Háreysti Nýkjörinn borgarstjóri horfir í átt til áhorfendapallanna, en framan af fundi gekk illa að komast í gegnum dagskrá vegna mótmæla.
Háreysti Nýkjörinn borgarstjóri horfir í átt til áhorfendapallanna, en framan af fundi gekk illa að komast í gegnum dagskrá vegna mótmæla. — Árvakur/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Ólafur F. Magnússon kjörinn borgarstjóri *Hanna Birna Kristjánsdóttir kjörin forseti borgarstjórnar *Björn Ingi Hrafnsson leystur frá starfi borgarfulltrúa

Stjórnarskipti urðu í borginni í gær, á einum órólegasta borgarstjórnarfundi í sögu Reykjavíkur. Önundur Páll Ragnarsson hlustaði á ræður borgarfulltrúa, sem ýmist voru fluttar undir lófataki, kröftugum mótmælum eða hvoru tveggja.

Í dag ætti að kjósa í Reykjavík. Ekki hér í borgarstjórn heldur í borginni allri. Það ætti að kjósa í Reykjavík vegna þess að borgarbúum er misboðið,“ sagði Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, á fundi borgarstjórnar í gær. Dagur og Svandís Svavarsdóttir kváðu sér hljóðs að loknu kjöri forseta og tveggja varaforseta borgarstjórnar, en Hanna Birna Kristjánsdóttir var kjörin forseti, Dagur sjálfur fyrsti varaforseti og Gísli Marteinn Baldursson annar varaforseti.

„Ástæðan er sú að undanfarna daga hefur verið misfarið með lýðræði, umboð og vald,“ sagði Dagur og bætti því við að smám saman hefði komið í ljós að hinn nýi meirihluti sé byggður á blekkingum, upplýsingaskorti, fljótfærnislegum vinnubrögðum og „veruleika sem við höfum aldrei áður kynnst í íslenski pólitík. Flest bendir til þess að meirihluti sem er byggður á þessum grunni, og í raun gerður af tveimur einstaklingum, sé andvana fæddur.“ Hann sagði þetta einn alversta tíma til þess að gera sér stjórnmálin að leik og vísaði í tvísýnar horfur í efnahagsmálum, erfiðar kjarasamningaviðræður og óróa á fjármálamörkuðum.

„Það sem við höfum orðið vitni að undanfarna daga er skrípaleikur. Það er gróf afbökun á því umboði sem það fólk sem hér mun greiða atkvæði sótti til sinna kjósenda. Því hvað hefur gerst? Sjálfstæðisflokkurinn lagðist á hnén og setti hugsjónir sínar á útsölu. Hann notaði sjálfan borgarstjórastólinn sem tálbeitu. Mikið óskapleg er reisn þessa gamla flokks orðin,“ sagði Dagur og fullvissaði í lokin fundarmenn, og sjálfan sig, um að fulltrúar fráfarandi meirihluta væru rétt að byrja. „Við eigum öll enn eftir að vinna okkar bestu verk í þessum sal og þessari borg.“

Soralegt og sorglegt

Því næst tók Svandís Svavarsdóttir til máls og rakti atburðarás REI-málsins í haust. „Við björguðum Orkuveitu Reykjavíkur. Það er umtalsverður árangur, þó ekki annað komi til,“ sagði hún og kvaðst ánægð með áhrif fulltrúa VG innan fráfarandi meirihluta, einna helst á málefni eldri byggðar, mannréttindamál, kjara- og starfsmannamál og hverfalýðræði.

