Á góðum stað Skógarþröstur leitar fanga ofan af þakskeggi einu í Árbæ.
Á góðum stað Skógarþröstur leitar fanga ofan af þakskeggi einu í Árbæ. — Árvakur/Ómar
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is MUN minna hefur verið af snjótittlingum í borginni í kringum snjóakaflann undanfarna viku en gjarnan er í svipaðri tíð að mati Kristins Hauks Skarphéðinssonar, fuglafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur

elva@mbl.is

MUN minna hefur verið af snjótittlingum í borginni í kringum snjóakaflann undanfarna viku en gjarnan er í svipaðri tíð að mati Kristins Hauks Skarphéðinssonar, fuglafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Lesandi sem hafði samband við Morgunblaðið benti á að svo virtist sem mun færri gæfu fuglunum æti en áður hefði verið, en Kristinn segist ekki geta sagt til um hvort sú sé raunin.

Hann segir að smáfuglarnir sæki í staði þar sem þeir viti að þeir fái að éta. „Undanfarna vetur hefur verið svo lítið um snjó að fólk er kannski orðið óvant því að fóðra fuglana,“ segir Kristinn.

Alls sjást um sex til sjö tegundir smáfugla í byggð ár hvert, þar á meðal skógarþrestir og auðnutittlingar. Sumar tegundirnar vilja helst korn en aðrar má fóðra á eplum og berjum. Fuglarnir eru hér tugþúsundum saman yfir veturinn og eru sumar tegundirnar farfuglar en aðrar staðfuglar. Það eru þó fyrst og fremst snjótittlingar sem verða áberandi þegar snjóar, en þeir koma í bæina þegar jarðbönn verða. Árvissar fuglatalningar sýni að miklar sveiflur séu í fjölda snjótittlinga í þéttbýli eftir því hvernig snjóalög séu.

Kristinn segir að í seinni tíð sé orðið auðveldara fyrir fuglana að þreyja þorrann og góuna. Ástæðan sé að ýmiss konar ræktun, svo sem kornrækt, hafi aukist mikið.

Skemmtilegur siður

Kristinn Haukur segir það skemmtilegan sið að gefa smáfuglunum. „Það er gaman að heyra þennan fallega klið [fuglanna],“ segir Kristinn Haukur, en bendir á að standi menn í að fóðra fuglana verði þeir að gera það reglulega. „Það er ekki gott að draga fuglana til sín og hætta svo fóðringum,“ segir hann. Sú hefð að gefa fuglunum hafi sennilega tíðkast hér á landi frá upphafi. Í sveitunum fyrr á tímum hafi fólk gjarnan hent út moði, sem er afgangshey, handa smáfuglunum.

Um þessar mundir eru hrafnar í bænum í tuga- eða hundraðatali að sögn Kristins. Hann segir það hafa færst í vöxt að hrafninum sé gefið að éta, en hann sé ekki matvönd skepna. „Lengi vel var bara einn maður sem ég vissi um að gaf hröfnum hér í bænum, en það var Þorsteinn Einarsson heitinn, íþróttafulltrúi. Hann bjó í Laugarásnum og laðaði til sín hrafna en nú er töluvert algengt að fólk gauki einhverju að hröfnunum.“