Sigmundur Sigurgeirsson fæddist í Vestmannaeyjum 9. janúar 1926. Hann lést á Droplaugarstöðum í Reykjavík 15. janúar síðastliðinn. Hann var sonur hjónanna Sigurgeirs Albertssonar, f. 19.3. 1895, d. 5.8. 1979, frá Ytri-Kárastöðum á Vatnsnesi og Margrétar Sigmundsdóttur, f. 23.7. 1898, d. 13.11. 1968, frá Hamraendum í Breiðuvík. Uppeldissystir Sigmundar er Jóhanna Maggý Jóhannesdóttir, f. 28.5. 1931, gift Arnþóri Ingólfssyni. Jóhanna og Sigmundur voru hvort tveggja í senn, systra- og bræðrabörn, en móðir hennar lést er hún var barnung og uppvaxtarár sín, frá fimm ára aldri, átti Jóhanna hjá Sigmundi og foreldrum hans.

Fyrri kona Sigmundar var Margrét Jóhannsdóttir frá Ólafsfirði. Þau skildu. Sigmundur kvæntist hinn 24.2. 1968 Ásdísi Sigurðardóttur, f. 22.2. 1941, frá Hrísdal í Miklaholtshreppi, dóttur Sigurðar Kristjánssonar og Margrétar Oddnýjar Hjörleifsdóttur. Börn Sigmundar og Ásdísar eru: 1) Sigurgeir Ómar, lögreglufulltrúi, f. 27.11. 1967, kvæntur Ingunni Mai Friðleifsdóttur, tannlækni, f. 31.5. 1964. Sonur þeirra er Sigmundur Árni, f. 4.11. 1997. 2) Margrét, flugfreyja, f. 6.3. 1971, gift Bjarna Ólafi Ólafssyni, lögreglufulltrúa, f. 15.8. 1965. Börn þeirra eru Ásdís Inga, f. 13.9. 2005, og óskírður drengur, f. 8.1. 2008.

Sigmundur ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann lauk sveinsprófi í húsasmíði árið 1945, 19 ára gamall, og öðlaðist meistararéttindi 1948, þá aðeins 22 ára. Sigmundur starfaði við smíðar alla sína starfsævi. Á síðari hluta starfsævinnar fékkst hann einkum við smíðar á snúnum stigum og stigahandriðum og prýða verk hans mörg hús á höfuðborgarsvæðinu. Helsta áhugamál Sigmundar var söngur. Hann söng í fjölda kóra um ævina, s.s. Drengjakór Reykjavikur, Karlakórnum Fóstbræðrum, Dómkórnum, Kór Grensáskirkju, Pólýfónkórnum, kór Seltjarnarneskirkju og Frímúrarakórnum. Hann var sæmdur æðsta heiðursmerki Fóstbræðra, gullhörpunni. Sigmundur var mjög félagslyndur og fyrir utan kórstarfið naut hann sín m.a. við störf innan Frímúrarareglunnar.

Útför Sigmundar verður gerð frá Seltjarnarneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku pabbi minn.

Þú hefur leitt mig í gegnum lífið og fyrir það verð ég þér ævinlega þakklát. Frá þeirri stundu sem ég fæddist var ég pabbastelpan hans pabba. Ég er stolt af því að hafa átt svona sniðugan og góðan pabba. Af því að eiga pabba sem gaf sér tíma með mér og vinkonum mínum. Brallaði ýmislegt með okkur og fékk okkur til að hlæja. En síðast en ekki síst hef ég alltaf verið stolt af því að eiga svona glæsilegan föður. Svo tignarlegan og myndarlegan. Eins og þú sagðir svo oft sjálfur: ,,Magga mín, voðalega ertu myndarleg. Enda ertu svo lík mér.“ Við vorum ansi lík í útliti og fasi.

Æskuminning mín um þig er annars vegar þú í vinnufötunum þínum, með tálgaðan smiðsblýant á bak við annað eyrað, tommustokk í rassvasanum og bílskúrinn fullur af sagi. Hins vegar þú stórglæsilegur, uppáklæddur í kjólfötum. Annað hvort að fara á Frímúrarafund eða syngja með Fóstbræðrum.