Svandís útskýrði samstarf án málefnasamnings og sagði það ganga upp þegar samstarfsfólkið þekkti hvert annað og áherslur hvers annars. Þar að auki hafi fulltrúar „Tjarnarkvartettsins“ svonefnda farið sameiginlega yfir málefnaáherslur sínar og haldið sameiginlega fundi í sameinuðum borgarstjórnarflokki meirihlutans. Málefnasamningur hafi því ekki verið nauðsynlegur. Svandís gaf Degi heldur ekkert eftir í orðavali. „Leynimakkið. Leyndin. Hraðinn. Samráðsleysið. Umboðsleysið. Allt kunnugleg stef frá því á mánudaginn var. Endurtekið efni, sami höfundur – borgarfulltrúi Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson,“ sagði hún og lýsti málefnaskrá nýs meirihluta sem fátæklegu og veikburða skjali sem gengi út á að fresta framtíðinni. „Þau soralegu, sorglegu vinnubrögð sem eru fæðingarvottorð nýja meirihlutans kunna ekki góðri lukku að stýra. Við erum reiðubúin. Við erum ekki að fara neitt. 75% borgarbúa vilja þetta ekki. Okkur var misboðið í haust, okkur er misboðið núna. Almenningur hefur ekki sagt sitt síðasta orð.“

Að loknum þessum ræðuhöldum var tekin fyrir tillaga um ráðningu borgarstjóra. Þegar kjörið fór fram urðu svo kröftug mótmæli að forseti gerði hlé á fundi. Stóð hléið í tæplega eina og hálfa klukkustund, en þá hafði hægst um.

Skattalækkun strax

Þegar fundur hófst á ný var Ólafur F. Magnússon lýstur réttkjörinn borgarstjóri Reykjavíkur og tók til máls. Þakkaði hann stuðninginn og fullvissaði Reykvíkinga um að hann hygðist sinna störfum sínum af alúð og heilindum. Beið hann þá ekki boðanna, en kynnti 5% lækkun fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði, sem færa mun hlutfallið niður í 0,214%. Með lækkuninni minnka álögur á borgarbúa um 135 milljónir króna. Einnig tilkynnti hann að borgarráð tæki síðar um daginn fyrir tillögu um verndun 19. aldar götumyndar við Laugaveg með því að borgin kaupi og láti gera upp húsin við Laugaveg 4 og 6.

Síðar á fundinum þegar tillagan um skattalækkun var tekin fyrir urðu nokkur orðaskipti milli Dags B. Eggertssonar og Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Taldi Dagur tillöguna bera vott um sýndarmennsku og tilgerð, en Vilhjálmur svaraði því til að Dagur vildi hreinlega aldrei lækka skatta.

Með þessari byrjun vildi Ólafur undirstrika að hinn nýi meirihluti væri myndaður um málefni. Því næst beindi hann orðum sínum til minnihlutans. „Mikið hefur gengið á og stór orð verið látin falla. Slíkur tilfinningahiti er mannlegur, en ég lít ekki svo á að neitt af því sem gerst hefur undanfarna daga eigi að spilla fyrir góðri samvinnu allra flokka. Ég lít á það sem frumskyldu stjórnmálamanna að þeir vinni eftir sannfæringu sinni og að framgangi þeirra stefnumála sem þeim er treyst fyrir af kjósendum. Ljóst var að innan fráfarandi meirihluta hafði stefnumálum F-listans orðið lítt ágengt. Því er það ákaflega mikilvægt að meirihlutinn hafi komið sér saman um skýran málefnasamning strax í upphafi. Við munum láta málefnin ráða og óskum eftir góðu samstarfi við minnihlutann um það.

Mér þykir afar vænt um borgina og sem borgarstjóri vil ég vinna í þágu allra borgarbúa að því að gera borgina okkar að enn betri borg.“

Öfundsverð pólitísk eftirmæli

Næsti liður á dagskrá var afsögn Björns Inga Hrafnssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins. Óskaði hann formlega eftir lausn frá störfum og þakkaði fyrir gott samstarf. Tillaga hans um að minnisvarði um skákmeistarann Bobby Fischer verði reistur við Laugardalshöll var svo afgreidd á borgarráðsfundi síðar í gær, og henni vísað til meðferðar hjá þremur ráðum borgarinnar.

