Líkamsklukkan Rugl kemst á svefnmunstur líkamans þegar við förum seint í rúmið um helgar og sofum svo út.
Líkamsklukkan Rugl kemst á svefnmunstur líkamans þegar við förum seint í rúmið um helgar og sofum svo út. — Reuters.
ÞAÐ virðist skipta máli hvaða dagur vikunnar er upp á það hversu góðum svefni við náum, samkvæmt könnun sem gerð var fyrir hótelkeðjuna Travellodge og greint var frá á vefmiðli BBC fyrir skemmstu. Samkvæmt könnuninni sem gerð var á 3.

ÞAÐ virðist skipta máli hvaða dagur vikunnar er upp á það hversu góðum svefni við náum, samkvæmt könnun sem gerð var fyrir hótelkeðjuna Travellodge og greint var frá á vefmiðli BBC fyrir skemmstu. Samkvæmt könnuninni sem gerð var á 3.500 fullorðnum einstaklingum reyndist fólk eiga erfiðast með svefn aðfaranótt mánudags.

Um fjórðungur þátttakenda í rannsókninni viðurkenndi að hafa einhvern tímann tilkynnt sig veikan á mánudegi eftir að hafa sofið illa. Rannsóknin sýndi líka að 80% þátttakenda náðu sínum besta svefni á föstudagskvöldi, í lok vinnuvikunnar.

Erfið samskipti við yfirmann, áhyggjur vegna þess að viðkomandi þyrfti að flytja kynningu í vinnunni og ótti vegna tímatakmarkana á verkefnum gátu líka haft áhrif á svefninn. Eru svefntruflanir sagðar hafa neikvæð áhrif á einbeitingu okkar í vinnu, viðhorf gagnvart yfirmanni og geta jafnvel valdið því að við sofnum fram á skrifborðið. Tæplega helmingur þátttakenda sagðist til að mynda hafa gert mistök vegna skorts á einbeitingu, einn af hverjum þremur hafði látið skapið bitna á vinnufélögum og yfirmanni og fimmtungur kvaðst hafa sofnað í vinnunni.

Dr. Neil Stanley, svefnsérfræðingur við Norfolk og Norwich-háskólasjúkrahúsið, sagði áhyggjur tengdar vinnunni þó ekki einu ástæðu svefnleysis. „Svefnmunstrið fer gjarnan úr skorðum við að fólk fer seint að sofa og sefur út á morgnana. Þá reynir fólk sjaldnast mikið á sig andlega eða líkamlega á sunnudögum og í ofanálag hefur það oft neytt stórrar máltíðar sem maginn á erfitt með að melta,“ hefur BBC eftir Stanley. „Það sem líkami manns óskar í raun og veru er að fara á fætur og í rúmið á sama tíma á hverjum degi.“