Já, það voru margar skemmtanirnar sem þú söngst á. Enda félagslyndur og kátur maður.

Pabbi minn, eins og ég sagði áðan þá höfum við leitt hvort annað í gegnum lífið. Gegnum súrt og sætt. Stundum fauk í okkur bæði eins og gengur og gerist. Við vorum jú feðgin. En það var nú alltaf fljótt að fenna yfir það. Samband okkar var mjög sterkt. Kannski alveg einstakt. Við skildum alltaf hvort annað án þess að tala um það.

Ég kynnti Bjarna fyrir ykkur mömmu og eftir aðeins viku kynni, vissir þú strax að þarna væri góður maður fyrir mig. Enda sagðir þú við hann þegar hann bað um hönd mína, að þið mamma tækjuð ekki við mér aftur.

Ég er svo fegin að hafa haft þig við hlið mér þegar ég gifti mig. Ég veit að þú varst að springa úr stolti líka. Mikið höfum við verið myndarleg saman, feðginin.

Ég veit að þið mamma áttuð gott líf saman í rúm 41 ár og þú varst montinn pabbi þegar við Sigurgeir fæddumst. Barnabörnin ykkar, þau Sigmundur og Ásdís Inga, hafa veitt ykkur mikla ánægju síðustu ár. Og núna 8. janúar, daginn fyrir afmælið þitt, kom þriðja barnabarnið í heiminn. Hann átti reyndar að koma á afmælisdaginn þinn, en svona er nú lífið merkilegt. Því ef hann hefði fæðst degi seinna, þá hefðir þú líklega ekki náð að sjá fallega afadrenginn þinn. Við Bjarni komum með hann til þín beint af fæðingardeildinni þriggja daga gamlan. Mikið varstu ánægður afi. Þú sagðir líka alltaf að þetta væri strákur og fylgdist með meðgöngunni af miklum áhuga. Eitt af því síðasta sem þú sagðir við mig var: „En hvenær fer svo maginn, Magga mín?“

Það er gott að vita að þú fórst með bænirnar á hverju kvöldi og baðst fyrir okkur öllum í fjölskyldunni og gleymdir aldrei ófæddu barnabarninu.

Nú ert þú í bænum okkar allra, elsku pabbi minn. Við biðjum góðan Guð að taka þig í faðm sinn. Þú varst sterkur og skemmtilegur karakter.

Minning þín er ljóslifandi í hugum okkar allra og lofum við að halda henni að barnabörnunum þínum um ókomna tíð.

Við trúum því að þú hafir verið tilbúinn í ferðalagið langa og að nú sért þú verndarengillinn okkar. Þín verður ávallt saknað.

Þín dóttir,

Margrét og fjölskylda.

Ég vil minnast Sigmundar tengdaföður míns með nokkrum orðum. Þegar ég og Margrét fórum að kynnast fyrir um átta árum þá var maður eins og vera ber kynntur fyrir verðandi tengdaforeldrum. Mér var afskaplega vel tekið af Ásdísi og Sigmundi með mikilli hlýju og þægilegu viðmóti. Við Sigmundur urðum frá þeirri stundu góðir vinir.

Sigmundur hafði frá miklu að segja og sátum við oft lengi og spjölluðum. Við höfðum báðir gaman af karlakórssöng og þar var Sigmundur á heimavelli. Held að hann hafi

kunnað öll íslensk karlakórslög.