Því næst kvaddi hver borgarfulltrúinn sér hljóðs á eftir öðrum, úr öllum flokkum. „Hann var félagi okkar og vinur,“ sagði Hanna Birna, „duglegur og fylginn sér, kraftmikill með vilja og orku til að gera vel.“ Dagur sagði að með fáum væri jafngaman að vinna. Vilhjálmur Þ. sagði hann útsjónarsaman málafylgjumann, og vonaðist til áframhaldandi vináttu, en Svandís Svavarsdóttir sagði það tregafulla tilfinningu að kveðja slíkan kappa sem Björn Ingi væri. Hann byggi yfir þrótti og léttri lund, hugsaði óvenjulangt fram í tímann og væri sannkallað „pólitískt animal“ með óbilandi stjórnmálaáhuga.

Síðar var tekin fyrir tillaga minnihlutans um fyrirheit um úthlutun lóða fyrir stúdentaíbúðir og þjónustuíbúðir eldri borgara á næstu árum. Tók borgarstjóri tillögunni vel, enda vinnan við hana búin að standa síðan í tíð fyrsta meirihluta kjörtímabilsins.


Kjartan formaður stjórnar OR

Kosið í ráð og nefndir á vegum borgarstjórnar

KJARTAN Magnússon verður formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og Júlíus Vífill Ingvarsson verður formaður stjórnar Faxaflóahafna. Kosið var í ráð og nefndir borgarinnar á borgarstjórnarfundi í gær. Sjálfstæðismenn verða með formenn í öllum ráðum borgarinnar.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson og Kjartan Magnússon verða borgarráðsfulltrúar fyrir hönd meirihlutans en Dagur B. Eggertsson, Svandís Svavarsdóttir og Óskar Bergsson fyrir hönd minnihlutans.

Ólafur F. Magnússon var kosinn borgarstjóri, en því embætti mun hann gegna til 22. mars 2009, en þá mun Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson taka við. Vilhjálmur var í gær kjörinn formaður borgarráðs. Forseti borgarstjórnar var kosin Hanna Birna Kristjánsdóttir. Formaður sameinaðs borgarstjórnarflokks er Gísli Marteinn Baldursson.

Formaður skipulagsráðs er Hanna Birna Kristjánsdóttir. Formaður umhverfis- og samgönguráðs er Gísli Marteinn Baldursson. Formaður menntaráðs er Júlíus Vífill Ingvarsson. Formaður leikskólaráðs er Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Formaður menningar- og ferðamálaráðs er Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Formaður velferðarráðs er Jórunn Frímannsdóttir. Formaður stjórnar Eignasjóðs er Jórunn Frímannsdóttir. Formaður íþrótta- og tómstundaráðs er Bolli Thoroddsen. Formaður mannréttindaráðs er Sif Sigfúsdóttir. Formaður stjórnar Faxaflóahafna er Júlíus Vífill Ingvarsson. Formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur er Kjartan Magnússon og Ásta Þorleifsdóttir verður varaformaður stjórnar OR. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var kjörinn í stjórn Sorpu.



Hörð mótmæli á borgarstjórnarfundi


Gera þurfti hlé á fundi borgarstjórnar eftir að gerð voru hróp að forystumönnum nýs meirihluta í borgarstjórn - Mótmælendur hrópuðu „Stöðvið ruglið í Reykjavík – Reykvíkingar eiga betra skilið“ - Ungir sjálfstæðismenn harma framferði ungliðahreyfinga vinstriflokkanna


Eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

Stöðvið ruglið í Reykjavík. Reykvíkingar eiga betra skilið,“ hrópuðu mótmælendur við Ráðhús Reykjavíkur þegar fundur borgarstjórnar var að hefjast í gær. Hróp voru gerð að forystumönnum nýja meirihlutans á pöllunum í Ráðhúsinu og greip forseti borgarstjórnar á endanum til þess ráðs að gera hlé á fundinum meðan pallarnir voru rýmdir.

Að mótmælunum stóðu ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Framsóknar og ungir stuðningsmenn Margrétar Sverrisdóttur. Einnig hvatti fólk sem stóð fyrir söfnun mótmæla á netinu til mótmælastöðu við Ráðhúsið.

