Þórunn Bjarney Garðarsdóttir fæddist í Syðra-Holti í Svarfaðardal 2. september 1918. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 18. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Jóna Sigurvina Björnsdóttir, f. á Hánefsstöðum í Svarfaðardal 26. september 1896, d. 29. mars 1966, og Garðar Jónsson, f. á Tindriðastöðum í Hvalvatnsfirði 6. nóvember 1898, d. 17. september 1967. Þórunn var elst fimm systra en hinar eru Sigurveig Mýrdal, f. 15. júlí 1924, Gerða Tómasína, f. 17. ágúst 1927, Auður, f. 21. maí 1934, og Gíslína, f. 12. desember 1935. Þórunn ólst upp á Dalvík og Akureyri en fluttist til Reykjavíkur með foreldrum sínum árið 1932.

Þórunn var tvígift. Fyrri maður hennar var Halldór Ágúst Benediktsson, f. 23. september 1911, d. 13. febrúar 1989. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Garðar, f. 6. nóvember 1941, maki Inga Jónsdóttir, f. 3. ágúst 1939, börn þeirra eru Jón Kristinn, f. 1. mars 1971, og Þórunn Bjarney, f. 10. febrúar 1972. 2) Kristín Jóna, f. 3. mars 1947. Dóttir hennar er Stefanía Guðrún Sæmundsdóttir, f. 13. mars 1967. 3) Anna Þórunn, f. 9. september 1951, maki Ágúst Þorsteinsson, f. 6. maí 1957, börn þeirra eru Halldór Ágúst, f. 31. maí 1986, og Guðfinna, f. 14. ágúst 1991. Seinni maður Þórunnar var Helgi Hannesson, f. 18. apríl 1907, d. 30. nóvember 1998. Börn þeirra eru: 1) Helgi Þór, f. 4. janúar 1956, maki Guðbjörg Hanna Gylfadóttir, f. 7. október 1964, börn þeirra eru Gylfi Þór, f. 13. október 1990, og Andrea, f. 13. mars 1995. Fyrir átti Helgi Þór dótturina Guðrúnu Þóru, f. 6. apríl 1979. 2) Hanna Ragnheiður, f. 22. janúar 1961, maki Steffen Simbold, f. 10. mars 1965, börn þeirra eru Viktor Fogh, f. 7. nóvember 1995, og Magnus Helgi, f. 6. september 1998. Langömmubörn Þórunnar eru sjö.

Þórunn helgaði sig alla tíð heimili sínu og fjölskyldu, lengst af í Stigahlíð 30, en þar hélt hún heimili til dánardags.

Útför Þórunnar verður gerð frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Þú frjóvgar, gleður, fæðir allt

um fjöll og dali og klæðir allt

og gangirðu undir gerist kalt,

þá grætur þig líka allt.

Ó blessuð vertu sumarsól,

er sveipar gulli dal og hól

og gyllir fjöllin himinhá

og heiðarvötnin blá.

(Páll Ólafsson)

Hún amma okkar, amma Tóta, var eins og sumarsólin. Hún umvafði okkur með ást og umhyggju. Uppáhaldið hennar var að gefa okkur að borða, það mátti enginn vera svangur í Stigahlíðinni. Hún gerði besta grjónagraut í heimi og heita súkkulaðið hennar var ljúffengt. Við vorum stundum í pössun hjá henni þegar við vorum lítil, þá var hægt að leika í friði í skúffunni í eldhúsinu sem var full af smádóti. Við spiluðum oft, matador og bingó en oftast veiðimann og svarta-pétur og amma tapaði ótrúlega oft. Amma var alltaf kát og glöð og hún elskaði fótbolta í sjónvarpinu og henni fannst mjög gaman að Leiðarljósi. Amma las mikið af ljóðum og var Davíð frá Fagraskógi í uppáhaldi hjá henni.

Leggur loga bjarta, mín liljan fríð

frá hjarta til hjarta, um himinhvelin víð

og blítt er undir björkunum í Bláskógahlíð.

(Davíð Stefánsson)

Megi englar Guðs vera með þér elsku amma, hvíl í friði.

Andrea og Gylfi Þór.

Það er komið að kveðjustund, amma Tóta hefur kvatt þennan heim 89 ára að aldri.

Fyrstu minningar mínar af ömmu eru sveipaðar ævintýraljóma. Hún var ætíð vel til höfð, með hárið lagt og í fallegum lakkskóm. Hún ferðaðist með Helga til Ameríku og færði krökkunum framandi leikföng þegar heim var komið. Hún las bækur og blöð á dönsku og norsku, vissi allt um kóngafólkið og talaði um altan og fortov. Bíltúrar á gula drekanum með ömmu og Helga voru ævintýri líkastir. Við systkinin fengum alltaf ís í brauðformi og svo dunduðum við okkur við að gera mynstur í loðáklæðin á sætunum.

