FINNSKI farsímaframleiðandinn Nokia hefur náð markmiði sínu um 40% markaðshlutdeild á farsímamarkaði. Á fjórða ársfjórðungi 2007, frá októberbyrjun til áramóta, seldi Nokia 133,5 milljónir farsíma.

FINNSKI farsímaframleiðandinn Nokia hefur náð markmiði sínu um 40% markaðshlutdeild á farsímamarkaði. Á fjórða ársfjórðungi 2007, frá októberbyrjun til áramóta, seldi Nokia 133,5 milljónir farsíma. Mest varð aukningin í sölu síma í Asíu, eða rösklega 40%, á meðan salan í Bandaríkjunum dróst heldur saman.

Hagnaður félagsins var með eindæmum á ársfjórðungnum, eða 44% meiri en á sama tímabili 2006. Nam hagnaðurinn 1,84 milljörðum evra, sem svarar til um 180 milljarða íslenskra króna.

Tekjur Nokia jukust um 34% frá fyrra ári og námu á tímabilinu 15,7 milljörðum evra, jafnvirði um 1.500 milljarða króna. Þetta eru mun meiri tekjur en spáð hafði verið fyrir um á markaðnum.

Í kjölfar birtingar uppgjörsins í gær rauk gengi hlutabréfa í Nokia upp um 14% og er það mesta hækkun á einum degi síðan á árinu 2000. Hækkunin hafði jafnframt afgerandi áhrif á finnskan hlutabréfamarkað enda vegur Nokia mjög þungt í finnsku úrvalsvísitölunni. Fregnirnar höfðu að sama skapi áhrif til lækkunar hjá helstu keppinautum Nokia.