Stærstir? Sérfræðingar hafa spáð að Toyota fari fram úr keppinautnum General Motors á þessu ári og verði þar með stærsti bílaframleiðandi heims.
Stærstir? Sérfræðingar hafa spáð að Toyota fari fram úr keppinautnum General Motors á þessu ári og verði þar með stærsti bílaframleiðandi heims. — Reuters
Eftir Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Kapphlaup General Motors (GM) og Toyota um titilinn „stærsti bílaframleiðandi heims“ er eins jafnt og hugsast getur. GM skýrði frá því í fyrradag, miðvikudag, hafa selt 9.369,524 bíla á nýliðnu ári.

Eftir Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Kapphlaup General Motors (GM) og Toyota um titilinn „stærsti bílaframleiðandi heims“ er eins jafnt og hugsast getur. GM skýrði frá því í fyrradag, miðvikudag, hafa selt 9.369,524 bíla á nýliðnu ári. Toyota sagðist fyrr í janúar hafa selt 9,79 milljónir bíla á árinu, en nákvæmari tala mun ekki liggja fyrir fyrr en undir nk. mánaðamót.

GM hefur borið titilinn undanfarin 77 ár og aðeins einu sinni hefur fyrirtækið selt fleiri bíla en 2007 í 100 ára sögu sinni, en það var árið 1978. Er það einkum velgengni Toyota á heimamarkaði GM, í Bandaríkjunum, að japanska fyrirtækið er komið með aðra hönd á titilinn.

Toyota seldi 2,62 milljónir bíla í Bandaríkjunum í fyrra og var söluhærra GM fyrstu þrjá mánuði ársins, en síðan snerist dæmið við. Það er einkennandi fyrir bæði fyrirtækin að þau reiða sig minna á heimamarkað en áður. Toyota seldi t.a.m. aðeins 24% bíla sinna í Japan og meira en helming framleiðslu sinnar seldi GM utan Bandaríkjanna. Í heildina hélt bandaríska fyrirtækið fyrst og fremst velli með öflugri sölu á nýjum mörkuðum þar sem bílasala hefur aukist hratt, ekki síst í Kína, Rússlandi og í Brasilíu.

Átök framundan

Undan fæti hefur hins vegar hallað hjá GM í Bandaríkjunum. Hámarki náði salan árið 1978, eða 7,1 milljón bíla, en smám saman hefur dregið úr henni og nam hún 3,8 milljónum bíla í fyrra. Fyrirtækið hefur fyrst og fremst tapað hlutdeild á fólksbílamarkaði með því að einbeita sér að smíði arðbærra jeppa og pallbíla.

Toyota náði þeim áfanga 2007 að velta Ford úr öðru sætinu yfir söluhæstu bílaframleiðendur í Bandaríkjunum. Hinn öri vöxtur hefur hins vegar bitnað á framleiðslunni, meðal annars í smíðisgöllum. Vegna þeirra hefur Toyota þurft að innkalla gríðarlegan fjölda bíla til lagfæringa.

Vegur GM hefur farið vaxandi undanfarin misseri en fyrir þremur árum rambaði bílafyrirtækið á barmi gjaldþrots. Í millitíðinni hafa runnið úr smiðju þess bílar sem hlotið hafa lof og selst vel á nýjum mörkuðum. Þessir markaðir eru undirstaða vaxtar í bílaframleiðslu og á þeim er GM fremri Toyota sem stendur. Brasilía var þriðji stærsti markaður GM í fyrra, næst á eftir Bandaríkjunum og Kína.

Framundan eru átök milli GM og Toyota í þróun og smíði vistvænna bíla. Hefur síðarnefnda fyrirtækið verið frumkvöðull í þeim efnum. GM hefur hins vegar síðustu misseri varið miklu fé og mannafla til að hasla sér völl á því sviði og ætlar sér þar stóran skerf.