Lestin er að fara Lest leggur af stað á lestarstöð í Búrma. Hvort lýðræðislegar umbætur komast á skrið í landinu er hins vegar óljóst.
Lestin er að fara Lest leggur af stað á lestarstöð í Búrma. Hvort lýðræðislegar umbætur komast á skrið í landinu er hins vegar óljóst. — Árvakur/Sigríður Víðis
Lítið hefur heyrst frá Búrma eftir að búddamunkar og nunnur leiddu mótmæli gegn herforingjastjórninni í haust.

Lítið hefur heyrst frá Búrma eftir að búddamunkar og nunnur leiddu mótmæli gegn herforingjastjórninni í haust. Sigríður Víðis Jónsdóttir kynnti sér óvenjulega verðhækkun, hert eftirlit með netnotkun og gagnrýni Öryggisráðsins sem lýsir eftir viðræðum á milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Mörgum í Búrma hefur líklega svelgst á í byrjun árs. Rúmlega 160-föld verðhækkun á sjónvarpsleyfum var ekkert eðlileg, eða hvað?

Og þó, kannski voru einhverjir orðnir vanir dyntum herforingjastjórnarinnar og fátt gat komið þeim lengur á óvart. Í byrjun janúar kvisaðist nefnilega út að árgjöld fyrir gervihnattasjónvörp myndu hækka úr 6000 kyat í 1.000.000 kyat – úr sem svaraði 300 íslenskum krónum í tæpar 60.000.

Hið nýja verð var á við þreföld meðalárslaun kennara í hinu bláfátæka Búrma og var langt utan greiðslugetu almennings. Þetta var raunar eins og ég sjálf ætti skyndilega að borga margar milljónir fyrir að hafa hjá mér gervihnattasjónvarp. Ætli ég myndi ekki neyðast til að losa mig við gripinn.

Að loka eyrum og augum

Og kannski var það einmitt takmarkið. Aðgerðirnar þykja skipulagðar til að takmarka aðgang fólks að erlendum fjölmiðlum. Engar opinberar skýringar voru gefnar heldur kom verðhækkunin einfaldlega í ljós þegar fólk ætlaði að endurnýja leyfin. Í landi þar sem erlendir fjölmiðlar eru litnir hornauga og stjórnin birtir reglulega fréttir af því að allt leiki í lyndi, kemur sér síður en svo vel að almenningur geti fylgst með þróun mála – hvað þá vitað hvað sé á seyði annars staðar.

„Ríkisstjórnin er að reyna að loka eyrum okkar og augum,“ hafði AP fréttaveitan eftir hinum 57 ára gamla Thant Zin. „Herforingjastjórnin vill ekki að við vitum sannleikann um landið okkar.“

Raunar heyrast einnig raddir um að stjórnin hafi einfaldlega þurft á meiri tekjum að halda, enda fjársvelt mjög, og að það geti skýrt hina gríðarlegu verðhækkun.

Byssur og táragas

Í ágúst og september risu landsmenn upp, með búddamunka og -nunnur í fararbroddi, og vildu herstjórnina í burtu. Hún hafði miskunnarlaust troðið á landsmönnum í að verða hálfa öld og nú var nóg komið. Í nokkra daga stóð heimsbyggðin á öndinni – hvernig myndi stjórnin taka á munkum og nunnum í friðsamlegum mótmælum? Myndi hún hrökklast frá?

Ekki í þetta sinn. Herforingjarnir fóru í gamalkunnan farveg og beittu valdi. Mótmælin voru kæfð af öryggissveitum sem beittu byssum, bareflum og táragasi gegn þeim sem þátt tóku í mótmælagöngum. Í lok október risu yfir eitt hundrað munkar aftur upp en síðan þá hefur fólk ekki vogað sér að mótmæla.

Meðan á látunum stóð tókst stjórninni nánast að stöðva fréttaflæði frá landinu og lítið hefur heyrst frá Búrma síðan þá. Búrmískir útlagar reka reyndar fréttamiðla á vefsíðunum www.irrawaddy.org og www.vdb.no. Kannski misstu vestrænir fjölmiðlar að einhverju leyti áhugann.

