Vill gæði Dr. Minkailu Bah: „Við erum víða með sjálfboðaliða og lítt þjálfað fólk sem reynir sitt besta en sums staðar eru tveir kennarar með 200 börn. Allir sjá að það er lítið gagn að slíkum skólum.“
Vill gæði Dr. Minkailu Bah: „Við erum víða með sjálfboðaliða og lítt þjálfað fólk sem reynir sitt besta en sums staðar eru tveir kennarar með 200 börn. Allir sjá að það er lítið gagn að slíkum skólum.“ — Árvakur/Kristinn Ingvarsson
Menntamálaráðherra Síerra Leóne, dr. Minkailu Bah, segir í viðtali við Kristján Jónsson að mikilvægasta verkefnið sé nú að tryggja börnunum góða menntun og til þess þurfi vel menntaða kennara.

Borgarastríðinu lauk fyrir fáeinum árum og nú verðum við að mennta börnin til að tryggja okkur betri framtíð. Allar vonir okkar byggjast á því og þau verða að fá góða menntun, ekki eitthvað til málamynda, það er ekki nóg að þau séu skráð í skóla. Kennararnir verða að vera færir og vel þjálfaðir,“ segir dr. Minkailu Bah, menntamálaráðherra Síerra Leóne, sem hér er í heimsókn.

Ráðherrann er hér í boði Aurora-velgerðarsjóðs, sem hjónin Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa, og Ingibjörg Kristjánsdóttir landslagsarkitekt stofnuðu í fyrra. Sjóðurinn hefur stutt menntaverkefni Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, í Síerra Leóne.

Efnahagur landsins er nánast í rúst, landið er eitt af þeim fátækustu í heimi og Bah segir að stjórnin, sem tók við eftir kosningar í fyrra, byrji í reynd frá grunni. Tugþúsundir manna féllu í borgarastríðinu sem geisaði í landinu 1992-2001 með þátttöku stríðsherra frá Líberíu. Þeir seldu deiluaðilum vopn gegn greiðslu í demöntum en miklar námur eru í landinu. Grimmdin var skelfileg, oft voru útlimir höggnir af þeim sem ekki hlýddu tafarlaust skipunum stríðsherranna mörgu. Börnum, bæði drengjum og stúlkum, var rænt til að gera þá að barnahermönnum og kynlífsþrælum eins fram kom í þekktri bók eftir fyrrverandi barnahermann, Ishmael Beah.

Stillt til friðar

Bretar höfðu að lokum forystu um að sent var fjölþjóðlegt friðargæslulið til landsins og tókst því að stilla til friðar. En þrátt fyrir þessa forsögu tókst að efna til kosninga í fyrra, erlendir eftirlitsmenn voru sammála um að þær hefðu gengið vel og þátttakan var mikil. Bah segir að allt hafi gengið vel og það megi ekki síst þakka að skipuð var óháð kjörstjórn undir forystu skeleggrar konu sem lét engan komast upp með neitt múður.

„Fólk vildi breytingar. Þegar upp komst á einhverjum kjörstaðnum að dæmi voru um að sami kjósandi hefði kosið tvisvar, jafnvel að greidd atkvæði væru fleiri en skráðir kjósendur, lokaði hún bara staðnum og ógilti atkvæðagreiðsluna þar,“ segir Bah og brosir breitt. „Og menn hlýddu, að vísu ekki allir með glöðu geði.“

Hann segir að enn sé verið að takast á við afleiðingar átakanna og enn sé smyglað demöntum en verið sé að ná tökum á því framferði. Vinsæl kvikmynd sem gerð var um þessi viðskipti, Blóðdemantar, hafi átt stóran þátt í að alþjóðasamfélagið greip inn og setti reglur sem hafa að miklu leyti stöðvað þessi ólöglegu viðskipti.

„Erlend fyrirtæki sjá um að vinna demantana úr jörðu og andvirði þeirra á heimsmörkuðum er um 150 milljónir dollara, af því renna nú 3% í ríkissjóð Síerra Leóne,“ segir Bah. „En við viljum breyta fyrirkomulaginu, láta skera og slípa demantana í landinu vegna þess að þá myndi afgangurinn af sölunni verða miklu meiri.“

„Skóli er ekki bara hús“

Bah tók við ráðherraembættinu í október sl. en hann var áður prófessor og yfirmaður rafmagnsverkfræðideildar háskólans í höfuðborg Síerra Leóne, Freetown. Skólinn er elsti háskóli Vestur-Afríku, stofnaður 1827. Menntun sína hlaut hann þar og lauk síðar doktorsprófi við háskólann í Swansea í Wales þar sem hann var í fimm ár.

