Hið íslenska Biblíufélag er elsta félag landsins, en það vinnur að margvíslegum verkefnum í tengslum við útgáfu og dreifingu Biblíunnar hér á landi sem erlendis.

Eftir Hildi Eddu Einarsdóttur

hilduredda@24stundir.is

Haldið verður upp á Biblíudaginn í kirkjum landsins sunnudaginn 27. janúar en hann er haldinn sjö vikum fyrir páska á ári hverju. Útvarpsguðsþjónusta verður í Hallgrímskirkju þar sem séra Jón Dalbú Hróbjartsson þjónar fyrir altari og Karl Sigurbjörnsson, biskup og forseti Hins íslenska Biblíufélags, prédikar. Hlutverk og staða Biblíunnar hefur verið mikið í umræðunni hér á landi frá því að hún var gefin út í nýrri þýðingu í október á síðasta ári, en það var Hið íslenska Biblíufélag sem hafði veg og vanda af útgáfunni í samstarfi við JPV útgáfu. HÍB er elsta starfandi félag landsins að sögn framkvæmdastjóra þess, Jóns Pálssonar. „Félagið var stofnað árið 1815 af Skota að nafni Ebenezer Henderson og hefur frá upphafi tengst alþjóðasamtökum biblíufélaga. Hvatinn að stofnun slíkra félaga var sá að ekki voru til Biblíur fyrir almenning á þeim tíma heldur voru þær nær eingöngu í eigu kirknanna. Áhersla lútherskunnar hefur ávallt verið sú að allir hefðu aðgang að Biblíunni á sínu eigin tungumáli. Biblíufélögin hafa unnið að þessu markmiði frá stofnun og jafnframt að því að hún sé á því verði sem fólk ráði við að greiða. Á 19. öld voru Íslendingar mjög fátækir og því styrkti Breska og erlenda biblíufélagið svokallaða útgáfu og dreifingu Biblíunnar á íslensku hér á landi,“ segir hann og bendir á að fyrsta íslenska Biblían, Guðbrandsbiblía, sem kom út árið 1584, kom einungis út í 500 eintökum. Þegar Biblíufélagið var stofnað voru ekki margar Biblíur til í landinu og hún ekki í almenningseign eins og í dag. „Nú hins vegar, þegar þjóðin er orðin ríkari stöndum við að sjálfsögðu sjálf undir kostnaðinum við útgáfu Biblíunnar ásamt því sem við styrkjum útgáfu hennar í öðrum löndum. Í Konsó-héraði í Suður-Eþíópíu, þar sem íslenskir kristniboðar komu fyrst fyrir 50 árum, er til dæmis verið að vinna að þýðingu Gamla testamentisins og eru fjórir menn í fullu starfi við það, allt á kostnað Hins íslenska Biblíufélags, en félagið efnir reglulega til söfnunar fyrir þessu verkefni meðal félagsmanna sinna og stuðningsaðila sem eru um 3700 talsins. Nýja testamentið hefur þegar verið gefið út þar en áður en ráðist var í þýðinguna þurfti fyrst að búa til ritmál því það var ekki til og voru sérfræðingar fengnir til að búa til konsóískt ritmál. Nú þegar þeir eru komnir með ritmál er fólk svo farið að yrkja og semja ýmiss konar efni. Þessi útgáfa hefur þannig markað stór tímamót hjá fólkinu í Konsó. Svo núna erum við að safna fyrir næsta verkefni okkar, sem felst í því að dreifa Biblíum og biblíuritum til afskekktari svæða Indlands. Ég lít svo á að með þessu séum við að endurgjalda þann mikla greiða sem okkur Íslendingum var gerður á 19. öld þegar við þurftum sjálf á aðstoð að halda vegna fátæktar.“

Umdeild Biblía – ekki nýtt

Nýjasta Biblíuþýðingin vakti blendin viðbrögð hér á landi og ekki voru allir sáttir við breytingar sem gerðar höfðu verið á orðalagi frá síðustu þýðingu, sem kom út árið 1908. Jón segir gagnrýnina ekki hafa komið á óvart. „Það er eðlilegt að fólk sé á varðbergi gagnvart breytingum á texta sem er því heilagur. En þrátt fyrir að orðalagið hafi verið fært meira til nútímans er boðskapurinn og innihaldið alveg óbreytt frá frumtextanum. Reyndar voru viðbrögðin við þýðingunni árið 1908 mun harkalegri og var sú Biblía gjarnan kölluð heiðna Biblían og ófáir neituðu að notast við hana. Nú, hundrað árum síðar, er sú Biblía hins vegar orðin heilög í hugum sumra þannig að tímarnir breytast og mennirnir með,“ segir hann að lokum.
Í hnotskurn
Heldur meðal annars úti vefsíðunni biblian.is þar sem hægt er að finna ýmiss konar fróðleik um Biblíuna. Jón er framkvæmdastjóri félagsins en formaður þess er biskup Íslands og auk hans sitja átta aðrir í stjórninni. Það eru Arnfríður Einarsdóttir, Guðni Einarsson, Gunnlaugur A. Jónsson, Ólafur Egilsson, Sigrún Valgerður Ásgeirsdóttir, Sigurður Pálsson, Valgeir Ástráðsson og Þórhildur Ólafs.