Þegar ég byggði skjólvegg fyrir framan íbúðina okkar Margrétar kom smíðakunnátta Sigmundar sér vel. Ég átti alltaf eftir að smíða hlið á skjólvegginn. Einn laugardaginn þegar mæðgurnar, Ásdís og Margrét, fóru upp á Akranes þá var það ákveðið að ég og Sigmundur færum í að smíða hliðið. Ásdís sagði við mig að Sigmundur ætti bara sitja og segja mér til, hann átti ekki að gera neitt. Ég sagði náttúrulega auðvitað. Stuttu eftir að þær voru lagðar af stað þá sagði Sigmundur við mig: ,,Jæja, eigum við ekki að fara að smíða“ og út fórum við að smíða. Ég sagði við Sigmund að taka því rólega, minnugur þess hvað Ásdís sagði við mig en Sigmundur dreif verkið áfram. Sigmundur kenndi mér handbrögðin og sýndi mér hvernig best væri að saga og smíða hliðið, sagði við mig: ,, Ekki gera þetta svona erfitt.“ Þar sá maður hvers konar meistari í smíði var þarna á ferð. Hliðið rauk upp þennan laugardag og þegar við vorum búnir þá sagði Sigmundur við mig: ,,Ekki segja Ásdísi hvað ég hvað ég var að gera.“

Sigmundur var meistari í smíði stiga og handriða. Á æskuheimili mínu á Grenimel er stór og mikill stigi og þegar Sigmundur og Ásdís komu þangað í heimsókn þá kannaðist Sigmundur við stigann. Sagði að það hefði verið hann og Sigurgeir faðir hans sem smíðuðu stigann.

Við ferðuðumst til Kanada um páskana árið 2001 og til Svíþjóðar árið 2003. Í Svíþjóð kom Sigmundur skemmtilega á óvart þegar við tókum brids. Þá kom í ljós að hann mundi allar sagnir. Og kom okkur öllum á óvart. Síðan brá hann fyrir sig sænskunni þegar sá gállinn var á honum.

En allra skemmtilegustu ferðirnar voru á Hamraendum á Snæfellsnesi. Þar leið Sigmundi svo vel. Sigmundur var skemmtilegur ferðafélagi, vegna þess að hann hafði frá svo mörgu að segja og milli þess sungum við hástöfum.

Á Hamraendum varð Sigmundur alltaf að fara niður fyrir Hamar. Hin seinni ár þegar hann átti erfitt með að ganga þá ókum við niður fyrir Hamar og leiðbeindi Sigmundur mér vegna þess að hann kunni staðhætti svo vel.

Um jólahátíðina var öll fjölskyldan saman bæði í Klukkubergi og á Þorragötu. Um áramótin voru Sigmundur og Ásdís hjá okkur og sungum við saman Nú árið er liðið.

Það voru mikil forréttindi að hafa kynnst Sigmundi. Hann var glaðvær maður sem heilsaði manni alltaf með virktum. Enda sagði ég alltaf við Sigmund tengdaföður minn að hann væri toppmaður.

Fjölskyldan mun halda minningu hans á lofti.

Bjarni Ólafur Ólafsson.

Bros, gleði, söngur, þessi orð lýsa honum tengdapabba best.

Enda eru þær margar góðu minningarnar sem koma í huga okkar fjölskyldu Sigmundar nú þegar komið er að kveðjustund. Brosið var eiginlega hans aðalsmerki.

Lífsgleði hans og glaðværð var smitandi. Hann naut þess að syngja.

Hann var hafsjór af sögum frá liðnum tímum og gat brugðið upp myndum í frásögn þannig að manni fannst maður sjálfur vera staddur í sögunni. Þannig röltum við saman upp Klifhraunið í Breiðuvíkinni og upp á jökul. Þar smíðaði Sigmundur sæluhús hátt við rætur Snæfellsjökuls fyrir Ferðafélag Íslands. Þannig komst maður líka inn á Bessastaði og hitti Svein Björnsson forseta og fékk kaffi hjá frú Georgiu Björnsson og fór um sveitir landsins á besta bíl allra tíma, fimmtán-gat-fjórir.

Snæfellsnesið og jökullinn voru Sigmundi hugleikin. Hann dvaldi löngum hjá ömmu sinni og afa nafna sínum á Hamraendum í Breiðuvíkinni. Stoltur gekk hann svo um túnin með okkur og sagði sögur af fólkinu sínu og ævi þeirra. Svona tengjast kynslóðirnar í frásögnum og minningar lifa. Sigmundur Árni, 10 ára afastrákur, minnist afa síns með sögum af skondnum atvikum og er þess fullviss að nú sé afi komin til Sunnu.