Bah segir að aðeins um 35% fullvaxinna Síerra Leóne-manna séu læs og að sögn alþjóðastofnana ganga aðeins um 30% barna reglulega í skóla, enn sem komið er. Viðkoman er mikil og um 42% þjóðarinnar eru 18 ára eða yngri. Hann segir lítið um að foreldar og ættingjar reyni að kenna börnunum heima enda yfirleitt um ólæst fólk að ræða.

„Skóli er ekki bara hús þótt auðvitað þurfi hann að vera einhvers staðar, hafa húsaskjól,“ segir Bah. „Það þurfa að vera fyrir hendi kennslugögn og lágmarksbúnaður en fyrst og fremst góðir, menntaðir kennarar. Mikilvægasta verkefnið okkar núna er að útvega slíka kennara en síðan þurfum að geta haldið þeim í skólunum. Stundum tekst það ekki og við getum hafnað í vandanum sem kallaður er atgervisflótti, menntaðir kennarar fara kannski sumir burt og setjast að í grannlöndunum og þá höfum við tapað, ekki tekist nógu vel upp. Við verðum að finna leiðir til að telja þá á að vera áfram hjá okkur. Við erum víða með sjálfboðaliða og lítt þjálfað fólk sem reynir sitt besta en sums staðar eru tveir kennarar með 200 börn. Allir sjá að það er lítið gagn að slíkum skólum.

Sum ganga 10 km í skólann

Sem stendur verjum við miklu starfi í að sannreyna hvar skólar eru fyrir hendi, hve margir í reynd. Þegar við tókum við völdum í fyrra var okkur sagt að svo og svo margir skólar væru í hverju héraði. Við þurfum að vita nákvæmlega hvar þeir eru til að ganga úr skugga um það hve langt er fyrir börnin að sækja skóla. Sum þurfa að ganga yfir 10 kílómetra leið í skólann sem er allt of langt fyrir lítil börn, þau eru orðin þreytt þegar þau komast á leiðarenda. Við viljum að skólarnir séu eins nálægt helstu byggðakjörnum og kostur er, það er alveg í lagi að börnin gangi hálfan annan kílómetra en ekki mikið lengra.

Þetta skiptir ekki síst máli fyrir stúlkurnar. Þegar þær eru orðnar segjum 12 ára eru þær oftast orðnar kynþroska og geta orðið fórnarlömb nauðgara á leiðinni í skóla. Sums staðar þurfa þær að fara um óbyggð svæði og þar geta leynst fantar sem ráðast á þær. Þetta getur valdið því að stúlkurnar hætti í skóla þegar þær ná þessum aldri, áhættan er of mikil, sumar vegna þess að þær verða þungaðar, aðrar hafa smitast af kynsjúkdómum og eru veikar.“

Bah segir að árásunum á stúlkurnar hafi fjölgað geysimikið í borgarastríðinu 1991-2002 enda hafi stríðandi aðilar oft rænt ungum stúlkum til að gera þær að kynlífsþrælum. Brýnt sé að taka á þessum vandamálum og ríkisstjórnin sé staðráðin í því, segir Bah. Hann segir aðspurður að kynjahlutfallið sé nú nokkurn veginn jafnt í yngri deildum grunnskólanna. „En þegar ofar dregur í aldri er munur, mun fleiri drengir en stúlkur á þeim aldri ganga í skóla. En það er fleira sem veldur því að stúlkurnar hætta fremur í skólanum. Foreldrar þeirra álíta margir að þær eigi að vinna og sjá fyrir sér og þegar þær eru búnar í skólanum reyna þær gjarnan að selja einhvern varning á markaðstorgum eða við vegina.

Mikið er um að ófyrirleitnir karlar nýti sér aðstæður og bjóði þeim tvöfalt verð fyrir varninginn gegn kynlífsþjónustu og sumar falla fyrir þeim boðum. Þær gerast líka viðskiptafélagar þessara manna og eiginkonur, verða barnshafandi og gefa þá skólann upp á bátinn. Það er því miður mikið um barneignir táningsstúlkna í Síerra Leóne,“ segir dr. Minkailu Bah, menntamálaráðherra Síerra Leóne.

kjon@mbl.is

Höf.: kjon@mbl.is