Reið ritskoðunarnefnd

Herforingjastjórnin getur lítið aðhafst vegna fréttaflutnings útlaganna en eftir atburði haustsins hefur hún hert enn frekar eftirlit með innlendum fjölmiðlum.

Í síðastliðinni viku flutti Irrawaddy fréttir af því að blaðinu The Myanmar Times hefði verið uppálagt að reka fjóra ritstjóra sína og hætta útgáfu í eina viku, eftir að blaðið flutti frétt sem ritskoðunarnefnd ríkisins hafði ekki veitt leyfi fyrir: Nefnilega af hinni stjarnfræðilegu gjaldskrárhækkun. Fréttin olli ólgu hjá almenningi og póst- og fjarskiptastofnun landsins virðist því hafa ákveðið að fresta gildistöku hennar um óákveðinn tíma.

Fjölmiðillinn Democratic Voice of Burma , sem rekinn er af útlögum með aðsetur í Osló, hefur eftir eigendum netkaffihúsa í Rangoon að upp á síðkastið hafi stjórnin hert enn frekar reglur um netnotkun. Það var nefnilega í gegnum netið og gervihnattasjónvörp sem landsmenn gátu fylgst með atburðarásinni og sent fréttir og skilaboð út í heim.

Að sögn kaffihúsaeigenda hefur sérsveit lögreglunnar fyrirskipað þeim að taka í notkun hugbúnað sem gerir þeim kleift að fylgjast með netnotkun gesta. Þeim er síðan uppálagt að brenna á geisladiska gögn um notkunina og senda lögreglunni vikulega.

Komdu frekar í apríl ...

Einhver hefði getað haldið að sjálfstæði frá nýlenduherrum yrði fagnað með glaumi og gleði – ekki síst herrum sem af mörgum eru álitnir hafa komið afar illa fram við landsmenn. Svo var þó ekki raunin í Búrma þann 4. janúar. Þá voru 60 ár liðin síðan landið fékk sjálfstæði frá Bretum en Bretar réðu Búrma í 63 ár.

Lítið var um almenn hátíðarhöld en yfirherforinginn Than Shwe notaði tækifærið og lýsti eftir þjóðareiningu og aga. Fyrir síðastliðna helgi var það svo Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sem lýsti eftir frekari samræðum á milli herstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar. Eftir atburði haustsins samþykkti stjórnin að hefja slíkar viðræður og í nóvember hitti Nóbelsverðlaunahafinn og leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Aung Saan Sui Kyi, fulltrúa stjórnarinnar. Í desember fóru engar viðræður fram en fyrr í þessum mánuði var haldinn klukkutíma langur fundur.

Öryggisráðið sagðist í lok síðustu viku harma hina hægu framvindu við að ná markmiðum haustsins. Auk viðræðnanna átti að sleppa pólitískum föngum en þar hefur lítið þokast. Ráðið hvatti herstjórnina til að leyfa sérlegum sendifulltrúa SÞ, Ibrahim Gambari, að koma sem fyrst til Búrma. Hann vill fá leyfi til að ferðast fyrir lok mánaðar en segir herstjórnina hafa tjáð sér að það væri ekki hentugt – hún kysi heldur að sjá hann um miðjan apríl.

Alls óvíst er hversu miklu Gambari fær áorkað og hvort nokkuð kemur út úr viðræðum stjórnar og stjórnarandstöðu. Efnahagsþvinganir og fordæmingar virðast skipta herforingjana litlu máli. Hitt er víst að ólgan kraumar undir. Mun hún leiða til stjórnarbreytinga um síðir?

Í hnotskurn
» Í ágúst og september mótmæltu tugþúsundir herstjórninni í Búrma, sem tók völdin í landinu árið 1962.
» Vitni í skýrslu Human Rights Watch lýstu eftir á barsmíðum, handahófskenndum handtökum og pyntingum á föngum.
» Í byrjun desember sagði lögreglan í Búrma að tæplega 3000 manns, þar á meðal tæplega 600 munkar, hefðu verið handteknir í tengslum við mótmælin. Að minnsta kosti 31 lét lífið.


sigridurv@mbl.is