðarlega mikilvægan sigur á Hamri í Iceland Express-deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Liðin voru bæði með sex stig í neðsta sæti þannig að það má með sanni segja að þetta hafi verið sex stiga leikur. Fjölnismenn voru yfir allan tímann, 61:54 í hálfleik og höfðu að lokum betur 77:74 eftir æsispennandi lokamínútur.

Karlton Mims byrjaði gríðarlega vel fyrir Fjölni í gærkvöldi og raðaði niður stigunum og áður en varði var staðan 13:3 fyrir heimamenn í Grafarvoginum. En þá gerðist eitthvað sem undirritaður sá ekki, en Viðar Hafsteinsson lá eftir í vellinum og stuðningsmenn Hamars voru vissir um að Mims hefði gert eitthvað við hann enda átti þetta sér stað við hliðarlínuna fyrir framan þá. Það var púað á Mims það sem eftir var leiks og virtist það hafa góð áhrif því hann skoraði ekkert næstu tvo leikhluta og það var ekki fyrr en á lokakaflanum að hann virtist orðinn eðlilegur á ný.

Spennandi lokakafli

Þegar tvær mínútur voru eftir var staðan 73:70 og Fjölnismenn enn og aftur í vandræðum gegn svæðisvörn – virðast ekki kunna að láta boltann ganga hratt á milli manna. Nicholas King fór á vítalínuna og hitti úr öðru skotinu. Sókn Fjölnis rann út í sandinn og King fór aftur á vítalínuna þegar 36 sekúndur voru eftir. Hann hitti aftur úr öðru skotinu, 73:72. Kristinn Jónasson skoraði laglega, beið þar til hann náði skoti og lét brjóta á sér í leiðinni, 76:74 og 18 sekúndur eftir. Hamar skoraði í næstu sókn en Anthony Drejaj hitti úr einu vítaskoti þegar 8,2 sekúndur voru eftir og Hamarsmenn tóku leikhlé. Lagt var á ráðin og það dugði til að ná tveimur þriggja stiga skotum, en hvorugt rataði rétta leið.

Kristinn átti fínan leik hjá Fjölni en fékk á sig óþarflega ódýrar villur. Drejaj var sterkur og Þorsteinn Sverrisson lék fína vörn sem og Helgi Þorláksson. Terrance Herbert gerði ekki stig en tók 10 fráköst.

Lið Hamars var jafnt og Roman Moniak kom gríðarlega sterkur af bekknum. Marvin Valdimarsson meiddist í byrjun leiks og munar um minna.