Framleiðsla Mikil matvælaframleiðsla er á Akureyri og tvö af stærstu kjötiðnaðarfyrirtækjum landsins þar staðsett. Myndin er úr Norðlenska.
Framleiðsla Mikil matvælaframleiðsla er á Akureyri og tvö af stærstu kjötiðnaðarfyrirtækjum landsins þar staðsett. Myndin er úr Norðlenska. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
FORSVARSMENN Akureyrarbæjar vilja að komið verði á flutningsjöfnunarkerfi fyrir framleiðslufyrirtæki eins fljótt og kostur er í því skyni að jafna rekstrarforsendur fyrirtækja í landinu og þar með lífskjör íbúa.

FORSVARSMENN Akureyrarbæjar vilja að komið verði á flutningsjöfnunarkerfi fyrir framleiðslufyrirtæki eins fljótt og kostur er í því skyni að jafna rekstrarforsendur fyrirtækja í landinu og þar með lífskjör íbúa. Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir þetta atriði skipta fyrirtæki í bænum verulegu máli.

Á fundi bæjarráðs var í gærmorgun lögð fram greinargerð Ásgeirs Magnússonar, framkvæmdastjóra Skrifstofu atvinnulífsins á Akureyri, um flutningskostnað framleiðslufyrirtækja í bænum og í samþykkt lagði bæjarráð áherslu á nauðsyn þess að jafna flutningskostnaðinn eins og mögulegt er.

Nefnt er í samþykkt bæjarráðs að framleiðslufyrirtæki, t.d. matvæla- og drykkjarvörufyrirtæki, þurfi að greiða verulegar upphæðir vegna flutnings á framleiðslu sinni á stærsta markaðssvæði landsins.

Mjög brýnt mál

„Þessi kostnaður getur ráðið úrslitum um hagkvæmni þess að reka þessi fyrirtæki hér á Akureyri. Bæjarráð skorar þess vegna á stjórnvöld að taka þetta brýna mál föstum tökum og koma á flutningsjöfnunarkerfi svo fljótt sem kostur er,“ segir í samþykkt þar.

Bæjarstjóra og formanni bæjarráðs var falið að koma þessum sjónarmiðum á framfæri við stjórnvöld.

Í greinargerð Ásgeirs, sem áður var nefnd, segir hann að tvö af stærstu kjötiðnaðarfyrirtækjum landsins, Norðlenska matborðið og Kjarnafæði, séu á Akureyri og flutningskostnaður þeirra við að koma sínum vörum á helsta markaðssvæði landsins sé hátt á annað hundrað milljónir á ári.

„Þetta er mjög brýnt mál fyrir Akureyri og reyndar Eyjafjörð allan. Hér eru fyrirtæki sem standa mjög framarlega, bæði í matvælaiðnaði og öðrum sviðum, og eru með gríðarlega flutninga á markaði fyrir sunnan,“ sagði bæjarstjórinn. „Við viljum standa með fyrirtækjum hér.“

Sigrún segir ýmis atriði vissulega hafa verið jákvæðari nyrðra en á suðvesturhorninu, starfsmannavelta sé t.d. minni, en kostnaður við flutninga sé stór liður í rekstrinum. „Kostnaðurinn hefur vaxið undanfarin ár og hækkaði til muna þegar skipaflutningar lögðust af. Þess vegna er þetta ótrúlega brýnt mál ef framleiðsla á að geta haldið hér áfram; svo framleiðslan haldi hér áfram en fyrirtækin flyti ekki starfsemina nær höfuðborgarsvæðinu.“

Skipuð hefur verið nefnd á Alþingi sem á að skoða þessi mál og leggja fram tillögur. Formaður nefndarinnar er Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri.

Í hnotskurn
» „Mikil ástæða er til að hafa áhyggjur af stöðu framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni, samkeppnisstaða þeirra versnar stöðugt og hefur flutningskostnaður þar mikil áhrif, hvort sem þau selja sínar vörur á innlendan eða erlendan markað,“ segir í greinargerð Ásgeirs Magnússonar hjá Skrifstofu atvinnulífsins, sem var til umfjöllunar í bæjarráði í gær.

Dæmi um 66 milljóna aukakostnað fyrirtækis

„FYRIRTÆKI sem selja á innanlandsmarkað eiga ekki um annað að velja en að kosta flutning á sínum vörum á stærsta markaðssvæði landsins og enginn annar flutningsmáti er í boði en landflutningar,“ segir m.a. í greinargerð Ásgeirs Magnússonar hjá Skrifstofu atvinnulífsins á Akureyri, sem fjallað var um á fundi bæjarráðs Akureyrar í gær.

Ásgeir nefndir í greinargerðinni að viðbótarkostnaður Vífilfells af því að reka hluta framleiðslu fyrirtækisins á Akureyri sé tugir milljóna. Í höfuðstað Norðurlands framleiðir fyrirtækið gos og nokkrar bjórtegundir og starfsmenn þar eru 65 í 45 stöðugildum.

„Viðbótarkostnaður fyrirtækisins við að hafa þennan hluta framleiðslunnar staðsettan á Akureyri er af fyrirtækinu áætlaður um 86 milljónir króna, þar af er flutningskostnaður um 66 milljónir.

Innlendi keppinautur fyrirtækisins hefur sína framleiðslu svo að segja við hliðina á móttökustöð ÁTVR í Reykjavík, sem með öðrum orðum þýðir að ÁTVR sér um flutninginn á þeirra vörum nánast frá verksmiðjudyrum.

Fyrir liggur að ráðast í endurbætur á stöðinni á Akureyri og því ekki óeðlilegt að eigendur velti fyrir sér hvar beri að leggja í slíkar fjárfestingar.“

Ásgeir benti á að þetta tiltekna mál mætti leysa með því að koma upp móttöku- og dreifingarstöð frá ÁTVR á Akureyri. Ekki þyrfti nýtt húsnæði, heldur gæti ÁTVR samið við einhvern flytjanda.