Sigur Rós Fimmta hljóðversskífan er væntanleg með sumrinu.
Sigur Rós Fimmta hljóðversskífan er væntanleg með sumrinu. — Morgunblaðið/Eggert
FJÓRMENNINGARNIR í Sigur Rós halda nú á sunnudag vestur til New York-borgar þar sem þeir munu hefja upptökur á næstu breiðskífu sveitarinnar.

FJÓRMENNINGARNIR í Sigur Rós halda nú á sunnudag vestur til New York-borgar þar sem þeir munu hefja upptökur á næstu breiðskífu sveitarinnar. Með í för verður upptökustjórinn Flood sem kom hingað til lands stuttu fyrir jól og vann með Sigur Rós í hljóðveri hljómsveitarinnar Slowblow í gamla Ellingsen-húsinu við Grandagarð. Sú heimsókn var einskonar tilraunar-vinnuferð til að sjá hvort sveitin næði tengslum við upptökustjórann sem áður hefur komið að upptökum með sveitum á borð við Nine Inch Nails, U2 og Depeche Mode.

Að sögn Orra Páls Dýrasonar, trommuleikara Sigur Rósar, tókst sú vinnuferð mjög vel og í framhaldi var ákveðið að taka upp frekara samstarf.

Vinsælt hljóðver

Í New York mun sveitin taka upp í afar virtu hljóðveri á Manhattan-eyju sem kallast Sear Studios. Hljóðverið er í göngufjarlægð frá Central Park-almenningsgarðinum og ef viðskiptavinalisti hljóðversins er skoðaður má meðal annars sjá að þar hefur Björk Guðmundsdóttir stigið inn fæti. Aðrir þekktir tónlistarmenn sem unnið hafa í Sear Studios eru: David Bowie, The Breeders, Eric Clapton, Dinosaur, Jr. Bob Dylan, Fun Loving Criminals, Helmet, Norah Jones, Sean Lennon, Lenny Kravitz, Paul McCartney, Thelonius Monk, Jr., Yoko Ono, Screaming Trees, Patti Smith, Sonic Youth, The Strokes, System of a Down, Wilco og Suzanne Vega, svo fáeinir séu nefndir.

Að sögn Orra stefnir sveitin á að gefa plötuna út næsta sumar en platan yrði fimmta hljóðversskífa Sigur Rósar.