Guðrún Jónsdóttir fæddist í Brekku í Aðaldal 26. apríl 1923. Hún lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 16. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Margrét Sigurtryggvadóttir frá Litluvöllum í Bárðardal, f. 5. mars 1890, d. 1. sept. 1968, og Jón Bergvinsson frá Brekku í Aðaldal, f. 23. jan. 1886, d. 19. maí 1958. Systkini Guðrúnar eru: Bergvin, f. 1. ág. 1918, d. 18. júní 1963, Ingvi Karl, f. 16. mars 1920, d. 2. maí 1998, Elín Rannveig, f. 15. maí 1921, Tryggvi, f. 10. mars 1924, d. 2. mars 2004, Hörður Bragi, f. 24. maí 1926, d. 30. júní 2006, Þórður, f. 9. sept. 1927, d. 14. okt. 2004, Áslaug Nanna, f. 22. maí 1929, d. 25. des. 1950, og Kristín f. 22. júlí 1932.

Guðrún giftist 2. júní 1946 Ingva Júlíussyni, f. 6. okt. 1923, d. 9. júlí 1995. Foreldrar hans voru Herdís Þorbergsdóttir frá Litlu-Laugum í Reykjadal, f. 16. nóv. 1891, d. 14. des. 1965, og Júlíus Jóhannesson frá Sigluvík á Svalbarðsströnd, f. 9. júlí 1893, d. 25. júlí 1969. Börn Guðrúnar og Ingva eru: 1) María Elínborg, f. 27. sept 1946, giftist Jónasi G.V. Þórarinssyni, f. 26. febr. 1944, d. 13. mars 1974. Börn þeirra a) Guðrún, f. 21. febr. 1967, og b) Ingvi, f. 14. maí 1973, sambýliskona Sigurrós Hallgrímsdóttir, f. 24. sept. 1976, synir þeirra Jónas Nói, f. 3. jan. 2006, Högni Hallgrímur, f. 11. ágúst 2007, sonur Sigurrósar og fóstursonur Ingva, Nökkvi Reyr, f. 24. jan. 1998. 2) Herdís, f. 12. nóv. 1948, börn hennar eru a) Aðalheiður Björk Matthíasdóttir, f. 24. apríl 1967, gift Jóni Inga Björnssyni, f. 26. mars 1965, synir hennar eru Kristófer Ólafsson, f. 2. okt. 1987, unnusta hans er Hertha Rós Sigursveinsdóttir, f. 19. nóv. 1987, og Dagur Ingi Jónsson, f. 8. jan. 1999, b) Jónas Þór Unnarsson, f. 17. sept. 1975, sonur hans er Jósep Heiðar, f. 2. maí 2003. 3) Jón Grétar, f. 9. jan. 1950, kvæntur Aðalbjörgu Hjördísi Arnardóttur, f. 5. sept. 1950. Börn þeirra a) Örn Ingvi, f. 21. okt. 1968, kvæntur Aldísi Ingimarsdóttur, f. 11. febr. 1969, þeirra börn Júlía, f. 27. júlí 1993, Snædís, f. 29. des. 1996, og Rúnar Örn, f. 11. nóv. 2007, b) Guðrún, f. 12. des. 1970, gift Sævari Guðjónssyni, f. 1. febr. 1972, þeirra börn eru Atli Ívar, f. 10. júlí 2000, og Brynja, f. 8. nóv. 2001, c) Sandra Huld, f. 15. okt. 1979, gift Ólafi Arnari Gunnarssyni, f. 22. júlí 1974, d) Harpa Lind, f. 4. mars 1987. 4) Bjarni Rafn, f. 10. maí 1953, kvæntur Rósu Þuríði Þorsteinsdóttur, f. 24. okt. 1954. Börn hans eru a) Guðrún Karítas, f. 15. júní 1971, gift Halldóri Sveini Kristinssyni, f. 27. jan. 1971, þeirra börn Egill Fannar, f. 12. mars 1993, Herdís Rún, f. 5. ágúst 1995, og Kári Steinn, f. 30. júní 2005, b) Brynjar Þór, f. 18. okt. 1975, sambýliskona Tinna Harðardóttir, f. 16. ág. 1981, c) Vilhjálmur Þór, f. 12. júlí 1976, sambýliskona Berglind Bergþórsdóttir, f. 30. júní 1976, dætur þeirra eru Rakel Ösp, f. 13. júní 2001, og Brynja María, f. 18. okt. 2003, d) Selma Björg, f. 9. des. 1977, gift Atla Þór Samúelssyni, f. 7. júní 1976, þeirra börn Ingvi Már, f. 26. apríl 1998, og Elena Rós, f. 23. febr. 2002, e) Jakob Bergvin, f. 19. des. 1986. 5) Áslaug Nanna, f. 26. ágúst 1960, börn hennar eru Sigurður Oddsson, f. 21. febr. 1985, Rúna Oddsdóttir, f. 15. maí 1996, og Maren Oddsdóttir, f. 18. ágúst 1999. 6. Ingvi Júlíus, f. 9. okt. 1962, kvæntur Unni Björnsdóttur, f. 10. júlí 1963, þeirra börn eru Birkir Snær, f. 14. febr. 1990, og Petra Rut, f. 3. nóv. 1993.

