Eftir Ægi Þór Eysteinsson aegir@24stundir.

Eftir Ægi Þór Eysteinsson

aegir@24stundir.is

„Þetta er uppsafnað og eitthvað sem ég tel rétt á þessum tímapunkti,“ segir Björn Ingi Hrafnsson sem óskaði eftir lausn frá störfum sem borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík, á borgarstjórnarfundi í gær.

„Mér hefur fundist fara of mikið fyrir ósanngjarnri gagnrýni í minn garð undanfarið, sem hefur verið rætin og persónuleg og ég hef ákveðið að taka ekki þátt í,“ og vísar Björn Ingi hér til málflutnings Guðjóns Ólafs Jónssonar, fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins í fjölmiðlum. „Ég tel að málið allt hafi skaðað Framsóknarflokkinn.“

Björn Ingi segir ákvörðunina hafa haft skamman aðdraganda. „Mér hefur sýnst þessum árásum síðustu daga vera beint að minni persónu og þær drifnar áfram af hatri í minn garð. Ég tel að það sé flokknum fyrir bestu að ég stígi til hliðar svo að þeim linni. Þetta er ákvörðun sem ég er mjög sáttur við.“

Björn Ingi segist hættur afskiptum af stjórnmálum að sinni en útilokar ekki að hann snúi aftur í stjórnmálabaráttuna enda hafi hann ekki skráð sig úr Framsóknarflokknum.

Sýnir ákvörðun Björns skilning

„Þetta eru stór tíðindi og segja manni það hvernig þessi harða persónulega umræða getur hreinlega valdið því að ungir menn vilja hverfa frá pólitísku starfi.“ Þetta segir Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, vegna brotthvarfs Björns Inga úr trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.

„Fyrst fékk hann á sig gusur vegna REI-málsins þar sem ráðist var á hann persónulega og svo kemur þetta núna úr okkar röðum af mikilli hörku frá Guðjóni Ólafi. Ég fann að þetta tók mjög á hann og ég skil ákvörðun hans því menn nenna ekki að búa við svona harkalega umræðu um persónu sína. Ég vona að þessi umræða hverfi innan Framsóknarflokksins því ég vil ekki svona persónulega áreitni innan flokksins og því bið ég menn að slíðra sverðin.“

Í hnotskurn
Skrifstofustjóri þingflokks framsóknarmanna 2002. Aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar árin 2003 til 2006. Borgarfulltrúi í Reykjavík frá maí 2006. Formaður borgarráðs og varaforseti borgarstjórnar.