Framköllun litar „... á vegg sést skjámynd af málningunni í beinni útsendingu, “ segir meðal annars í dómi.
Framköllun litar „... á vegg sést skjámynd af málningunni í beinni útsendingu, “ segir meðal annars í dómi. — Árvakur/Valdís Thor
Opið þriðjudaga til föstudaga kl. 11–17 og laugardaga 13–17. Sýningu lýkur 16. febrúar. Aðgangur ókeypis

Í SINNI síðustu kvikmynd, „Blue“ (1993), gekk breski kvikmyndagerðarmaðurinn Derek Jarman svo langt að sýna eingöngu bláan lit á kvikmyndatjaldinu í eina klukkustund og sautján mínútur. Og á meðan greindi listamaðurinn, sem kominn var með alnæmi á háu stigi, frá því hvernig hann nálgaðist dauðann.

Blái liturinn, táknrænn fyrir sorg og eftirsjá, rótaði þá í sálartetri áhorfandans í bland við prósakennda frásögn Jarmans.

Kvikmyndina tileinkaði Jarman franska listamanninum Yves Klein, sem einnig lést um aldur fram. En Klein var þekktur fyrir einlit blá verk, sérlega djúpstæð og tóm, í andlegum skilningi.

Blár er líka í aðalhlutverki á sýningu Ívars Valgarðssonar, Stilla, gárur, straumar , sem nú stendur yfir í gallerí i8. Á gólfinu er fata full af blárri málningu og á vegg sést skjámynd af málningunni í beinni útsendingu, þ.e. einlit blá kvikmynd. Á öðrum vegg hangir ljósmynd sem sýnir húðina á þornuðum bláum lit sem hefur gárast svo hann minnir á yfirborðs hafsins.

Í viðtali í Morgunblaðinu spyr Ívar (eins og Ragnheiður Hrafnkelsdóttir gerir í sýningarskrá): „Er hafið blár vatnslitur?“ Spurning þessi er lymskuleg, því að hafið er auðvitað ekki blátt. Það er glært. Himinninn er hins vegar blár og hann speglast í hafinu sem í raun miðlar lit himinsins. Við skynjum hann þá í tveimur ólíkum útgáfum, frummynd og eftirmynd. Hið sama gerist með litinn á sýningu Ívars sem er framreiddur í þremur ólíkum útgáfum, þ.e. í málningu, í skjámynd og í kyrrmynd eða frummynd, eftirmynd og eftirmynd.

Ívar er þess heldur að fást við framköllun litar en skynræn eða sálræn áhrif hans, líkt og Jarman og Klein gerðu. Hér eru það miðillinn, hegðun efnis og síbreytilegt umhverfið eða rýmið, sem hefur áhrif á hvernig liturinn birtist manni.

Jón B.K. Ransu

Höf.: Jón B.K. Ransu