Ánægðir Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra og Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félagsins, fögnuðu árangri söfnunarinnar.
Ánægðir Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra og Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félagsins, fögnuðu árangri söfnunarinnar. — Árvakur/Valdís Thor
ALLS safnaðist 21 milljón króna í söfnun MND-félagsins sem lauk í gær. Söfnunarfénu verður varið til rannsókna á MND-sjúkdómnum en á hverju ári greinast fimm ný MND-tilfelli hér á landi.

ALLS safnaðist 21 milljón króna í söfnun MND-félagsins sem lauk í gær. Söfnunarfénu verður varið til rannsókna á MND-sjúkdómnum en á hverju ári greinast fimm ný MND-tilfelli hér á landi. Jafn margir Íslendingar látast af völdum sjúkdómsins árlega, að því er fram kemur í frétt MND-félagsins. Greint var frá niðurstöðu söfnunarinnar á fundi í Þjóðmenningarhúsinu í gær. Markmiðið var að safna sem svaraði einum bandaríkjadal á hvern Íslending og er nú ljóst að það markmið náðist.

Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félagsins, kvaðst vera stoltari yfir því nú að vera Íslendingar en oft áður. Einn af mörgum draumum MND-félagsins sé að rætast. Íslendingar séu nú að leggja hlutfallslega mest allra til rannsókna á MND-sjúkdómnum. Áður lögðum við ekki krónu til þess verkefnis.

Rota MND-fjandann

„Í mínum huga höfum við tekið af okkur vettlingana og erum á leiðinni með að rota MND-fjandann kaldan,“ sagði Guðjón. Hann sagði að fjárfesting í rannsókn sem þessari muni skila sér margfalt. Tenging þessa sjúkdóms við Alzheimer- og Parkinsons-sjúkdóma sé athyglisverð og ef til vill geti lausn á einum sjúkdómnum leyst vanda hinna. „Ekkert er ólæknandi, það á bara eftir að finna lækningu,“ sagði Guðjón. Hann þakkaði þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í söfnuninni og sagði aðstandendur söfnunarinnar bera þá von í brjósti að aðrar þjóðir fylgi fordæmi Íslendinga og safni sem svarar einum bandaríkjadal á hvern íbúa. Guðjón tekur við formennsku í Alþjóðasamtökum MND-félaga í október næstkomandi. Þar ætlar hann að vekja athygli á árangri Íslendinga og hvetja aðrar þjóðir til að setja sér sambærileg markmið.

Afskaplega „íslensk“ söfnun

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra sagði þessa söfnun afskaplega „íslenska“. Á skömmum tíma hafi Íslendingar færst frá því að vera sú þjóð sem hlutfallslega lagði minnst til rannsókna á MND í það að leggja fram mest. Hann sagði kraft þeirra sem unnu að söfnuninni sýna að þegar þörf sé á sýni Íslendingar samstöðu og samkennd. Hann sagði Guðjón Sigurðsson, formann MND-félagsins, vera driffjöðrina í þessu og gott dæmi um að einstaklingar skipti máli. Guðlaugur lýsti yfir þakklæti fyrir hönd allra þeirra sem starfa að heilbrigðisþjónustu og rannsóknum á því sviði. Bæði fyrir kraftmikla vinnu við söfnunina og örlæti fyrirtækjanna sem gáfu fé.

Aðalstuðningsaðili söfnunar MND-félagsins var Atorka og aðrir helstu stuðningsaðilar voru fyrirtækin Actavis, Glitnir, Kaupþing, GIFT fjárfestingafélag og Sjóvá auk þess sem nokkur fleiri fyrirtæki lögðu söfnuninni lið. MND-félagið lagði einnig fram gjafafé sem einstaklingar hafa fært félaginu til söfnunarinnar. Stuðningsaðilarnir afhentu MND-félaginu styrki sína á blaðamannafundi sem haldinn var í Þjóðmenningarhúsinu í gær.

Þeim sem studdu félagið með vinnu sinni og fjármunum í söfnuninni voru afhentir listmunir í viðurkenningarskyni. Gripurinn heitir Kletturinn og Keramik Studio OS gaf af þessu tilefni.

Söfnunarféð verður varðveitt í sérstökum sjóði og styrkjum til rannsókna úthlutað af stjórn MND-félagsins í samráði við læknateymi. Í því eru Grétar Guðmundsson, taugalæknir á Landspítala, Peter Andersen, yfirlæknir í Umeå í Svíþjóð og Brian Dickie, yfirmaður rannsókna hjá bresku MND-samtökunum. Gunnar Baldvinsson, Guðmundur Torfason og Haraldur Gunnarsson skipuðu stuðningshóp sem vann að söfnuninni.