Eftir Albert Örn Eyþórsson albert@24stundir.

Eftir Albert Örn Eyþórsson

albert@24stundir.is

Deila má um hvort það séu góðar fréttir eða slæmar fyrir áhugamenn um golfíþróttina að Tiger Woods, sá sami og vinnur flest þau mót sem hann tekur þátt í, hefur lýst yfir að yfirstandandi ár verði sitt besta. Guð hjálpi nú andstæðingum hans.

Metnaður á metnað ofan

Yfirlýsing Woods er sérstök fyrir þá sök að hann hefur aldrei áður opinberlega sett sér takmörk þó vafalaust hann hafi gert það með sjálfum sér. Aðspurður um möguleika sína á að vinna Stórslummuna, Grand Slam, sem stendur fyrir fjögur stærstu golfmót á PGA-mótaröðinni og þar með í heiminum, sagði Woods vel hugsanlegt að hann næði þeim áfanga á árinu. Það er einfaldlega ekki hægt annað en taka hann trúanlegan enda hefur enginn kylfingur annar komist með tærnar þar sem Woods hefur haft hælana síðastliðin ár.

Stífar æfingar

Lítið hefur farið fyrir Woods um nokkurra mánaða skeið en miðað við yfirlýsingagleði hans var kannski ástæða fyrir því. Þjálfarar hans tala um stífari æfingar hans síðasta mánuðinn en venja er til og að kappinn hafi meira að segja sleppt hefðbundnum fjölskylduferðum á skíði og sólarstrendur.

Fyrsta mótið

Í gær hófst Buick Invitational sem er fyrsta mótið sem Tiger Woods tekur þátt í þetta árið og reyndar fyrsta mótið þar sem margar stærstu stjörnurnar mæta flestar til leiks. Athyglisvert verður að fylgjast með hvort Woods finnur sig strax eða hvort einhver hinna fjölmörgu annarra sem staðið hafa linnulítið í skugga kappans um árabil taka sig til og setja alvöru pressu á konunginn. Ekki vanþörf á ef árið 2008 eins og reyndar flest önnur ár á þessari öld á ekki að verða enn eitt ár tígursins.