Minningin um Sigmund er minning um góðan mann. Við gleðjumst yfir ævi hans og þökkum honum þann tíma sem við nutum hans.

Ingunn Mai.

Kveðja frá mágkonum

Sigmundur mágur okkar var í móðurætt frá Hamraendum á Snæfellsnesi. Þar bjuggu móðurforeldrar hans Sigmundur og Margrét rausnarbúi. Við sem áttum heima fyrir vestan á þessum tíma, heyrðum af þessu fjölmenna heimili sem var orðlagt fyrir gestrisni og glaðværð, ekki síst var þar mikið sungið.

Sigmundur ólst upp í Reykjavík og var eina barn foreldra sinna. Systir okkar, kona hans, er yngst af ellefu systkinum. Fljótt og vel varð Sigmundur einn af okkar stóra frændgarði. Hann hafði einstaklega hlýja og glæsilega framkomu, glaðvær og brosmildur. Þá er ótalið aðalsmerki hans sem var söngur. Oft nutum við þess á góðra vina fundum, stórum og smáum hversu gott hann átti með að sameina fólk í söng og leiða sönginn lagviss og raddmikill.

Heimili hans og Dísu systur var alltaf opið okkur og fólkinu okkar utan af landi. Þar dvöldu ungmenni sem þurftu í skóla suður, ekki í nokkrar vikur heldur í marga vetur sum hver. Þetta var ekki bara fæði og húsnæði heldur heimili þar sem samvinna, snyrtimennska og reglusemi ríkti. Góður skóli fyrir ungt fólk. Fyrir allt þetta þökkum við af alhug.

Fyrir rúmum tuttugu árum voru Hamraendar til sölu, Sigmundur og fjölskylda hans keyptu jörðina ásamt öðrum. Það var hans mikla gleði að fara vestur, gera við og smíða, dytta að öllu smáu og stóru, vandvirkur og laginn smiður sem hann var. Þar er nú unaðsreitur fjölskyldunnar og aftur ríkir gestrisni og glaðværð í gamla húsinu, eins og var í tíð afa hans og ömmu.

Í þakklátum huga geymum við sönginn, brosið og glaðværð Sigmundar mágs okkar og yljum okkur við á efri árum.

Systurnar frá Hrísdal,

Kristjana, Elín, Olga, Lena og Anna.

Þegar móðursystir mín hún Ásdís fann hann Sigmund og þau urðu lífsförunautar kynntumst við hennar nánasta fjölskylda þessum heiðursmanni sem Sigmundur Sigurgeirsson hafði að geyma. Hann var með óvenju létta lund og glettin tilsvör og mikill gleðimaður. Hann kom til okkar fjölskyldu sem þá bjó á Miklubraut 82 eins og hann var klæddur og ávann sér vináttu foreldra minna og okkar Þórhalls og barna okkar með sinni ljúfu og einlægu framkomu. Fjölskyldur okkar áttu mikil samskipti og góð þar sem börn okkar kynntust og oft var glatt á hjalla. Ég leit yfir gamlar myndir frá foreldrum mínum þar sem sjá má Sigmund og bátinn hans við vör uppi í Saltvík þar sem hann og pabbi skelltu sér á sjóinn saman og höfðu mikið gaman af. Myndir minninganna eru líka tengdar afmælum í fjölskyldunni og ættarmótum þar sem fjöldi afkomenda okkar kæru ömmu Margrétar og Sigurðar afa kom saman. Sigmundur fann sig einstaklega vel í þessari mannmörgu fjölskyldu og lét ekki sitt eftir liggja í að gera góða stund enn betri með sínu einstaka glaðlyndi og góðvild. Eitt átti þessi hópur sameiginlegt en það er að vera Snæfellingar og vera því trúr alla ævi. Jökullinn ægifagri var hluti af þessum órjúfanlegu rótum sem við finnum svo vel fyrir sem eigum ættir og fæðingarstaði á þessum ævintýraslóðum. Það skipti þau máli að vera tengd bæði að Hamraendum, fæðingarstað Sigmundar, og í Miklaholtshreppinn þaðan sem Ásdís var. Sveitin þeirra í Breiðuvíkinni og samskiptin við Kristjönu móðursystur mína og börn hennar á ferðum sínum vestur var hluti af lífi þeirra og veitti þeim mikla gleði. Hjónaband hans og Dísu móðursystur minnar hefur verið farsælt og gjöfult þar sem kær börn þeirra Sigurgeir og Margrét hafa verið foreldrum sínum einstaklega kær og þau borið hag þeirra fyrir brjósti. Sigmundur varð sá stoltasti afi sem til var og er það mikill missir fyrir ung barnabörnin að fá ekki að kynnast kærum afa sínum í uppvextinum. Sigmundur hefur átt við heilsubrest að stríða í þó nokkur ár og hefur hans elskulega fjölskylda staðið einstaklega vel við hlið hans, þó enginn eins og hans kæra eiginkona. Það er þungbært að sjá á eftir æviförunaut og föður og afa þegar kallið kemur. Megi Guð styðja ykkur og styrkja við fráfall Sigmundar.

