Skíðafólk Miklar væntingar eru til skíðasvæðisins í Stafdal ofan Seyðisfjarðar, en svæðið hefur nú tekið stakkaskiptum hvað aðstöðu varðar.
Skíðafólk Miklar væntingar eru til skíðasvæðisins í Stafdal ofan Seyðisfjarðar, en svæðið hefur nú tekið stakkaskiptum hvað aðstöðu varðar. — Árvakur/Steinunn Ásmundsdóttir
Seyðisfjörður | Nýi skíðaskálinn í Stafdal ofan Seyðisfjarðar vekur mikla ánægju skíðaiðkenda og markar í raun tímamót í uppbyggingu skíðasvæðisins fyrir Seyðfirðinga og Héraðsbúa, sem nýta svæðið sameiginlega.

Seyðisfjörður | Nýi skíðaskálinn í Stafdal ofan Seyðisfjarðar vekur mikla ánægju skíðaiðkenda og markar í raun tímamót í uppbyggingu skíðasvæðisins fyrir Seyðfirðinga og Héraðsbúa, sem nýta svæðið sameiginlega.

Alcoa Fjarðaál gaf skíðasvæðinu upplýsingamiðstöð sem staðið hafði ofan álverslóðarinnar á Hrauni í Reyðarfirði meðan á byggingu verksmiðjunnar stóð. Var skálinn fluttur í Stafdal milli jóla og nýárs.

Ólafur Sigurðsson, bæjarstjóri á Seyðisfirði, skrifar um málefni skíðasvæðisins á vef Seyðisfjarðarkaupstaðar. Hann segir þar að ýmsar framkvæmdir hafi þurft vegna skálans og búið sé einnig að vinna mikla jarðvegsvinnu í fjallinu. Þurfi nú miklu minni snjó til að hægt sé að halda svæðinu opnu. Nýr snjótroðari er jafnframt kominn á svæðið.

Fram kemur hjá Ólafi að hugsanlega verði svæðið austan vegarins upp að skíðasvæðinu notað fyrir mótorkross-ökumenn á sumrin og vélsleðasportið þegar kominn er snjór. Verið sé að kanna þessa möguleika og jafnvel megi útfæra aðstöðuna þannig að hún verði sameiginlegt mótorkross- og vélsleðasvæði fyrir allt Austurland, en iðkendur hafi verið á hrakhólum um aðstöðu víða um fjórðunginn.