Það var alltaf gott að koma í Stigahlíðina. Þar var alltaf heitt á könnunni og bakkelsi á borðum. Amma fylgdist ávallt vel með afkomendunum og hún var alltaf tilbúin að hlusta og aðstoða eftir getu. Hún vildi hafa fólkið sitt í kringum sig og þreyttist aldrei á að hvetja okkur til að koma alkomin heim frá útlöndum. Amma Tóta var með góðan húmor sem ég kunni vel að meta, hún fylgdist vel með þjóðmálunum og hafði mjög gaman af að horfa á fótbolta þar sem hún var ávallt vel með á nótunum. Hún hafði einnig gaman af ljóðalestri og þar var Davíð Stefánsson í uppáhaldi.

Amma átti fjórar systur og var oft mjög glatt á hjalla þegar þær voru saman komnar. Minnistæð er frásögn af ferð þeirra systra norður í land með pabba mínum. Heiðra átti Völlu frænku á 100 ára afmæli hennar. Mér fannst það alveg stórkostlegt að þessar fullorðnu konur og pabbi hefðu númerað alla brandarana og lært þá utan að. Svo var bara nóg að segja eitt númer og allir ferðalangarnir veltust um af hlátri.

Börnunum mínum þótt mikið vænt um ömmu langömmu eins og þau kölluðu hana. Í þeirra augum var langamma svo hlý og góð. Hún var óþreytandi að leika búðarleik í eldhúsinu þar sem allt var við höndina, skúffa full af vörum, fullt af skiptimynt og auðvitað búðarkassi. Hún kenndi börnunum þulur og vísur sem hún hafði eitt sinn kennt mér og það var notalegt að fá að sitja í fanginu hennar og strjúka mjúka handleggina. Amma hafði sérstaklega gaman af þessum ávana dóttur minnar.

Ég er þakklát fyrir að hafa átt góðar stundir með ömmu nú um jólin, minningarnar um ömmu Tótu munu ylja okkur fjölskyldunni um ókomna tíð.

Hvíl í friði, kæra amma,

Þórunn Bjarney Garðarsdóttir.

Elsku amma Tóta mín.

Ég trúi því varla að þú sért farin, yndislega amma mín sem hefur alltaf verið til staðar frá því að ég fæddist.

Frá því að ég var lítil hef ég alltaf sótt mikið í að vera hjá afa og ömmu í Stigahlíðinni. Það var alltaf spennandi að fá að vera í pössun þar og sérstaklega þegar ég fékk að gista. Amma svaf alltaf við hliðina á mér og við töluðum saman eða skoðuðum dönsku kóngablöðin hennar. Að sitja í ömmurúmi og tala fram á nætur varð að vana sem við héldum í öll þessi ár. Amma fór oft með mig niður í bæ þar sem við þrömmuðum upp og niður Laugaveginn. Oftar en ekki gaf hún mér Barbie-dúkku og átti ég orðið dágott safn eftir allar bæjarferðirnar. Síðan flutti ég norður í Skagafjörð en ég hélt áfram að sækja mjög í að vera hjá ömmu og afa. Það fyrsta sem ég gerði í hvert skipti sem ég kom til Reykjavíkur var að fara í Stigahlíðina þar sem kjötbollulyktin angaði niður stigaganginn. Amma bjó alltaf til uppáhaldsmatinn handa mér, ömmukjötbollur í brúnni sósu, og svo var Cocoa Puffs í eftirmat. Amma var afar lagin við að búa til góðan mat og það var henni mikilvægt að enginn færi svangur frá henni. Amma var ákaflega ósérhlífin manneskja og hún snerist í kringum alla sem komu til hennar og vildi að öllum liði vel hjá sér. Amma tók einstaklega vel á móti Marcusi þegar hann kom með mér til Íslands. Það var hlaðið borð af kræsingum alla daga og okkur fannst við alltaf vera velkomin hvenær sem var.

Elsku amma. Þú varst ákaflega hjartahlý og ég átti alltaf tryggan samastað hjá þér. Ég á þér svo margt að þakka og þú átt svo stóran hlut í því hver ég er í dag. Söknuðurinn er mikill nú þegar þú ert fallin frá en sem betur fer á ég margar góðar minningar um yndislegu ömmuna mína sem ég get alltaf yljað mér við.

Elsku amma Tóta, takk fyrir allt. Minning þín mun ætíð lifa í hjarta mínu.

Þín

Guðrún Þóra.

