Margrét Steinarsdóttir margret@ahus.is
Margrét Steinarsdóttir margret@ahus.is
Að mínu mati er til bóta að atvinnuleyfi skuli nú vera bundið við útlending, þó ég telji betur fara á því að binda leyfið við tiltekna starfsstétt eða landsvæði fremur en tiltekinn vinnuveitanda.

Að mínu mati er til bóta að atvinnuleyfi skuli nú vera bundið við útlending, þó ég telji betur fara á því að binda leyfið við tiltekna starfsstétt eða landsvæði fremur en tiltekinn vinnuveitanda. Annað sem ég tel til bóta er að nú er að finna í lögunum ákvæði um að útlendingi með tímabundið atvinnuleyfi verði heimilt, að ákveðnu marki, að skipta um atvinnurekanda. Slíkt ákvæði var ekki að finna áður í lögunum, en ákvæðið á sér ákveðna fyrirmynd í reglugerð um atvinnuréttindi útlendinga.

Það sem þó skilur á milli er að í frumvarpinu segir að yfirlýsing um ráðningarslit milli útlendings og fyrri atvinnurekanda skuli fylgja með umsókn um atvinnuleyfi hjá nýjum vinnuveitanda, en í reglugerðinni var kveðið á um að yfirlýsing frá fyrri atvinnurekanda um að ráðningarslit hefðu átt sér stað og ástæður þeirra skyldu fylgja umsókninni. Verði frumvarpið að lögum er því ekki lengur skylt að vinnuveitandi gefi út einhliða yfirlýsingu eða að tilgreina þurfi ástæður ráðningarslita. Samkvæmt frumvarpinu er Vinnumálastofnun nú einnig heimilt að veita atvinnuleyfi í ákveðnum tilvikum, án þess að litið sé til vinnumarkaðssjónarmiða. Er þar miðað við að þýðingarmikið sé fyrir rekstur atvinnurekanda að fá hlutaðeigandi útlending til starfa tímabundið, en ekki átt við ástæður sem lúta að útlendingnum sjálfum eða aðstæðum hans, sem að mínu mati hefði mátt opna fyrir.

Þá er í frumvarpinu að finna ákvæði, sem ætla má að auðveldi þeim sem hafa sérfræðiþekkingu, aðgang að íslensku atvinnulífi þó þeir séu ekki frá ríkjum innan EES svæðisins. Þá er einnig kveðið á um fleiri tegundir atvinnuleyfa sem vænta má, a.m.k. í einhverjum tilvikum, að auki möguleika einstaklinga á atvinnuleyfi. Í ljósi þess er að framan hefur verið rakið, er það mat mitt að með frumvarpi þessu sé verið að færa afgreiðslu atvinnuleyfa í betra horf og að samræma lögin núverandi framkvæmd.

Höfundur er lögfræðingur Alþjóðahúss