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir

og fjölskyldur.

Vinur minn Sigmundur Sigurgeirsson, húsasmíðameistari, er fallinn frá eftir stutt veikindi. Leiðir okkar Sigmundar lágu saman í gegnum son hans og mág minn Sigurgeir. Sigmundur var glæsilegur á velli. Hann var hreystimenni, vinur vina sinna, greiðvikinn og léttur í lund. Þegar veikindi fóru að segja til sín hélt hann alltaf í jákvæðnina og gleðina, hún hvarf aldrei.

Sigmundur var einnig mikill hagleiksmaður því fáa gripi hef ég séð fallegri en þá sem hann smíðaði. Langborðið á Hamraendum á Snæfellsnesi, þaðan sem fjölskylda Sigmundar er ættuð, er meðal þessara gripa. Við það fallega og trausta borð höfum við fjölskyldan oft setið og rætt um þá tíma og þær aðstæður sem Sigmundur ólst upp við á sínum tíma. Fyrir nokkrum árum stóð Sigmundur af sér ströng veikindi. Stuttu síðar var hann ásamt fjölskyldunni á uppáhaldsstað sínum, í heimahögunum á Hamraendum. Þar lék hann sem oftar á als oddi og naut sín svo vel að fjölskyldan þurfti að beita lagni við að ná honum heim í hús áður en nóttin skall á því hann vildi njóta víðáttunnar og sjávarloftsins á fallegu gulu sandströndinni sinni sem allra lengst. Í

framtíðinni munum við minnast hans þar sem hann stendur höfðinglegur í fasi og horfir út á ólgandi sjóinn af gulu sandströndinni sinni fyrir vestan.

Sigmundur var félagslyndur og hafði gaman af félagsstarfi ýmiss konar. Hann var m.a. um langt skeið í Frímúrarareglunni, Karlakórnum Fóstbræðrum og fleiri kórum. Þegar hann söng á tónleikum fannst mér hann svo virðulegur í fasi og glæsilegur þar sem hann stóð teinréttur og hóf upp raust sína.

Sigmundur og Ásdís voru afar gæfurík og samhent hjón. Þau stóðu þétt við bak barna sinna, Sigurgeirs og Margrétar og barnabarnanna, Sigmundar Árna Sigurgeirssonar og Ásdísar Ingu Bjarnadóttur.

Barnabörnin voru Sigmundi mikill gleðigjafi, en hann var einstaklega

barngóður. Önnur börn kölluðu hann gjarnan afa og hændust að honum. Nokkrum dögum fyrir fráfall Sigmundar fékk hann að sjá enn eitt barnabarnið sem þá bættist í hópinn fallegur og hraustur drengur, Bjarnason. Við fjölskyldan munum sakna Sigmundar. Þökkum við honum fyrir allar skemmtilegu samverustundirnar bæði í borg og sveit í gegnum árin. Ásdísi, Sigurgeiri,

Margréti, Ingunni, Bjarna Ólafi og öðrum aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð vegna fráfalls hans. Megi Guð blessa minningu Sigmundar.

