Heilsustofnun Vel heitt leirbað nær örugglega kuldanum úr hinum freðnasta bónda.
Heilsustofnun Vel heitt leirbað nær örugglega kuldanum úr hinum freðnasta bónda.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú er frost á Fróni og því aldrei meiri þörf á funa í samböndum og hjónaböndum þessa lands. Því er um að gera að vera blíð við bóndann í dag, enda hans dagur samkvæmt almanakinu. Það er þó fleira en magáll og harðfiskur sem getur þítt hjörtu á þorra.

Nú er frost á Fróni og því aldrei meiri þörf á funa í samböndum og hjónaböndum þessa lands. Því er um að gera að vera blíð við bóndann í dag, enda hans dagur samkvæmt almanakinu. Það er þó fleira en magáll og harðfiskur sem getur þítt hjörtu á þorra. Af hverju ekki að slá deginum og kvöldinu upp í rómantíska samverustund sem bæði fá notið? Í því er engin eigingirni fólgin því það er miklu meira gaman að daðri og dekri þegar parið er saman.

Í stað hefðbundinna gjafa og blómasendinga er því hér stungið upp á sjóðheitri samveru í flottari kantinum. Til dæmis má panta kínverskt fótanudd fyrir tvo sem notið er meðan sötrað er kampavín áður en stigið er saman í heitan pott.

Leikhúsferð að undangenginni léttri máltíð á veitingastað er líka góð hugmynd eða þá að gert sé meira úr máltíðinni sjálfri og kvöldinu eytt á góðu steikhúsi, sem fáir bændur fúlsa við.

Ef dýrindis máltíð heima við heillar meira og spúsan vill dekra extra mikið við kallinn getur hún laumað sér út í búð og keypt eina sneið af japanska nautakjötinu víðfræga sem kostar jú sitt. Þá þarf viljinn raunar að vera talsverður því tvö hundruð gramma steik kostar rúmlega 3.000 krónur. Einhverja slíka lúxusmáltíð má matreiða heima og bera fram með kertaljósi og rauðvíni og jafnvel á fína blúndunáttkjólnum einum fata. Flott bóndagjöf það!

Helgarferð til Hveragerðis

En dekur getur verið á fleiri sviðum. Sé eiginmaðurinn mikið fyrir aflraunir má bjóða honum á Esjuna og taka svo upp heimagerðar lúxussamlokur og kakó – jafnvel örlítið hjartastyrkt – þegar á toppinn er komið. Heitu pottarnir í sundlaugunum ættu svo að taka mestu strengina úr göngugörpunum að púlinu loknu.

Talandi um laugar – Bláa lónið er líka ágætis vettvangur rómantískra samverustunda þar sem hægt er að fá dekur í paravís, skella sér í hvítt og seiðandi vatnið og njóta léttra veitinga á eftir á náttsloppnum einum fata, eða panta borð á veitingastaðnum sem þar er.

Þeir sem vilja gera enn meira úr afslöppuninni geta skellt sér í helgarferð til Hveragerðis. Hvar er meira viðeigandi að gista við þetta tækifæri en á Frosti og funa, notalegu og listrænu gistiheimili sem þar er að finna? Þaðan má skjótast á Stokkseyri og gæða sér á dýrindis humri á veitingastaðnum Við fjöruborðið að undangengnu góðu dekri á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands. Þar má meðal annars fá nudd, nálastungur og leirböð auk fullkominnar baðaðstöðu.

Eins og sjá má þekkir rómantíkin engin takmörk. Það er bara að láta ímyndunaraflið – og hjartað – ráða för.