Amma Tóta var einstök kona og átti mikilvægan stað í hjarta okkar systkinanna. Við vorum alltaf velkomin í heimsókn og var alltaf jafn gaman að koma til hennar. Hún átti alltaf eitthvað gott handa okkur í gogginn þegar við komum í Stigahlíðina. Það var oft farið út í Suðurver, þar sem við fengum uppáhaldsmatinn okkar, hamborgara og kjúkling. Það kom ekki til greina að við færum svöng frá henni.

Þó svo að tvær kynslóðir skildu okkur að, var hægt að tala um allt milli himins og jarðar við ömmu. Hún hafði mikinn áhuga á fótbolta og horfðum við oft saman á enska boltann. Amma lét velferð annarra ganga fyrir sinni eigin og var alltaf tilbúin að styðja og styrkja aðra.

Síðustu jól sem og önnur voru okkur mjög dýrmæt, þar sem við áttum dásamlegar stundir saman með ömmu og verða þær okkur ógleymanlegar. Það var margt sem við gátum lært af henni og hún var góð fyrirmynd í alla staði. Það var okkur ólýsanlega mikill heiður að hafa átt hana fyrir ömmu og munum við geyma minningar um hana í hjarta okkar um ókomna tíð.

Elsku amma, megir þú hvíla í friði.

Ástarkveðja,

Halldór Ágúst og Guðfinna.

Svört sorgarský leggjast nú yfir myrka kalda vetrardaga því engill dauðans, hinn slyngi sláttumaður, gekk hér um garð og hjó skarð í systrahóp.

Þórunn systir mín var elst okkar systranna fimm. Hún er nú horfin á braut, en minningarnar um hana munu lifa. Tóta var þannig manneskja að hún skildi aðeins eftir sig bjartar og góðar minningar. Okkur yngri systrunum þótti gott að leita til hennar ráða því hún var góð kona, greind, lífsreynd og víðlesin.

Hún var fædd á Akureyri, en þar bjuggu foreldrar okkar, þau Garðar Jónsson sjómaður og Jóna Björnsdóttir, sín fyrstu búskaparár og þar ólst hún upp til fjórtán ára aldurs er þau fluttu suður til Reykjavíkur. Hún átti við alvarleg veikindi að stríða um tvítugsaldurinn, en náði sér að fullu og var hraust eftir það fram á elliár.

Þórunn var tvígift og eignaðist fimm börn, níu barnabörn og sjö barnabarnabörn. Henni þótti mjög vænt um hópinn sinn og var ákaflega stolt af honum.

Eftir að börnin komu til sögunnar beindist allt hennar starf og öll hennar umhyggja að heimili og börnum. Hún var þeirra fasti punktur í tilverunni. Missir þeirra er því mestur nú þegar hún er horfin sjónum okkar. Ég fel þau Drottni. – Vort líf er allt í hendi hans, hann spinnur lífsþráð sérhvers manns og vefur æfi vorrar voð, vor bróðir, faðir, æðsta goð. – Ég bið hann að blessa þau, styðja og styrkja í sorg þeirra.

Far þú vel, elsku systir. Blessuð sé þín bjarta mynd í minninganna landi. Hún mun ætíð bregða birtu og yl yfir lífsins grónu götur og lýsa fram á veginn.

Auður.

Það má segja að í kringum ömmu hafi kynslóðirnar blandast á margvíslegan hátt og í raun alltaf verið börn og ungt fólk í kringum hana. Hún var elst fimm systra og var sjálf orðin 17 ára þegar sú yngsta þeirra fæddist. Milli yngstu systurinnar og elsta barnsins hennar voru aðeins 6 ár og sami árafjöldi var á milli yngsta barnsins hennar og elsta barnabarnsins. Þá hafa ömmubörn og langömmubörn verið að bætast í hópinn hennar sitt á hvað síðustu 15 árin.

Á þeim árum sem amma var að ala börnin sín fimm upp og koma til manns hafði hún úr litlu að spila og bjó við mikil þrengsli. Sjálf vann hún ekki utan heimilisins heldur annaðist uppeldi barna sinna og sinnti heimilishaldinu. Það var ömmu alla tíð mikið kappsmál að veita öllum vel og enginn mátti fara svangur út eftir að hafa staldrað við hjá henni. Var það nánast skilyrði fyrir gesti að þiggja hjá henni eitthvað í gogginn. Þegar ég sem krakki var í mat hjá ömmu upplifði ég alltaf að það væri nóg pláss fyrir alla við litla eldhúsborðið hennar. Ég man hins vegar aldrei eftir því að amma hafi á þeim tíma sest sjálf við eldhúsborðið heldur stóð hún og rétti okkur sem við borðið sátum.