Siv Friðleifsdóttir

og fjölskylda.

Við kynntumst Sigmundi sem föður góðvinar okkar Sigurgeirs. Sigmundur var stéttlaus maður í þeim skilningi að hann kom fram við alla sem jafningja, hvort sem það voru menn eða málleysingjar. Hlustaði, tók mark á og sýndi nærgætni. Hvatti okkur áfram til dáða í námi, leik og starfi. Það er gott veganesti þegar lagt er af stað út í lífið að kynnast fólki eins og honum, „toppmaður“ eins stundum er sagt. Bílskúrinn á Selbrautinni var trésmíðaverkstæðið hans og augljóst að vandvirkur maður var á ferðinni. Alltaf var tími til að spjalla og fara yfir stöðuna, segja brandara, brosa og hlæja. Prakkarastrikum þótti honum sérstaklega gaman að og ef menn höfðu komið sér í einhver vandræði með prakkaraskap þá stóð hann við hlið þeim, leiðbeindi að réttri leið og kenndi þannig muninn á réttu og röngu. Ekki með látum heldur með hlýju og virðingu. Á heimili hans og Ásdísar vorum við alltaf velkomnir og tekið með gleði og efst er okkur í huga þakklæti fyrir samskipti við þennan skemmtilega, lífsglaða og góða mann. Megi góður Guð blessa minningu hans og leiða og styrkja ættingja og ástvini.

Jón Gunnar Jónsson og

Sigurður Arnarson

í Lundúnum.

Sigmundur Sigurgeirsson er látinn, 82 ára að aldri. Leiðir okkar lágu fyrst saman þegar við Jónína fluttum á Seltjarnarnes árið 1986 í næsta hús við Sigmund og Ásdísi Sigurðardóttur. Við fundum strax að þar voru traustir nágrannar sem voru ávallt tilbúnir að leggja gott til mála og rétta hjálparhönd. Á þeim tíma voru börn okkar ung og fundu þau einnig til góðsemi og hlýju þeirra Sigmundar og Ásdísar. Fljótlega tókst traust vinátta með fjölskyldunum.

Einn góðviðrisdag árið 1987 kom Sigmundur að máli við mig og spurði hvort ég hefði hug á að kaupa með honum jörð á Snæfellsnesi. Um var að ræða ættaróðalið Hamraenda í Breiðuvík, sem afi hans og amma, Sigmundur og Margrét, höfðu byggt upp af dugnaði. Af þeim hjónum er skemmtileg frásögn í Skáldatíma Halldórs Laxness sem nefnist Upphaf Heimsljóss. Þar er Sigmundi gamla lýst sem ósviknum skaftfellskum öðlingi. Hann hefur verið heljarmenni því að hann fylgdi Halldóri hálfáttræður yfir Kambsheiði til Ólafsvíkur að vetri til í klofdjúpum snjó og blés vart úr nös. Margrét kunni rímur og var vel að sér í bókmenntum. Árið 1936 þegar þessi heimsókn átti sér stað höfðu þau byggt steinhús á Hamraendum.

Hugmynd Sigmundar um jarðarkaupin kom mér nokkuð á óvart en eftir að hafa skoðað jörðina varð ekki aftur snúið. Hamraendajörðin er mikil gersemi staðsett undir Snæfellsjökli og nær frá hvítri sandströnd upp að vatnaskilum á fjalli. Húsakostur var farinn að láta á sjá og þarfnaðist endurbóta. Á næstu árum var lögð mikil vinna í að standsetja íbúðarhúsið og var það tilefni til að fara vestur, njóta náttúrunnar og vinna við húsið. Í þessum ferðum kynntust við Sigmundi og fjölskyldu hans betur og börnin tóku ástfóstri við þetta undraland.

