Lyklaskipti Á borgarstjórnarfundi sem fór fram fyrr um daginn sagði Dagur að í gær hefði átt að kjósa aftur í Reykjavík, enda væri íbúum misboðið. Sagði hann að undanfarna daga hefði verið misfarið með lýðræði og vald.
Lyklaskipti Á borgarstjórnarfundi sem fór fram fyrr um daginn sagði Dagur að í gær hefði átt að kjósa aftur í Reykjavík, enda væri íbúum misboðið. Sagði hann að undanfarna daga hefði verið misfarið með lýðræði og vald. — Árvakur/Kristinn
Eftir Önund Pál Ragnarsson onundur@mbl.is ÓLAFUR F. Magnússon tók við lyklavöldum borgarstjóra í ráðhúsinu af fráfarandi borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni, eftir átakafund í borgarstjórn í gær.

Eftir Önund Pál Ragnarsson

onundur@mbl.is

ÓLAFUR F. Magnússon tók við lyklavöldum borgarstjóra í ráðhúsinu af fráfarandi borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni, eftir átakafund í borgarstjórn í gær. Þrátt fyrir að hitnað hafi í kolunum í borgarstjórn kom nýjum og fráfarandi borgarstjóra vel saman við lyklaskiptin og hrósaði Ólafur forvera sínum í hástert fyrir frammistöðu sína í embættinu. Sagðist Ólafur vonast til þess að hann og Dagur ynnu aftur saman í framtíðinni, þó svo að málum hafi lyktað svona að þessu sinni. Óskaði Dagur honum velfarnaðar í starfi.

Mótmælendur ekki sanngjarnir

Eftir að hafa tekið við lyklunum sagðist Ólafur hafa skynjað ólguna í borginni greinilega fyrir fundinn og að mótmælin kæmu sér ekki á óvart, en mikill mannfjöldi mótmælti harkalega á pöllunum í fundarsal borgarstjórnar. „Ég tel að þetta hafi farið svolítið úr böndunum í dag, en ég skil og virði tilfinningar fólks. Við gáfum fólki vægast sagt góðan tíma til að láta tilfinningar sínar í ljós og reyndum að koma okkar skilaboðum að þegar það var hægt.“ Og borgarstjóranum nýbakaða fannst sumir mótmælendur ekki nógu sanngjarnir í gær. „Þetta er sama fólk og var mín megin við borðið þegar mótmæli voru í borginni vegna Kárahnjúkavirkjunar 2003. Þótt þá hafi líka verið heitt í kolunum gáfu mótmælendur kjörnum fulltrúum færi á að koma sínum skilaboðum á framfæri, sem var eiginlega ekki hægt í dag,“ sagði Ólafur.

Hann kvaðst ætla að lægja öldurnar með því að skapa stöðugleika, standa sig vel og ná trúnaði fólksins sem reiddist honum svo mjög í gær. ,,Við viljum líka eiga gott samstarf við minnihlutann um mörg mál í borginni, enda kemur það fram í stefnuskrá nýs meirihluta að verið er að halda áfram á þeirri braut sem áður hefur verið mörkuð, til dæmis í velferðarmálum.“