ÍSLENSKA bankakerfið er ekki að bráðna, að því er segir í nýrri skýrslu frá BNP Paribas.

ÍSLENSKA bankakerfið er ekki að bráðna, að því er segir í nýrri skýrslu frá BNP Paribas.

„Við höfum verið neikvæð í garð íslensku bankanna síðan í byrjun október en þar sem von er á niðurstöðum fjórða ársfjórðungs í næstu viku og vegna þeirra verðleiðréttinga sem hafa átt sér stað, höfum við þurft að endurskoða afstöðu okkar. Þegar kemur að lánshæfi stendur Landsbankinn best að okkar mati, þá Glitnir og loks Kaupþing. Við erum því sammála markaðnum,“ segir í skýrslunni. Er þá átt við að skuldatryggingarálag Landsbankans á alþjóðamarkaði er lægst bankanna þriggja, sem þýðir að lánakjör hans eru best. Kjör Kaupþings eru verst þar sem álag hans er hæst.

Fram kemur í skýrslunni að hremmingar fjárfestingarfélagsins Gnúps hafi hrint af stað hækkun á skuldatryggingarálagi bankanna sem ekki hafi enn náð að jafna sig. „Að okkar mati brást markaðurinn of harkalega við áhyggjum af fjárfestingarfélögum. Bönkunum hefur síðan verið refsað með áhættufælni og almennri kreppu á markaði.“

Skuldatryggingarálag Kaupþings var 555/570 punktar þegar skýrslan var unnin en BNP segist eiga verulega erfitt með að sjá að Kaupþing muni ekki standa við skuldbindingar sínar. Jafnframt segir að í álagi bankanna, sérstaklega Landsbankans, geti falist tækifæri.

Lagt er út frá hremmingum Gnúps í skýrslunni og BNP spyr sig hvaða bankar hafi staðið að baki lánum til félagsins. Kaupþing sverji það af sér og Glitnir segi stöðu sína í Gnúpi óverulega. Landsbankinn hafi hins vegar tekið þátt í endurskipulagningu Gnúps en segist ekki hafa tapað neinu.

BNP veltir ennfremur upp hversu slæm staða bankanna sé vegna Gnúps og annarra fjárfestingarfélaga. Viss hætta sé á að ógæfa Gnúps hafi keðjuverkandi áhrif og verði bönkunum til vandræða. Þetta hafi í það minnsta haft áhrif á Exista og FL Group. Kaupþing eigi hagsmuna að gæta í Exista en telji sig hafa fyrir því góð veð og ábyrgðir.

Sagt er að innlánahlutfall bankanna hafi styrkst frá vorinu 2006. Hlutfall Landsbankans sé 76%, Kaupþings 44% og Glitnis 39%. Spurningar vakni samt um fjármögnun þeirra ef skuldatryggingarálagið helst hátt. Landsbankinn sé þó í hvað bestri stöðu vegna hás innlánahlutfalls.

Skuldatryggingarálag Kaupþings lá í gær í kringum 590 punkta, álag Glitnis var um 445 punktar og Landsbankans um 320 punktar.