Mér er sérstaklega minnisstæð vinnuferð að vori þegar við Sigmundur fórum tveir saman vestur. Það var létt yfir okkur á leiðinni og við sungum skipshafnarkórinn úr Hollendingum fljúgandi sem Sigmundur hafði sungið með Fóstbræðrum. Hann hafði djúpa baritónrödd og sagði mér að á Hamraendum hefði verið sungið dátt og haldin böll í sveitinni. Við unnum af kappi frá morgni til kvölds. Sigmundur var smiður og sérlega verklaginn. Verkefnið þessa helgi var að standsetja baðherbergi með múrvinnu, pípulögnum og fleiru. Allt gekk þetta prýðilega þar til okkur vantaði ¾ tommu rörbút sem beygði í 90°. Það var laugardagseftirmiðdagur og engar verslanir í nánd. En Sigmundur fann lausn á því. Við fórum í heimsókn að Hlíðarholti þar sem Þráinn svili hans og Kristjana mágkona bjuggu. Eftir að hafa þegið kræsingar hjá þeim hjónum fórum við með bónda út í verkfærageymslu og fengum nákvæmlega það sem okkur vantaði. Það skortir ekki úrræði eða hjálpsemi til sveita á Íslandi.

Sigmundur var gæfumaður í einkalífi og þau Ásdís samhent hjón sem gott var að eiga vinfengi við. Sigmundur var hávaxinn og myndarlegur maður, glaðlegur í fasi og léttur í lund. Þegar ég kynntist honum var hann um sextugt og unglegur. Hann hafði veikst alvarlega um fertugt en aldrei fannst það á honum. Hann var kappsamur til allra verka og ósérhlífinn, fullkomlega treystandi í einu og öllu. Ef menn brugðust trausti hans var það ekki svo auðveldlega endurheimt. Við bárum gæfu til að standa saman og treystum hvor öðrum. Nú þegar leiðir skilur minnumst við með þakklæti góðrar vináttu og vottum Ásdísi og börnunum okkar innilegustu samúð.

Steinn Jónsson.

Kveðja frá Karlakórnum Fóstbræðrum

Látinn er Sigmundur Sigurgeirsson, fyrrverandi félagi í Karlakórnum Fóstbræðrum. Sigmundur gekk til liðs við kórinn og söng sína fyrstu tónleika árið 1955, þá 29 ára að aldri. Hann starfaði óslitið með kórnum til ársins 1982. Hann kom síðar aftur til starfa árið 1993 og söng síðast með kórnum árið 1996 á 80 ára afmæli Fóstbræðra. Sigmundur söng 2. bassa og hafði djúpa og hljómmikla rödd.

Árin 1961 til 1974 gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum innan kórsins sem raddformaður, í ferðanefnd kórsins og síðar formaður ferðanefndar. Sigmundur fékk Gullhörpuna, æðsta heiðursmerki Fóstbræðra, árið 1975 sem veitt er fyrir 20 ára starf í kórnum. Sigmundur tók þátt í fjölmörgum utanferðum kórsins, fyrst árið 1960 þegar Fóstbræður fóru í söngför til Noregs. Síðasta utanförin sem Sigmundur fór í með kórnum var árið 1996 þegar Fóstbræður héldu í söngferð til Norðurlanda og Eistlands.

Árin 1969-1971 voru annasöm hjá Fóstbræðrum. Fyrir utan öflugt söng- og félagsstarf unnu kórmenn hörðum höndum að því að koma upp félagsheimili fyrir starfsemi kórsins. Sigmundur lét sitt ekki eftir liggja og var hann í vaskri sveit kórfélaga sem unnu óeigingjarnt starf við að gera drauminn um Fóstbræðraheimilið að veruleika. Við sem nú störfum í kórnum njótum afraksturs þess metnaðar og dugnaðar sem félagar okkar sýndu með störfum sínum fyrir kórinn. Sigmundur var sannarlega einn þeirra vösku manna sem við lítum til með þökk og virðingu.

Fyrir hönd kórsins votta ég eiginkonu hans og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð.

Smári S. Sigurðsson,

formaður Fóstbræðra.