Dönsk gleði Lasse M. Boesen og Michael V. Knudsen fagna eftir að þeir voru búnir að leggja Slóvena að velli í Stavangri og tryggja sér rétt til að leika í undanúrslitum EM.
Dönsk gleði Lasse M. Boesen og Michael V. Knudsen fagna eftir að þeir voru búnir að leggja Slóvena að velli í Stavangri og tryggja sér rétt til að leika í undanúrslitum EM. — Reuters
IVANO Balic, hinn eitursnjalli króatíski handknattleiksmaður, gerði draum Norðmanna um verðlaunasæti á Evrópumótinu að engu í lokaleik milliriðlanna í gærkvöld.

IVANO Balic, hinn eitursnjalli króatíski handknattleiksmaður, gerði draum Norðmanna um verðlaunasæti á Evrópumótinu að engu í lokaleik milliriðlanna í gærkvöld. Hann sá til þess með stórleik að Króatar gerðu jafntefli gegn Norðmönnum, 23:23, í Stavanger og það nægði króatíska liðinu til að fara í undanúrslitin en Norðmenn leika við Svía um 5. sætið.

Króatar leika við Frakka í undanúrslitunum á morgun og þar mætast ennfremur Danir og Þjóðverjar, sem unnu sína úrslitaleiki í milliriðlunum í gær. Þjóðverjar lögðu Svía, 31:29, og Danir unnu Slóvena, 28:23.

Ivano Balic er af mörgum talinn besti handknattleiksmaður heims og ljóst að Króatar færu ekki langt án hans. Balic, sem var sagður tæpur vegna meiðsla fyrir keppnina, lék á als oddi í íþróttahöllinni í Stavanger og skoraði 9 mörk fyrir Króata, öll utan af velli. Þar af sex í síðari hálfleiknum, og Balic gerði út um vonir Norðmanna þegar hann skoraði, 23:22, þegar 15 sekúndur voru eftir. Króötum dugði stigið og það breytti því engu þó Glenn Solberg næði að jafna fyrir Norðmenn, 23:23, þegar 6 sekúndur lifðu af leiknum.

Hættulegt að fara of mikið í Balic

„Strákarnir börðust hetjulega en við klúðruðum of mörgum dauðafærum í leiknum,“ sagði Gunnar Pettersen, þjálfari Norðmanna, og sagði að það hefði ekki þýtt neitt að reyna að taka Balic alveg úr umferð. „Það er hættulegt að fara of mikið í Balic því þá losnar um aðra leikmenn liðsins,“ sagði norski þjálfarinn.

Það er þó sárabót fyrir Norðmenn að jafnteflið tryggði þeim sæti í forkeppni Ólympíuleikanna í vor en þangað fara þeir ásamt Svíum og leika við þá um 5. sætið á morgun. Sigurliðið í þeim leik fer í riðil með Íslandi í forkeppninni í Póllandi í vor. Ef Norðmenn hefðu tapað leiknum, hefðu þeir misst Pólverja uppfyrir sig og þurft að leika við Ungverja um 7. sætið á mótinu. Það hefði verið hreinn úrslitaleikur liðanna um sæti í forkeppninni.

Góður endasprettur Þjóðverja gegn Svíum

Það voru líka sviptingar og spenna í Þrándheimi þegar Þjóðverjar náðu að leggja Svía að velli, 31:29, og ná öðru sætinu í milliriðli númer tvö, riðli Íslands. Svíar voru stigi á undan þeim og nægði jafntefli til að fara í undanúrslitin en sænskur sigur hefði þýtt að þýsku heimsmeistararnir hefðu endað í 7. til 8. sæti á mótinu.

Leikurinn var í járnum allan tímann og Svíar lengi vel með yfirhöndina en staðan í hálfleik var 18:16, þeim í hag. Í seinni hálfleik skiptust liðin á um forystuna en undir lokin átti þýska liðið góðan sprett og breytti stöðunni úr 25:26 í 30:27. Það var of mikið fyrir Svía, Lennartsson minnkaði muninn í 30:29 þegar hálf mínúta var eftir og Svíar eygðu von um stig. Markus Baur innsiglaði hinsvegar sigur Þjóðverja 3 sekúndum fyrir leikslok, 31:29.

„Þetta var í heildina verðskuldaður sigur hjá okkur og sóknarleikurinn var sá besti hjá okkur í keppninni til þessa. Það hefði verið afar sárt að missa þennan leik niður í jafntefli en þetta var barátta fram á síðustu sekúndu eins og við var að búast,“ sagði Heiner Brand, þjálfari Þjóðverja.

Þýska liðið varð fyrir áfalli í leiknum þegar varnartröllið Oliver Roggisch meiddist en hann var svartsýnn eftir leikinn á að geta spilað gegn Dönum í undanúrslitunum á morgun.

Sannfærandi sigur Dana

Danir sigruðu Slóvena á allsannfærandi hátt, 28:23, en það var nánast hreinn úrslitaleikur liðanna. Reyndar þurftu Slóvenar, auk þess að sigra, að treysta á að Króatar myndu vinna Norðmenn til að ná sjálfir öðru sætinu í riðlinum.

Danir hafa hinsvegar verið í miklum ham í milliriðlinum, þeir burstuðu bæði Króata og Pólverja með tíu marka mun, og þeir voru einfaldlega of sterkir fyrir Slóvenana. Danir voru yfir í hálfleik, 15:11, og voru síðan komnir með sex marka forystu um miðjan síðari hálfleik, sem var meira en Slóvenar réðu við.

Tapið gegn Íslendingum var Ungverjum dýrt

Ungverjar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Frakka, 31:28, en franska liðið hafði ekki að neinu að keppa í þeim leik. Það hafði unnið alla sína leiki og tryggt sér efsta sætið í milliriðli tvö. En Ungverjar geta heldur betur nagað sig í handarbökin yfir því að hafa steinlegið gegn Íslendingum í fyrradag. Sigur í þeim leik hefði þýtt að þeir væru komnir í undanúrslitin á mótinu, í stað Þjóðverja.