Guðrún verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Móðir mín fæddist árið 1923 og ólst upp í Brekku í Aðaldal, á stóru heimili, þar sem fæddust níu börn á fjórtán árum. Faðir hennar byggði steinhús þegar hún var enn barn að aldri, það þótti stórt og myndarlegt, þó að síðar hafi það reynst of lítið fyrir litla fjölskyldu. Hún ólst upp við að það að vinna var hluti af lífinu, lífsbaráttan var hörð og ekkert mátti út af bregða, ef skorturinn átti ekki að ná tökum á lífinu. Afi minn var góður verkmaður, þúfnakollar fuku og tún stækkuðu í takt við stækkun fjölskyldunnar. Á þeim tíma voru farskólar algengir í sveitum og ekki munaði ömmu mína um að taka að sér nokkur börn til viðbótar, þegar þannig stóð á. Nægjusemi og kúnstin að kunna að þakka og gleðjast var gott veganesti og vó þungt í sjóði minninganna. Silkiefni í kjól sem afi keypti í Kaupfélaginu út á Húsavík og gaf mömmu var einn af stóru viðburðunum á unglingsárunum sem yljaði um hjartarætur og kallaði fram bros, allt fram á efri ár.

Leið mömmu lá í Húsmæðraskólann að Laugum, eins og svo margra annarra stúlkna á þeim árum. Að vinna hráefnið, matreiða, sauma, vefa og bródera bjó ekki aðeins ungar konur undir hlutverk húsmóðurinnar og rekstrarstjóra heimilisins, heldur byggði einnig upp metnað og stolt til að standa myndarlega að öllu sem gert var. Einnig hlýtur að hafa farið fram ströng kennsla í tímastjórnun þó að það orð hafi ekki verið til á þeim tíma.

