— Árvakur/Ómar
Eftir Hlyn Orra Stefánsson hlynur@24stundir.is Ótrúlegt er hve umsvifamikill íslenski hlutabréfamarkaðurinn er, í ljósi þess að saga hans spannar ekki nema rétt rúm 20 ár.

Eftir Hlyn Orra Stefánsson

hlynur@24stundir.is

Ótrúlegt er hve umsvifamikill íslenski hlutabréfamarkaðurinn er, í ljósi þess að saga hans spannar ekki nema rétt rúm 20 ár. Þetta segir Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, sem hélt í vikunni erindi um upphaf íslenska hlutabréfamarkaðarins.

Gylfi segir veltu og markaðsvirði skráðra fyrirtækja hérlendis standast vel samanburð við miklu eldri markaði, en hversu ungur hlutabréfamarkaðurinn íslenski er sjáist best með því að bera hann saman við nágrannalöndin. Sögu kauphallar í Kaupmannahöfn megi t.d. rekja allt aftur til 17. aldar, en annars staðar á Norðurlöndum hafi verið kominn skipulagður markaður fyrir hlutabréf á 19. öld eða snemma á þeirri tuttugustu.

Í fyrirlestri sínum velti Gylfi upp þeirri spurningu hvers vegna skipulagður og virkur hlutabréfamarkaður hefði hér á landi myndast eins seint og raun ber vitni. Hlutafélög hafi verið orðin til mun fyrr, en til að mynda var Eimskipafélagið, fyrsta almenningshlutafélagið, stofnað árið 1914. Þá hafi nokkrar fjármálastofnanir með talsvert dreifða eignaraðild verið stofnaðar á sjötta og sjöunda áratugnum.

Höfðað til samviskunnar

Markmiðið með stofnun hlutafélaga á þessum tíma var samkvæmt Gylfa nokkuð frábrugðið því sem nú er. Í stað þess að freista fjárfesta með þeim arði sem hlutahafar gætu átt í vændum, var reynt að höfða til borgaralegrar skyldu þeirra og mikilvægis þeirrar starfsemi sem fyrirtækin áttu að inna af hendi.

Þá var hlutafélagaformið á þessum árum einkum notað vegna takmarkaðrar ábyrgðar eigenda á rekstrinum, segir Gylfi, en ekki til að safna fé frá mörgum fjárfestum. Eins hafi sú staðreynd að vaxtagjöld voru frádráttarbær kostnaður hjá fyrirtækjum, og ekki síður sú að verðbólga át upp alla vexti af lánum og gott betur, gert það að verkum að fyrirtæki kusu að afla sér fjár með lántöku frekar en með hlutabréfaútboði.

Höft og ríkisstofnanir

Það varð heldur ekki til þess að hjálpa hlutabréfamarkaðunum á fæðingarárum hans að mikil höft voru á gjaldeyrisviðskiptum landsmanna, né það að hið opinbera skammtaði erlent lánsfé til að leysa úr skorti á fjármagni – allt þar til EES-samningurinn var innleiddur, segir Gylfi. Þá hafi ríkisstofnanir verið mjög umfangsmiklar innan fjármálakerfisins alveg þar til viðskiptabankarnir voru einkavæddir.

Loks hafi ýmsir landlægir ósiðir í rekstri hlutafélaga fælt fjárfesta frá, segir Gylfi. Þannig voru hömlur á framsali hluta, arðgreiðslur litlar, réttindi minnihluta lítt virt en innherjar sátu að mikilvægum upplýsingum um hlutabréf.

Í hnotskurn
Saga íslensks hlutabréfamarkaðar nær ekki nema 20 ár aftur í tímann. Sögu kauphallarinnar í Kaupmannahöfn má rekja aftur til 17. aldar. Annars staðar á Norðurlöndum nær kauphallarsagan a.m.k. aftur til byrjunar 20. aldar.