Hilmar Steinólfsson fæddist á Bergþórshvoli í Fáskrúðsfirði 17. júlí 1925. Hann lést á Droplaugarstöðum að morgni 7. janúar síðastliðins og fór útför hans frá Grafarvogskirkju 14. janúar.

Jæja elsku afi, það er víst kominn tími til að kveðja. Þú varst yndislegur maður og ég á eftir að sakna þín mikið. Ég á ótrúlega margar góðar minningar af okkur saman og mér finnst ég einstaklega heppin að hafa átt svona frábæran afa.

Það var oft mikið stuð í fjölskylduboðum þegar við krakkarnir vorum yngri og þar varst þú alltaf aðalmaðurinn. Eitt kvöld í sveitinni er mér sérstaklega minnisstætt. Þar varst þú að sýna okkur systkinunum vasagaldur. Við sátum allt kvöldið og hreinlega gátum ekki skilið hvernig þú fórst að þessu. Galdurinn gekk alltaf upp og það kvöld sannfærðist ég um að þú værir í raun og veru töframaður. Ég komst reyndar að því síðar hvernig þú fórst að þessu en ég dáist enn að því hvernig þér tókst að plata okkur upp úr skónum.

Afi var sjaldan einn, með honum í för voru yfirleitt húfan hans góða og vindillinn. Ég man hvað mér þótti fyndið þegar hann var eitt sinn að reyna að fela vindilinn fyrir ömmu. Í stað þess að henda vindlinum frá sér stakk afi honum beint í vasann svo reykurinn steig upp úr vasanum.

Þegar ég var yngri fékk ég oft að koma suður á sumrin og vera hjá ömmu og afa í Álandinu. Þegar ég flutti svo suður fékk ég að vera hjá þeim á meðan ég var að finna mér íbúð og koma mér fyrir. Allan þann tíma sem ég var hjá þeim stjanaði afi við mig og gerði allt sem í hans valdi stóð til að mér liði sem allra best. Það mætti í raun segja að hann hefði stjanað við mig dag og nótt. Þegar ég keypti mér bíldruslu var hann alltaf til í að koma og hjálpa mér þar sem ég var annaðhvort bensínlaus eða með sprungið dekk. Bíllinn átti það til að eyða meiri smurolíu en bensíni og þótti mér afi vera aðeins of duglegur að tékka á bílnum og sagði við hann að ég yrði nú bara að fara að hugsa um þetta sjálf. Hann tók það gott og gilt en eina nóttina heyrði ég að einhver fór út og þegar ég leit út um gluggann stóð afi yfir bílnum að tékka á olíunni. Þetta er alveg lýsandi dæmi um hversu hjálpfús hann var og hversu vel hann hugsaði um alla í kringum sig.

Elsku afi, þegar ég hitti þig um jólin kvaddir þú mig svo fallega og því vil ég kveðja þig með sömu orðum – Við sjáumst í næturlaginu.

Selma

Margs er að minnast og margt að þakka.

Hann pabbi minn kvaddi þennan heim að morgni 7. janúar sl.

Það er alltaf högg þegar einhver manni nákominn fellur frá, ég vissi svo sem að hverju dró en eins og svo oft áður þá hélt maður að jafn sterkur maður og hann var myndi rífa sig upp úr þessum veikindum.

En pabbi minn, það er svo ótalmargs að minnast sem mér finnst ég þurfa að þakka fyrir.

Þegar ég hugsa til baka dettur mér fyrst í hug ein af okkar mörgu Akureyrarferðum. Ég var sex ára. Við lögðum af stað upp úr klukkan fimm að morgni. Fyrirfram varst þú búinn að búa um mig á gólfinu í bílnum með teppi og kodda en ég var of spennt til að leggjast til svefns því ég þurfti að fylgjast með bílunum sem við mættum og heilsa þeim að bílstjórasið! Svo liðu árin og ég var enn að þvælast með þér þegar ég var tólf ára. Á þeim tíma átti ég hvert bein í Valda Bald, Valgarði Stefáns, hjá þeim í Lindu og Akra smjöri. Þeir leystu mig allir út með einhverju nammi. Eitt atvik man ég sem gerðist hjá Valda Bald. Þá var flutningabíllinn ekki rétt staðsettur og þú sagðir mér að bakka honum svolítið. Ég ætla ekki að lýsa upplitinu á starfsmönnunum þegar ég stökk upp í bílstjórasætið og bakkaði bílnum eins og þú vildir.

Og enn leið tíminn og þegar Jóna systir eignaðist dreng á 50 ára afmælinu þínu og skírði hann í höfuðið á þér pabbi hafðir þú eignast „nafna“. Hilmar átti eftir það alltaf vissan stað í hjarta þínu. Hilmar hefur líka staðið vel undir nafninu og fannst þú alltaf vera aðalkarlinn. Alltaf gladdist þú yfir hverju barnabarninu sem fæddist.

Valur minn fæddist 1977 og bjuggum við fyrstu mánuðina heima á Suðurgötunni. Þér þótti nú ekki leiðinlegt að koma heim og geta kitlað strákinn! Haustið 1981 þurfti ég að fara í aðgerð til Reykjavíkur og amma Sigga tók að sér að passa Selmu, þá nokkurra mánaða, meðan ég var að jafna mig. Amma Sigga sagði mér seinna að hún hefði verið í mesta basli með þig pabbi því þegar þú komst í hádegismat þá ólmaðist þú svo mikið í stelpunni að amma var rétt búin að róa hana niður þegar þú komst í kaffi. Amma talaði um, að þú héldir að það væri einhver takki á börnum sem kveikt væri á og síðan slökkt. En þetta varst þú, þú gerðir þetta við öll börn sem þú náðir í.

Eftir að þið mamma fluttuð suður fórst þú að vinna hjá ÁTVR í útkeyrslu. Þú kunnir alltaf vel við þig hjá því fyrirtæki og eignaðist marga góða vini. Þú hafðir líka hlutverki að gegna hjá fjölskyldunni, alltaf varstu tilbúinn þegar einhvern vantaði hjálp. Vinnan hjá ÁTVR var milli átta og fjögur en það var ekki sá vinnutími sem þú varst vanur, dagurinn var rétt byrjaður þegar þú varst kominn heim aftur! Þú varst jafnvel að bjóða fólki að taka til í bílskúrnum hjá því eftir vinnu. Ekki má gleyma að minnast á dansinn, þú hafðir einstaklega gaman af því að dansa, gast hreinlega dansað alla nóttina bara ef einhver var í fangi þér.

Elsku pabbi minn, það er ótal margt sem við Maggi eigum þér að þakka, t.d. þegar við vorum að byggja íbúðarhúsið á Hrauni og þú fluttir allt efni og öll tæki til okkar endurgjaldslaust og keyrðir jafnvel yfir nóttina eins og þegar þú komst með heyhleðsluvagninn norður og renndir í hlað klukkan 8 um morguninn vegna þess að þú vildir ekki að svona splunkunýr vagn yrði fyrir grjótkasti.

Valur, Selma, Brynjar og Arnar Bjarki sakna afa síns og þakka honum fyrir alla hlýjuna sem hann veitti þeim. Við Maggi þökkum fyrir okkur.

Hvíldu í friði, elsku pabbi minn. Góður Guð styrki mömmu og systkini mín í þessari miklu sorg.

Þín dóttir,

Elínborg.