Forleggjarar Sigurður Svavarsson og Guðrún Magnúsdóttir í Opnu.
Forleggjarar Sigurður Svavarsson og Guðrún Magnúsdóttir í Opnu.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

begga@mbl.is

„VIÐ erum byrjuð og búin að koma okkur fyrir á helgum stað, þar sem gamli Fram-völlurinn stóð; undir klettunum í Skipholtinu,“ segir Sigurður Svavarsson bókaútgefandi, sem hefur stofnað nýtt bókaforlag ásamt Guðrúnu Magnúsdóttur. Bæði eiga að baki 20 ára starf í bókaútgáfu.

Nýja forlagið heitir Opna, en hlutverk þess og markmið verður, að sögn þeirra Sigurðar og Guðrúnar, að stunda almenna bókaútgáfu auk þess sem fyrirtækið tekur að sér vinnslu og dreifingu verka fyrir innlendan og erlendan markað.

Búa yfir mikilli reynslu

Sigurður verður útgefandi Opnu og Guðrún framkvæmdastjóri. Þau hafa í starfi sínu tengst öllum þáttum bókaútgáfu, allt frá hugmynd til prentaðrar bókar. Sigurður var síðast aðalútgáfustjóri Eddu en áður hafði hann meðal annars verið framkvæmdastjóri Máls og menningar. Guðrún var forstöðumaður framleiðsludeildar Máls og menningar og síðar Eddu. Hún annaðist verkstjórn á ritstjórn Eddu og stýrði framleiðslu á hundruðum titla árlega. Það má því segja að stofnendur Opnu búi yfir gríðarlegri reynslu á sínu sviði. Guðrún segir reynslu skipta miklu máli í bókaútgáfu, en auk þess þurfi ákveðin ástríða að vera fyrir hendi. „Við hlökkum til að virkja reynslu okkar og áhuga undir eigin merkjum og vonumst til að geta átt þátt í að gera íslenska útgáfu enn fjölbreyttari og þróttmeiri.“

Sigurður segir aðspurður að Opna muni ekki sinna fagurbókmenntum að sinni, og því sé ekki um að ræða að þau Guðrún „taki með sér“ skáld frá fyrri vinnustað. „Við erum í rauninni að byrja frá grunni. Við erum búin að kaupa útgáfurétt á nokkrum erlendum bókum, en erum líka með íslenska höfunda á okkar snærum. Þetta eru höfundar fræðibóka, ævisagna og annarra bóka.“

Spurður um hvers vegna Opna muni ekki sinna fagurbókmenntum, segir Sigurður þeim markaði ágætlega sinnt. „Okkar hugmyndafræði gengur út á það að verða góð á okkar afmarkaða sviði, og þess vegna viljum við ekki dreifa okkur yfir of mikið, alla vega ekki í upphafi; heldur sinna því af kostgæfni sem við teljum okkur vera best í. Okkur langar til að verða bókaforlag sem stendur fyrir gæði, vandvirkni og metnað.

Við munum leggja nokkra áherslu á stórvirki og bækur sem eru miklar að efni og burðum, við viljum gefa út bækur sem takast á við samfélagið, efla umræðu eða koma málum á dagskrá, og sýna að bækur séu ennþá í umræðu dagsins. Ég útiloka ekki að við verðum með skáld á okkar snærum, það verða þá fáir einstaklingar sem við getum sinnt af alefli.“

Það besta á erlendan markað

Von er á fyrstu bókunum frá Opnu í maí. „Það verða annars vegar bók um himinhvolfin með geysilega fallegum ljósmyndum, og hins vegar leiðsögurit um Ísland. Á þessu stigi get ég ekki gefið upp hverjir höfundarnir eru.“ Áætlanir og samningar liggja fyrir um fleiri verk til útgáfu hjá Opnu. Meðal væntanlegra verka er stórvirki um myndlistarsögu mannkynsins, grundvallarrit um íslenska náttúru, fræðirit fyrir almenning um loftslagsmálin, tvær íslenskar ævisögur og eftirtektarverðar dýralífsbækur. En Opna stefnir einnig á stærri mið.

„Ég hef oft haldið því fram að íslenskir útgefendur, höfundar og hönnuðir standist fyllilega samjöfnuð við það sem best er gert í útlöndum á þessu sviði. Þess vegna gengur draumur okkar út á það að ná að færa það besta sem gert er hér á landi í útgáfu til útlanda, um leið og við kappkostum að færa Íslendingum á sínu móðurmáli það sem okkur finnst myndarlega gert í útlöndum. Ég er að tala um útrás á íslensku bókverki, öðru en fagurbókmenntum. Við eigum til dæmis raunvísindamenn í fremstu röð, ljósmyndara og listamenn sömuleiðis og ég held að það muni opnast leiðir fyrir þetta fólk til útlanda ekkert síður en fyrir skáldin. Þannig er í það minnsta það metnaðarfulla plan sem við höfum sett okkur,“ segir Sigurður.

Þau Guðrún og Sigurður búa að tengslum við stærstu útgáfufyrirtæki Evrópu og Norður-Ameríku, auk allra helstu útgáfufyrirtækja á Norðurlöndum. Ýmsir bakhjarlar, sem meðal annars tengjast bókagerð, grafískri hönnun og upplýsingamiðlun, standa að Opnu með þeim.