Um það leyti sem fundur í borgarstjórn var að hefjast gengu mótmælendur fylktu liði upp á áhorfendapalla, þ.e.a.s. þeir sem komust þar fyrir því að stór hluti varð að láta sér nægja að standa frammi á gangi.

Fólk lét vel í sér heyra á pöllunum og púaði á Ólaf F. Magnússon og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, forystumenn nýja meirihlutans. Þegar byrjað var að kjósa í embætti lét fólk ákaft heyra í sér og þurfti Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar, ítrekað að biðja fólk að hafa hljóð. Hún sagði að ef ekki yrði farið að tilmælum sínum ætti hún ekki annan kost en að gera hlé á fundi og láta rýma pallana. Áheyrendur tóku tillit til orða Hönnu Birnu um tíma.

Ekki er venjan að klappað sé á áheyrendapöllum og eftir að Hanna Birna hafði bent fólki á það gripu áheyrendur til þess ráðs að hrista hendur fyrir ofan höfuðið þegar þeir voru ánægðir með málflutning minnihlutans í staða þess að klappa.

„Hættið við, hættið við“

Eftir að Ólafur F. Magnússon hafði verið kjörinn borgarstjóri lét fólk hins vegar ótvírætt í ljós óánægju sína með því að púa og kalla ítrekað „Hættið við, hættið við.“ Þá taldi Hanna Birna ljóst að ekki yrði hægt að ljúka fundi við þessar aðstæður og gerði hlé á fundinum.

Fólk hélt hins vegar áfram að hrópa og syngja slagorð. Nokkrir stuðningsmenn nýja meirihlutans voru á pöllunum og hófust hvassar umræður milli þeirra og mótmælendanna um þá atburði sem leiddu til myndunar nýja meirihlutans. Má segja að umræðurnar í borgarstjórnarsalnum hafi því færst upp á pallana í fundarhléinu.

Meirihluti áheyrenda var ungt fólk, en þar var einnig eldra fólk. A.m.k. einn þingmaður og einn varaþingmaður fylgdust með umræðum. Þegar starfsmaður Ráðhússins kom upp á pallana og bað fólk að yfirgefa húsið steig Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur fram og mótmælti. Fólk tók undir með henni og hrópaði: „Við förum ekki út, við förum ekki út.“

Um þremur korterum eftir að gert hafði verið fundarhlé stóð Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Sambands ungra jafnaðarmanna, upp og sagði að mótmælendur hefðu komið afstöðu sinni vel til skila. Nú væri tímabært að yfirgefa Ráðhúsið. „Við erum ekki hætt. Þetta er okkar Reykjavík,“ sagði Anna Pála þegar hún ásamt mótmælendum gekk út af áheyrendapöllunum.

Mótmæla mótmælunum

Í yfirlýsingu frá ungliðahreyfingunum segir að krafa þeirra hafi verið að hætt yrði við myndun hins nýja óstarfahæfa meirihluta. „Hvergi verður hvikað frá þeirri kröfu. Vilja hreyfingarnar beina því til einstaklinga innan nýja meirihlutans, sem nýtur stuðnings innan við fjórðungs borgarbúa samkvæmt nýlegri könnun, að skynsamlegast væri að sjá að sér og hætta við.“

Ungir sjálfstæðismenn í Reykjavík sendu frá sér yfirlýsingu þar sem harmað er framferði ungliðahreyfinga vinstriflokkanna. „Þótt það sé sjálfsagt að láta í ljós andstöðu sína með mótmælum er ótækt að hindra eðlilegan framgang borgarstjórnarfundar sem var haldinn á löglegan og lýðræðislegan hátt. Þessi framkoma ber vott um ótrúlega óvirðingu gagnvart öllum borgarfulltrúum Reykvíkinga og þeim almennu reglum sem gilda um lýðræðislega meðferð mála í þjóðfélaginu. Slíkt er hvorki lýðræðinu til framdráttar né til þess fallið að skapa virðingu fyrir ungu fólki í stjórnmálum.“

Höf.: Önundur Páll Ragnarsson

Fletta í greinum frá þessum degi