Gísli Páll Pálsson fæddist í Reykjavík 1966. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1985, BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 1990 og meistaragráðu í heilsuhagfræði frá sama skóla 2004.

Gísli Páll Pálsson fæddist í Reykjavík 1966. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1985, BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 1990 og meistaragráðu í heilsuhagfræði frá sama skóla 2004. Gísli Páll hefur verið framkvæmdastjóri dvalarheimilisins Áss frá 1990, hann tók sæti í fulltrúaráði EURAG 1994 og var kosinn í stjórn 2005. Gísli Páll er kvæntur Huldu Gísladóttur launafulltrúa og eiga þau þrjú börn.

Nýverið var Gísli Páll Pálsson kjörinn forseti EURAG, sem eru hagsmunasamtök um málefni aldraðra í Evrópu.

„Samtökin voru stofnuð 1964 og hafa einkum verið samtök Evrópusambandslanda, en þó var einn stofnenda EURAG Gísli Sigurbjörnsson, fv. forstjóri á Grund,“ segir Gísli Páll. „Í þá rösku fjóra áratugi sem EURAG hefur starfað hafa samtökin unnið að ýmsum málum er varða velferð aldraðra í Evrópu, og eiga samtökin í dag m.a. aðild að félagsmálanefnd ESB, nefnd SÞ um málefni aldraðra og í nefnd Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Með aðild að þessum nefndum getur EURAG haft áhrif á stefnumótun þessara stóru stofnana og gætt að félagslegum réttindum eldri borgara í Evrópu.“

Aðild að EURAG eiga bæði einstaklingar, félög eldri borgara og stofnanir sem sinna hjúkrun og þjónustu við aldraða: „Alls eiga 150 félög og stofnanir frá 30 Evrópulöndum aðild að EURAG auk fjölda einstaklinga. Samtökin hafa haft skrifstofur sínar í austurrísku borginni Gratz, en nú er unnið að samningum við yfirvöld í Ungverjalandi um flutning skrifstofunnar til Búdapest,“ útskýrir Gísli Páll. Samtökin hafa m.a. unnið að rannsóknarverkefnum með styrkjum frá Evrópusambandinu: „Má þar nefna verkefnið Friendly restroom sem leitaðist við að hanna leiðbeiningar til að útbúa salerni með þeim hætti að gera aðgengi að þeim og notkun sem þægilegust fyrir aldraða og fatlaða,“ segir Gísli. „Samtökin hafa einnig unnið mikið að málum er varða atvinnuþátttöku aldraðra og lífeyrismál þeirra, og þá beint sjónum sínum að svæðum eins og A-Evrópu þar sem aðbúnaður aldraðra er víða í molum.“

Loks standa EURAG fyrir umræðu um ýmis málefni aldraðra með ráðstefnuhaldi: „Síðast héldum við stóra ráðstefnu í Ljubljana í Slóveníu 2005, og er nú unnið að undirbúningi næstu ráðstefnu í Madríd í lok þessa árs. Að jafnaði eru frá 300 upp í 600 þátttakendur á hverri ráðstefnu, og eru rædd hin ýmsu málefni, s.s. félagsleg réttindi og sjúkdómar og vandamál sem tengjast öldrun,“ segir Gísli Páll að lokum.