Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness hefur dæmt Pólverja, Robert Olaf Rihter, í fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps í Reykjanesbæ aðfaranótt 8. nóvember sl.

Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson

orsi@mbl.is

HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness hefur dæmt Pólverja, Robert Olaf Rihter, í fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps í Reykjanesbæ aðfaranótt 8. nóvember sl. fyrir að slá annan karlmann ítrekað í höfuð, háls og víðar með brotinni glerflösku.

Ákærði var einnig dæmdur til að greiða fórnarlambinu, sem er samlandi hans, 790 þúsund krónur í bætur ásamt vöxtum.

Ákærði kvaðst hafa búið u.þ.b. tvo mánuði með samlanda sínum og hafi þeir verið kunningjar. Sagði hann að þeir hefðu drukkið mikið áfengi umrætt kvöld og að hann myndi lítið eftir kvöldinu. Ekki mundi ákærði eftir samskiptum þeirra, þ.e. hvort þau hefðu verið vinsamleg eða ekki. Hann mundi þó að þeir hefðu byrjað að slást. Kvaðst hann muna eftir flösku í hendi fórnarlambsins sem hefði slegið hann með henni. Honum hefði brugðið mjög við þetta og sjálfur tekið flösku og brotið hana í varnarskyni. Ákærði kvaðst hafa verið hræddur um líf sitt og ekki slegið vísvitandi í háls fórnarlambsins eða andlit. Sagðist hann ekki hafa gert sér grein fyrir að önnur eins árás gæti leitt til bana.

Engar refsilækkandi ástæður þóttu koma til greina hjá ákærða að mati dómsins.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari dæmdi málið. Verjandi var Ingimar Ingimarsson hdl. og sækjandi Hulda Elsa Björgvinsdóttir, fulltrúi ríkissaksóknara.