Morðingi sem dæmdur var í 11 ára fangelsi fyrir morð auk annarra afbrota í upphafi þessarar aldar hefur verið rekinn úr læknisfræðinámi við Karólínsku stofnunina í Stokkhólmi.

Morðingi sem dæmdur var í 11 ára fangelsi fyrir morð auk annarra afbrota í upphafi þessarar aldar hefur verið rekinn úr læknisfræðinámi við Karólínsku stofnunina í Stokkhólmi. Morðinginn, sem látinn var laus í febrúar í fyrra, komst að í læknisfræði með því að falsa framhaldsskólaeinkunnir.

„Við vissum að hann hafði breytt um nafn á meðan hann sat inni en á falsaða prófskírteininu, sem var með ártalinu 1995, var nýja nafnið hans, mörgum árum áður en hann framdi glæpinn. Þetta þótti okkur einkennilegt,“ segir Harriet Wallberg-Henriksson rektor í viðtali á fréttavef Dagens Nyheter. Málið var rannsakað og í kjölfarið var maðurinn, sem er rúmlega þrítugur, rekinn úr læknadeildinni.

Það var hins vegar árið 1997 sem maðurinn tók stúdentspróf. Einkunnirnar voru í meðallagi og hann hafði alls ekki tekið próf í raungreinum.

Rektorinn vill nú vita hvort þeir sem dæmdir eru fyrir morð eigi yfirhöfuð að fá að verða læknar.

ibs