Einar Þorvarðarson
Einar Þorvarðarson
„MENN náðu aldrei þeim grunni sem þarf í leik við Spánverja sem er fyrst og fremst almennilegur varnarleikur.

„MENN náðu aldrei þeim grunni sem þarf í leik við Spánverja sem er fyrst og fremst almennilegur varnarleikur. Mér fannst sem menn væru fyrst og fremst að skila af sér skylduleik í mótslok,“ sagði Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, þegar íslenska landsliðið hafði leikið sinn síðasta leik á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í gær.

„Við höfum verið að þvælast með sömu vandamálin með okkur alla keppnina og þau voru enn fyrir hendi í dag. Þá á ég við misjafna leiki innan sama leiksins og þá staðreynd að alltof margir leikmenn hafa ekki sjálfstraust né eru í nógu góðri æfingu um þessar mundir. “

Einar viðurkennir að endalok mótsins hafi verið leiðinleg, en því miður þurfti það ekki að koma á óvart að tapa leik fyrir Spánverjum. „Við höfum átt í vandræðum með þá í gegnum tíðina. Auðvitað vildi ég sjá beittari spilamennsku að þessu sinni, ekki síst til þess að ljúka keppninni á betri hátt en raun ber vitni um.“

Einar sagði það hafa lengi verið sína skoðun að stefnt hafi verið of hátt á Evrópumeistaramótinu, þ.e. að setja stefnuna á verðlaunasæti, enda hafi það komið í ljós að miðað við núverandi ástand hópsins hafi það verið of háleitt markmið. „Héðan af er ekkert annað hægt að gera en að draga lærdóm af þessu,“ sagði Einar Þorvarðarson.