Klæði Elísabet Agla Stefánsdóttir og Heiðdís Fjóla Tryggvadóttir máta búningasnið upp á Eyrúnu H. Helgadóttur, sem fara mun með hlutverk Lísu.
Klæði Elísabet Agla Stefánsdóttir og Heiðdís Fjóla Tryggvadóttir máta búningasnið upp á Eyrúnu H. Helgadóttur, sem fara mun með hlutverk Lísu. — Árvakur/Steinunn Ásmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is Egilsstaðir | Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum undirbýr nú uppfærslu sögunnar um Lísu í Undralandi eftir Lewis Carroll, í leikgerð Sigurðar Ingólfssonar.

Eftir Steinunni Ásmundsdóttur

steinunn@mbl.is

Egilsstaðir | Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum undirbýr nú uppfærslu sögunnar um Lísu í Undralandi eftir Lewis Carroll, í leikgerð Sigurðar Ingólfssonar. Verkið fjallar um furðuleg ævintýri Lísu, sem vörðuð eru þrautum, rökvillum og mótsögnum. Leikgerð Sigurðar færir söguna þó út úr upprunalegum heimi talandi hálfmennskra dýra og lífi gæddra mannspila og yfir í nútímaveröld yfirborðsmennskunnar.

„Ég held að Lísa hafi ekki fullorðnast neitt, en hún lendir í fullorðinslegri ævintýrum en áður,“ segir Halldóra Malen Pétursdóttir, leikkona og leikstjóri, sem leikstýrir verkinu. „Sýningin mun fjalla um hversu mikið við sækjum í að búa okkur sjálf til úr einhverju öðru. Við könnumst öll við það.“

Gamlir ME-nemar snúa heim til að leggja lið

Halldóra Malen gekk í ME og hefur frá upphafi lagt drjúgt til leiklistarlífs á Fljótsdalshéraði og víðar. Hún segir frábært að vinna með menntskælingunum og þessi aldur hafi óþrjótandi orku og vilja til framkvæmda. „Þau skapa ögrandi hluti sem þýða eitthvað, ekki síst fyrir þau sjálf,“ segir Halldóra. Leikarar í verkinu verða um 35 talsins og er Halldóra með heilt hönnunargengi við störf. M.a. gamla ME-nema eins og Körnu (Kristínu Örnu Sigurðardóttur), sem kemur úr iðnhönnunarnámi frá Nýja-Sjálandi til að hanna umgjörð verksins ásamt Júlíönu Garðarsdóttur, nema í ME, og Elísabetu Öglu Stefánsdóttur, sem hannar búninga uppfærslunnar ásamt Stefaníu Ómarsdóttur, nema í ME. Elísabet er einnig gamall ME-nemandi og nemur nú fatahönnun við Designskolen í Kolding í Danmörku. Halldóra segir feng í Körnu og Elísabetu og nemendur sem áhuga hafi á þessum tilteknu sviðum geti mikið lært af þeim. Búningagerðin er að hluta verkefni í textíláfanga á listabraut ME og er Lára Vilbergsdóttir kennari. Þótt leikgerðin sé enn í mótun liggur fyrir að hún er byggð upp sem martröð Lísu og öndvert sögunni verður hún fyrir súrrealískri reynslu sem hefur æ neikvæðari áhrif á hana. Hún lendir í trylltum og sýrðum pallíettuheimi þar sem bannað er að vera góður og fallegur, ekkert er eins og það sýnist og allir eru í gervi. Hlutverk eru um 35 talsins og æfingar að hefjast. Frumsýna á í mars en ekki ljóst hvar, þar sem enga fullnægjandi sýningaraðstöðu er að hafa á Egilsstöðum fyrir leiksýningar.