Grétar Jónasson Segir fasteignasala gæta hagsmuna bæði kaupenda og seljenda.
Grétar Jónasson Segir fasteignasala gæta hagsmuna bæði kaupenda og seljenda.
„Ég get fullyrt að fasteignasalar gæta mjög vel að hagsmunum kaupenda. Ef þeir gera það ekki geta þeir skapað sér bótaskyldu.

„Ég get fullyrt að fasteignasalar gæta mjög vel að hagsmunum kaupenda. Ef þeir gera það ekki geta þeir skapað sér bótaskyldu.“ Þetta segir Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, en hann gagnrýnir harkalega orð Sigurðar Helga Guðjónssonar, formanns Húseigendafélagsins, sem sagði í viðtali við 24 stundir í gær að fasteignasalar drægju taum seljenda þrátt fyrir að eiga lögum samkvæmt að gæta hagsmuna bæði kaupenda og seljenda.

Sigurður Helgi sagði ennfremur í 24 stundum í gær að fasteignasalar tali gjarnan upp verð þar sem þeir fá greidda þóknun eftir verði seldrar eignar. Grétar segir það vera af og frá. „Fasteignasalar eru miklu oftar í því að draga úr óraunhæfum kröfum fólks um verð fasteigna sinna. Því seljendur ofmeta oft verðmæti eigna sinna. Hins vegar hefur seljandi lokaorðið um það verð sem auglýst er.“

Grétar segir hugmynd Sigurðar Helga um að fasteignasalar fái greitt tímakaup í stað hlutfalls af söluverði ekki vera nýja af nálinni. Fólk geri sér þó oft ekki grein fyrir því hversu mikill tími liggi að baki hverri sölu. „Með fasteignasala á tímakaupi gætu hagsmunir neytenda mjög snúist til hins verra.“

Hann segir ennfremur misskilning að fasteignasölur græði á tá og fingri. Athugun löggilts endurskoðanda hafi t.d. leitt í ljós að meðalfasteignasala sé „rekin rétt yfir núllinu“.

hlynur@24stundir.is

Þekkir þú til?