Mamma hitti piltinn sinn, þau bjuggu sér hreiður og börnin urðu sex. Þegar ég lít til baka á ég erfitt með að átta mig á hvernig móðir mín komst yfir að gera allt sem gert var á okkar heimili. Fyrir utan allt venjulegt heimilishald á gestkvæmu heimili, margrétta máltíðir og bakkelsi saumaði hún öll föt á okkur og í þá daga voru til skólaföt, sunnudagaföt og auðvitað jólaföt. Pífur, leggingar og útsaumur urðu auðvitað að prýða kjólana og kápur og hattar voru með fínum borðum, litlum dömum leið eins og prinsessum. Dúkkurnar fengu eins og sváfu auðvitað í blúndurúmfötum. Matrósaföt og jakkaföt gerðu bræður mína að litlum herramönnum, sérstaklega hvítu skyrturnar með leggingum og pífum að hætti aðalsmanna. Það þótti sjálfsagt að fara í heimsóknir eða í bíltúr á sunnudögum og þá auðvitað með nesti, sest var í grænan bala eða áð við lygnan læk og sólin skein, ég held að í æsku minni hafi alltaf verið sól á sunnudögum. Foreldrar mínir nutu þess að ferðast, því var gjarnan farið fram í fjörð, eða austur yfir heiði, þar sem rætur þeirra beggja lágu, öll bæjarnöfn kunnug, ábúendur oft á tíðum ættmenni og sveitirnar þær fallegustu á landinu. Landróverinn fór margar ferðir um landið og inn á hálendið, þá var vegslóði nokkuð góður kostur, en stundum var hyggjuvitið eini vegvísirinn, hvert fjall gamall kunningi og hvert fljót silfurþráður tilverunnar. Síðar bættust við ferðir til útlanda og átti það vel við foreldra mína að stytta skammdegið með dvöl í heitari löndum.

Eftir að pabbi lést slokknaði smátt og smátt á mömmu, hugur hennar varð fjarlægur, kannski dvaldi hún í sínum heimi þar sem hún baðaði sig í ljósinu og tónlistin ómaði.

Þegar ég lít til baka er margt að þakka en það sem efst er í huga er ástin og umhyggjan sem við bjuggum við, öryggistilfinningin sem umvafði mig, ekki bara á æskuárunum heldur einnig síðar, þegar ég sem fullorðin kona kom heim í Ránargötuna, gisti í gamla herberginu mínu og hjartað mitt fylltist af gleði og þessari yndislegu öryggistilfinningu sem fylgir því að koma heim.

Móðir mín var mín sterkasta fyrirmynd, mynd hennar er greypt í huga mér.

Megi hún hvíla í Guðs friði.

María.

Í dag kveðjum við móður mína Guðrúnu Jónsdóttur frá Brekku í Aðaldal. Hún hefur þó verið að kveðja okkur mörg undanfarin ár, hverfa smám saman inn í sinn eigin heim, sem við hin höfðum að lokum engan aðgang að.

Þegar við tvö yngstu systkinin komum til sögu voru foreldrar okkar komin undir fertugt og nutum við því í bernsku annars aldursskeiðs með þeim en þau eldri. Þau voru efalaust orðin afslappaðri í uppeldinu og hlúðu að okkur eins og blómum í eggjum. Það var ferðast um landið þvert og endilangt og gjarnan farið upp á hálendið sem í þá daga var ekki eins fjölfarið og nú til dags. Ekki var hún mamma alltaf jafn hrifin af þessum svaðilförum, að henni fannst, og ríghélt sér í mælaborðið og setti hljóða þegar farið var yfir ár eða fáfarna götuslóða utan í bröttum hlíðum, stundum fór hún bara út og labbaði. En landinu unni hún og þá ekki síst Þingeyjarsýslunni sinni, þar sem hún þekkti hvern bæ og kennileiti.

Það voru ekki lætin í henni mömmu, hún fór hljótt og rólega um, og raulaði gjarnan við vinnu sína. Varla að hún hækkaði nokkru sinni róminn þó að oft væri mannmargt og barnafjöldi í Ránargötunni. Það sást á svipnum og augnaráðinu hvort henni mislíkaði eitthvað og var það nóg til að viðkomandi vissi hvað klukkan sló. Hún hlustaði líka meira en hún talaði, það voru ófáir sem léttu á hjarta sínu við eldhúsgluggann hjá henni, jafnt nágrannakonur, sem við börnin, tengdabörn og síðan barnabörn.