Amma hafði gaman af því að gefa okkur barnabörnunum hluti sem veittu okkur ánægju. Allar gjafir frá henni voru annaðhvort eitthvað skemmtilegt eða fallegt, nema hvort tveggja væri. Hún átti líka alltaf eitthvað sem var spennandi að skoða og margur krakkinn hefur prílað upp á gömlu tröppuna við eldhúsborðið, haft hana sem sæti og um leið náð í dótaskúffuna. Þó að amma ætti skemmtileg leikföng og spennandi hluti fyrir krakka að leika með þá gætti hún þess alltaf að leikurinn færi ekki úr böndunum og hafði lag á að stoppa okkur af þegar henni fannst nóg komið.

Amma var vel lesin, las mikið og hafði mikið dálæti á ljóðum. Hún fylgdist vel með öllu sem var að gerast í þjóðfélaginu og hafði skoðanir á mönnum og málefnum fram til hinstu stundar. Hún horfði mikið á sjónvarp og fylgdist með öllu mögulegu sjónvarpsefni. Til hennar komu krakkarnir til að fá að horfa á skemmtiþætti á Stöð 2 og mörgum fannst gaman að horfa á enska boltann með henni sem hún hafði sérstaka ánægju af að fylgjast með.

Heimili ömmu í Stigahlíðinni varð í seinni tíð hálfgerð miðstöð fyrir fjölskylduna og það held ég að henni hafi líkað vel. Þar hittust oft börn hennar, tengdabörn, barnabörn og langömmubörn, svo og systur hennar og mágar. Amma fór í raun sjálf ekki mikið út fyrir heimilið, sérstaklega í seinni tíð þegar hún átti erfitt með að ganga upp og niður stigana að íbúðinni. Það kom samt aldrei til greina að flytjast í annað húsnæði og á heimili fyrir aldraða vildi hún alls ekki fara. Þá vildi amma aldrei taka þátt í félagsstarfi fyrir aldraða, því það var bara fyrir gamla fólkið og hún var sko ekki ein af þeim.

Að lokum þakka ég fyrir samfylgdina sem ég átti með ömmu og kveð hana með versi Valdimars Briem:

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Stefanía G. Sæmundsdóttir.

Með söknuði kveðjum við kæra móðursystur okkar, hana Tótu frænku. Hún var elst þeirra systranna fimm, sem hafa haldið nánu og kærleiksríku sambandi alla tíð. Þær bera með sér andblæ Garðars afa og Jónu ömmu úr norðlenskum dölum og Akureyri í upphafi 20. aldar. Við erum lánsamir að hafa tilheyrt kynslóð sem ólst upp í skjóli þeirra systra þar sem mikill samgangur var milli okkar barna þeirra og margar góðar minningar eru frá heimsóknum og samkomum, þar sem oft var kátt á hjalla. Þannig dvöldum við bræðurnir iðulega hjá Tótu og Helga á Langholtsveginum og nutum samvista við fjölskyldu þeirra.

Þá eru sólríkar og hlýjar minningarnar frá sumardvöl í Hlíðardalsskóla þar sem við bræðurnir dvöldum í góðu atlæti í skjóli stóru systur móður okkar.

Það var mikið hlegið þegar þær komu saman systurnar fimm. Þær þurftu ekki að horfast lengi í augu áður en kitlandi og smitandi hláturinn var farinn að hljóma og spanaði upp kátínu og góða stemningu í umhverfi þeirra. Með fjölgun afkomenda og þegar börn og barnabörn uxu úr grasi komum við saman á ættarmótum, meðal annars í bústaðnum í Lundarreykjadal hjá Garðari, elsta syni Tótu. Nú síðari árin hafa verið haldin jólaböll stórfjölskyldunnar þar sem gagnkvæm umhyggja þeirra systranna hefur umvafið sístækkandi hópinn.

Tóta frænka var ákveðin kona sem gott var að heimsækja í Stigahlíðina, tala við og leita álits hjá. Hún var hreinskiptin og hollráð og áhugasöm á mörgum sviðum. Til dæmis hafði hún einlægan áhuga á íþróttum. Hún þekkti nöfn og kosti og galla á leikmönnum í fótbolta og handbolta sem hún fylgdist með í sjónvarpinu komin hátt á níræðisaldur.

Við erum þakklátir fyrir að hafa átt hana Tótu frænku okkar. Garðari, Kristínu Jónu, Önnu Þórunni, Helga Þór, Hönnu Ragnheiði og fjölskyldum þeirra sendum við samúðarkveðjur um leið og við biðjum blessunar minningu okkar góðu móðursystur.

Sigurjón og Garðar Mýrdal.