Þorrinn verður blótaður víðar en í Garðabæ um helgina enda þorrablót fastur liður í starfi margra félaga og samtaka. Blót ásatrúarmanna Ásatrúarfélagið heldur sitt árlega þorrablót í Mörkinni 6 í kvöld og verður húsið opnað kl. 19.

Þorrinn verður blótaður víðar en í Garðabæ um helgina enda þorrablót fastur liður í starfi margra félaga og samtaka.

Blót ásatrúarmanna

Ásatrúarfélagið heldur sitt árlega þorrablót í Mörkinni 6 í kvöld og verður húsið opnað kl. 19. Dagskráin hefst á því að allsherjargoði helgar blótið og drekkur til landvætta. Þá mun Steindór Andersen kveða, Sigurður Skúlason leiklesa úr Lokasenu, Konstantín og María verða með Petrushka-sýningu og Soffía Karlsdóttir syngur stuðlög undir dansi.

Herrakvöld Fylkis

Þorramatur verður einnig á borðum á herrakvöldi Fylkis sem fram fer í Fylkishöllinni í kvöld. Jóhannes eftirherma skemmtir Fylkismönnum og veislustjórn er í höndum Gísla Einarssonar. Þá verður efnt til málverkauppboðs og happdrættis þar sem glæsilegir vinningar verða í boði.

Blót á Nesjavöllum

Ferðafélagið Útivist efnir til árlegrar þorraferðar um helgina og verður blótið að þessu sinni haldið á Nesjavöllum. Þorri verður blótaður með hefðbundnum hætti auk þess sem menn skemmta sér á kvöldvöku og njóta útiveru og náttúrunnar.