En það var ekki eins og hún sæti iðjulaus þarna í eldhúsinu, hún var alltaf að. Endalaust að baka, eða undirbúa eitthvað matarkyns og var þekkt fyrir snilli sína í eldhúsinu. Ekki er lengra síðan en í vetur er ég eins og dæmigerð nútímakona kom heim með kleinupoka að sonur minn segir þetta vera óvenjugóðar kleinur, bara næstum eins og amma gerði, gott er minni bragðskynsins.

Ekki má minnast hennar mömmu öðruvísi en að nefna allar hannyrðirnar. Sem barn sofnaði ég oftar en ekki við eitthvert vinnuhljóð frá henni. Það var ýmist sauma- eða prjónavélin, prjónarnir eða einhver útsaumur. Yfir bjartasta tíma ársins var hún oft búin að sitja tímum saman við gluggann, þegar aðrir komu á fætur, við einhvern vandasaman útsaum, til að nota næðið og bestu birtuna.

Þó að ég hafi því miður ekki verið góður lærlingur í þessum sérgreinum hennar, hafði varla soðið egg, hvað þá prjónað sokk þegar ég fór að heiman, hefur smám saman komið í ljós að ýmislegt síaðist inn þegar maður á unglingsárum sat hjá henni og malaði og malaði meðan hún vann. Með aldrinum verða líka hefðirnar einhvern veginn mikilvægari og maður vill geta miðlað því til barnanna sinna sem maður sjálfur ólst upp við. Oft hefur mig því vantað mömmu undanfarin ár og sakna þess að hafa ekki fengið að njóta hennar í fullu fjöri lengur.

En efalaust er hún hvíldinni fegin því eins og dóttir mín sagði, það er gott að amma getur nú gengið aftur, en þær eiga ekki minningar um hana á fótum, en sjá hana nú fyrir sér heilbrigða og hressa hjá afa.

Hvíl í friði, elsku mamma.

Nanna.

Ég man kleinur og ástarpunga, lyktina og allt.

Ég man ást og öryggi, vináttu og hlátur, ís og blandaða ávexti.

Ég man hlýjar hendur strjúka tárin af vöngum mínum, huggunar- og hvatningarorð hvísluð í eyru mín.

Ég man þú kallaðir mig Gunnsu litlu, líka þegar ég var orðin stór.

Ég man æsku fulla af faðmlögum.

Ég man bestu ömmu í heimi.

Ég man þig elsku amma.

Þín

Guðrún.

Amma mín, Guðrún Jónsdóttir, hefur kvatt þennan heim.

Hugurinn reikar aftur til þess tíma þegar ég var lítil stelpa og kom í heimsókn til ömmu og afa í Ránó. Þar var sko tekið vel á móti manni. Afi var alltaf til í gott sprell og amma var ekki í rónni fyrr en maður var búinn að torga alls konar bakkelsi sem ævinlega var til nóg af. Það var fastur liður á aðventunni að mæta í Ránargötuna í laufabrauðsgerð, en á því sviði voru amma og afi engir aukvisar. Á jóladag safnaðist stórfjölskyldan síðan saman heima hjá þeim og þá var borðað, spilað og hlegið fram á nótt. Þetta voru góðir tímar.

Amma og afi voru einstaklega samrýnd hjón og það fór ekki á milli mála að þau báru mikla virðingu hvort fyrir öðru. Það var því mikið áfall fyrir ömmu að missa afa skyndilega fyrir rúmum 12 árum, einmitt þegar þau ætluðu að fara að sinna hugðarefnunum betur, nú þegar starfsævi þeirra beggja var lokið. En því var ekki ætlað að verða og eftir sat amma og syrgði mjög. Síðustu ár voru ömmu minni erfið, en vel var hugsað um hana af starfsfólkinu á Hlíð og ekki síst af föðursystur minni, Herdísi, sem reyndist móður sinni ómetanleg stoð þessi síðustu ár.

Ég kveð ömmu með þakklæti fyrir margar góðar stundir og geymi vel minninguna um hlýja og góða konu.

Guðrún Karítas Bjarnadóttir.