Varist í Þrándheimi Landsliðsmennirnir Alexander Petersson og Snorri Steinn Guðjónsson standa vaktina gegn Spánverjum.
Varist í Þrándheimi Landsliðsmennirnir Alexander Petersson og Snorri Steinn Guðjónsson standa vaktina gegn Spánverjum. — Árvakur/Golli
ALFREÐ Gíslason er hættur sem þjálfari íslenska landsliðsins í handknattleik. Þetta tilkynnti hann skömmu eftir ósigur Íslendinga gegn Spánverjum í lokaumferð í milliriðli á Evrópumótinu í Spektrum-höllinni í Þrándheimi í gær.

ALFREÐ Gíslason er hættur sem þjálfari íslenska landsliðsins í handknattleik. Þetta tilkynnti hann skömmu eftir ósigur Íslendinga gegn Spánverjum í lokaumferð í milliriðli á Evrópumótinu í Spektrum-höllinni í Þrándheimi í gær. Alfreð segist hafa verið búinn að taka ákvörðun um að hætta áður en flautað var til leiks á Evrópumótinu.

Eftir Guðmund Hilmarsson í Þrándheimi

„Fjölskyldan og mikið álag sem þjálfari Gummersbach er aðalástæðan fyrir því að ég hef tekið þá ákvörðun að hætta sem landsliðsþjálfari, sagði Alfreð en hann tók við þjálfarastarfinu af Viggó Sigurðssyni á vormánuðum 2006.

,,Það var virkilega gaman að fá að taka þátt í þessu starfi. Ég tel mig hafa reynt að gera mitt besta í starfinu þó svo að það hafi kannski ekki sést í þessari keppni en þetta hefur verið frábær tími og ég er stoltur af að hafa fengið tækifæri til að vera þjálfari landsliðsins.

Hvenær tókst þú þessa ákvörðun?

,,Ef ég segi alveg satt og rétt frá þá sagði ég Einari Þorvarðarsyni frá þessu fyrir keppnina að þó að við myndum standa uppi sem sigurvegari ætlaði ég að hætta. Þetta er búin að vera endalaus vinna hjá mér allan þennan tíma og ég get ekki gert sjálfum mér og fjölskyldunni að halda svona áfram. Mér finnst vera unnið frábært starf hjá HSÍ sem hefur í raun ekki úr miklu að moða og ég vona svo sannarlega að ég hafi látið eitthvað gott af mér leiða fyrir íslenskan handbolta,“ sagði Alfreð.

Spurður hvort hann hefði skoðun á því hver ætti að verða eftirmaður hans, sagði Alfreð: ,,Ég held að ég sé ekki rétti maðurinn til að stimpla það inn hjá íslensku þjóðinni hver eigi að taka við. Það er annarra að ákveða það. Við eigum nokkra unga mjög hæfra þjálfara og ég nefni menn eins og Dag Sigurðsson, Aron Kristjánsson, Geir Sveinsson og Júlíus Jónasson en ein af ástæðunum fyrir því að ég ákvað að halda áfram og stýra liðinu á Evrópumótinu var þegar ég sá riðilinn sem við drógumst í. Ég sagði; ,,Árans, ég get ekki gert þeim sem tekur við af mér að byrja á þessu því það gæti orðið dauðadómur. “

Alþjóðlegur þjálfari

Guðmundur Ágúst Ingvarsson, formaður Handknattleikssambands Íslands, segir að leitin að eftirmanni Alfreðs hefjist næstu daga. „Alþjóðlegan,“ svaraði Guðmundur er hann var spurður hvort stefnan væri að fá íslenskan þjálfara umfram útlendan.

„Við munum gefa okkur tíma til þess að fara yfir sviðið,“ sagði Guðmundur ennfremur.

Næsta verkefni íslenska landsliðsins verður um páskana en þá koma Norðmenn til Íslands til tveggja vináttuleikja. „Þá verður örugglega kominn nýr þjálfari við stjórnvölinn,“ sagði Guðmundur Ágúst.