Nemendur úr ólíkum deildum Listaháskólans leiða saman hesta sína í nýstárlegu verki í Tjarnarbíói í kvöld. Aðeins verður ein sýning á verkinu.

Eftir Einar Jónsson

einarj@24stundir.is

Nemendur úr Listaháskóla Íslands sýna verkið „There is a police inside our heads“ í Tjarnarbíói í kvöld kl. 20. Um er að ræða samvinnuverkefni nemenda úr ólíkum deildum Listaháskólans og er verkið því eins konar blanda tónlistar, hönnunar, myndlistar, vídeólistar og leiklistar.

Hristumst vel saman

„Við vorum á námskeiði þar sem nemendum á fyrsta og öðru ári í öllum deildum Listaháskólans var skipt niður í hópa og þeir unnu verkefni ásamt kennurum. Við ákváðum að fara lengra með okkar verkefni og gera úr því sýningu,“ segir Ástbjörg Rut Jónsdóttir, einn nemendanna.

Hún ber samstarfinu við hina í hópnum vel söguna. „Þessi hópur hristist mjög vel saman og ég held að við séum öll mjög ánægð. Það eru allir voðalega jákvæðir og opnir og tilbúnir að prófa nýja hluti og fylgja hver öðrum í hugmyndum,“ segir hún.

Prófa önnur listform

„Við erum búin að vera að prófa okkur áfram í alls konar miðlum, bæði í því sem við erum góð í og því sem við erum ekki vön að vinna með. Þeir sem eru góðir í einu hjálpa til með hinum og öll erum við að prófa að leika okkur með önnur listform en við erum vön að nota,“ segir Ástbjörg sem vonast til þess að geta unnið meira með félögum sínum síðar meir.

Aðgangseyrir er 500 krónur og athygli er vakin á að ekki verður nema þessi eina sýning.

Í hnotskurn
14 nemendur unnu að gerð verksins. Þeir koma úr hönnunar- og arkitektúr-, myndlistar-, tónlistar- og leiklistardeildum Listaháskólans. Verkið varð til á aðeins þremur vikum.