Stefán Erlendsson
Stefán Erlendsson
Stefán Erlendsson fjallar um grein Sigurðar Líndal og fleiri skoðanir varðandi embættisveitingar: "Hægt er að túlka nánast öll lög, reglur, starfshætti eða hefðir nákvæmlega samkvæmt bókstafnum"

SIGURÐUR Líndal prófessor er býsna harðorður í grein sem hann skrifar í Fréttablaðið 15. janúar þessa mánaðar um umdeilda skipun í embætti dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands. Í greininni gerir Sigurður að umtalsefni viðbrögð Morgunblaðsins og varaformanns Sjálfstæðisflokksins við gagnrýni sem komið hefur fram á embættisfærslu setts dómsmálaráðherra. Samkvæmt leiðara Morgunblaðsins frá 10. janúar síðastliðnum og Sigurður vitnar til er það einfaldlega rangt að niðurstaða dómnefndar um dómstóla, sem taldi að sá umsækjandi sem skipaður var í embættið stæði þremur öðrum umsækjendum verulega að baki, setji veitingarvaldinu einhverjar skorður. Ekki sé að finna stafkrók um slíkt í neinum lagatexta sem málið varðar. Hvað viðbrögð varaformannsins áhrærir bendir Sigurður á að einvörðungu sé um að ræða stuðningsyfirlýsingu við ákvörðun setts dómsmálaráðherra án þess að nokkur haldbær rök fylgi fremur en í tilfelli ráðherrans sjálfs. Sigurður er aftur á móti þeirrar skoðunar eins og fleiri sem gagnrýnt hafa embættisveitinguna að hún hafi verið gerræðisleg og andstæð lagaskilningi nútímaréttarríkis.

Þessi ágreiningur endurspeglar á vissan hátt greinarmun sem stundum er gerður á lagabókstafnum og anda laganna. Hægt er að túlka nánast öll lög, reglur, starfshætti eða hefðir nákvæmlega samkvæmt bókstafnum. Sé það gert, eins og hér er raunin, virðist settur dómsmálaráðherra hafa verið í fullum rétti til að sniðganga dómnefndarálitið og leggja eigið mat á hæfni umsækjenda. Þetta er skilningur Morgunblaðsins og samflokksmanna ráðherrans sem hafa tjáð sig um málið auk varaformannsins. Þannig heldur formaður flokksins því fram að embættisveitingin hafi verið innan eðlilegra valdmarka og lögfræðimenntaður þingmaður úr sama flokki segir það ótvírætt að farið hafi verið að lögum.

Á hinn bóginn má oft greina að baki laganna hvað vakað hefur fyrir upphaflegum höfundi þeirra; þann tilgang eða anda sem varð kveikjan að lagasetningunni. Sigurður tekur þennan pól í hæðina og vekur athygli á því að á síðari hluta 20. aldar hafi í vaxandi mæli verið farið að gefa gaum að þeim grunngildum „sem búa að baki lögskipaninni og eru orðuð í mannréttindaákvæðum stjórnskipunarlaga, í almennri löggjöf og óskráðum meginreglum“. Þessu, ásamt skiptingu valds milli stofnana, er ætlað að takmarka vald óháð bókstaf einstakra laga. Með því að hunsa álit dómnefndar sem hefur það hlutverk að tryggja sjálfstæði dómstóla og hlutlægt hæfnismat hefur settur dómsmálaráðherra, að mati Sigurðar, haft að engu þá mikilvægu kröfu að við lagasetningu í réttarríki sé mælt fyrir um „fyrirsjáanlegt ferli sem þegnarnir geti treyst“. Ráðherrann hefur, með þröngri túlkun lagabókstafsins, tekið sér óskorað veitingarvald sem ekki lýtur neinum takmörkunum. Af þessu leiðir að ákvörðun hans byggist ekki á málefnalegum forsendum heldur ræðst hún af geðþótta.

Sigurður lætur að því liggja að með viðleitni sinni til að réttlæta hina umdeildu embættisveitingu taki Morgunblaðið undir það sjónarmið að hafa megi valdboðið eitt að leiðarljósi ef það þjónar æskilegum öflum innan þjóðfélagsins. Slíkt hið sama hlýtur þá að gilda um aðra sem gengið hafa fram fyrir skjöldu og varið ákvörðun ráðherrans. En þessi niðurstaða er ekki sjálfgefin. Ef málatilbúnaðurinn er skoðaður með hliðsjón af siðferðisþroskakenningu bandaríska siðferðissálfræðingsins Lawrence Kohlberg kemur nefnilega svolítið forvitnilegt í ljós.

Kohlberg skipti siðferðisþroska einstaklinga í sex stig en taldi jafnframt að fæstir næðu lengra en upp á fjórða stig siðferðisþroskans – svokallað stig laga og reglna. Þegar ágreiningur á borð við þann sem hér er til umfjöllunar rís er líklegt að þeir sem leggja áherslu á að fylgja lagabókstafnum fremur en huga að anda eða tilgangi laganna séu sáttir við röksemdafærslu á þessu þroskastigi. Kohlberg hélt því einnig fram að það væri nánast borin von að einstaklingur á tilteknu siðferðisþroskastigi gæti skilið eða kynni að meta röksemdafærslu þeirra sem eru á hærra stigi. Þannig er ekki víst að sá sem leggur metnað sinn í að fylgja lagabókstafnum skilji sjónarmið þess sem mælir eindregið með því að horft sé til anda laganna. Áhersla á anda laganna er einkennandi fyrir röksemdafærslu á fimmta og sjötta stigi Kohlbergs.

Þegar viðbrögð núverandi forsætisráðherra við orðfæri í grein Sigurðar Líndal, sem forsætisráðherrann sagði að væri honum til minnkunar, og ummæli fyrrverandi forsætisráðherra, sem sagði umræðuna um embættisveitingu sonar síns það ljótasta sem hann hafi orðið vitni að á ferli sínum, eru skoðuð í þessu ljósi öðlast þau alveg nýja merkingu. Það talar auðvitað hver og einn eins og hann eða hún hefur vit til.

Höfundur er stjórnmálafræðingur.

Höf.: Stefán Erlendsson fjallar um grein Sigurðar Líndal, fleiri skoðanir varðandi embættisveitingar